Það er svo margt að gleðjast yfir þegar kemur að GKG, þar má t.d. nefna hið gríðarlega öfluga kvennastarf sem fram fer í klúbbnum og þá afar sterku kvennasveit sem klúbburinn býr yfir. Ein af flottu keppniskylfingum klúbbsins er Hanna Bára Guðjónsdóttir sem býr í Garðabæ og er með 15,5 í forgjöf eftir breytinguna 1. mars síðastliðinn. Hanna Bára verður 60 ára á árinu og fagnar því að sjálfsögðu með því að spila afmælisgolf í allt sumar. Það verður örlítil draumapressa á henni á stóra deginum sjálfum þar sem hún átti sinn besta golfhring á 59 ára afmælisdeginum sólarsumarið 2019. Til hamingju með stórafmælisgolfsumarið framundan Hanna Bára og njóttu þess vel!
Hvað dró þig að golfinu? Forvitni, með það að leiðarljósi að um gæti verið að ræða skemmtilegt hjónasport. Sem það svo sannarlega er.
Hvers vegna valdirðu GKG? Ég er haldin svona sveitarómantík og því kom ekkert annað til greina, auk þess sem stutt var að fara. Við Helgi, eiginmaður minn, gengum í klúbbinn fyrir um 15 árum, ásamt vinahjónum okkar og erum hér enn.
Mýrin eða Leirdalur? Leirdalurinn.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Já ég myndi segja það, grínin máttu samt vera hraðari framan af sumri.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Í draumahollinu mínu eru Birgir Leifur, Hulda Klara og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Það er margt skemmtilegt en hringurinn á afmælisdaginn minn í fyrrasumar á Leirdalnum stendur upp úr, 83 högg og niður í forgjöf í 12,1. Það var geggjað.
En það vandræðalegasta ? í Meistarmótinu 2012, á lokadegi, sló ég 12 högg á 13. braut og spilaði mig þar út úr verðlaunasæti.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Já, Meistarmótið er mitt uppáhaldsmót.
Texas Scramble eða Betri Bolta? Betri bolta.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? Sú 7unda, ég er svo ánægð með hana eftir breytinguna 2019.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni? 1. holan, hún krefst einbeitingar í fyrsta högginu og í byrjun leiks.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Það er Leynir á Akranesi.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Ég nota þá ekki mikið, finnst ég spila verr þar en úti á velli. En sé að ég þarf að læra betur á þá og nota þá meira.
Hver er uppáhaldskylfan? Ég held alltaf mikið upp á 8una mína.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Nei í raun ekki fyrirmynd en ég held mikið upp á Lexi Thompson, hún sýndi hvað hún er mikill íþróttamaður þegar hún fékk dæmd á sig fjögur högg í víti á lokadegi móts, eftir atvik sem átti sér stað daginn áður.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Ég tek nánast alltaf með mér banana, oft drykkjarjógurt og góða flatbrauðið með hangikjötinu frá honum Vigni í GKG.
Hvað er lang, lang best við GKG? Það er félagsskapurinn og samstaðan hjá okkur í GKG. Kvennastarfið er mjög öflugt. Ég hef verið svo heppin að hafa náð að vera inn í hópnum 50+ þar sem við berjumst um að komast í sveitakeppnina og spila fyrir GKG. Þar hefur María Guðnadóttir haldið utan um okkur og hvatt okkur óspart áfram. Svo eru vellirnir og öll aðstaðan alltaf að verða flottari og flottari, bæði á útisvæðum og einnig fyrir æfingar yfir vetrartímann.
Áfram GKG!