Ein af okkar flottu og góðu GKG-ingum er Hansína Þorkelsdóttir en hún er 43 ára Reykjavíkurbúi með 9,8 í forgjöf og segir allt gott, enda á hún svo sannarlega inni fyrir því! Gefum meistara Hansínu orðið.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Mig minnir að það hafi verið árið 2003 þegar ég laumaðist út að slá úr fötu sem hafði verið skilin eftir á æfingasvæðinu. Ég sló yfir 150 metra með járnakylfunni sem ég hafði í höndunum og þá kviknaði bakterían.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ég var fyrst skráð í GKj í Mosó en var ekki almennilega byrjuð að spila golf á þeim tíma. En svo var það sumarið 2004, þegar ég var að aðstoða móður mína sem rak veitingasöluna í GKG í nokkur ár, að ég ákvað að spyrja þáverandi framkvæmdastjóra GKG hvort það vantaði ekki efnilegar ungar konur í klúbbinn. Hann veitti mér samstundis inngöngu og tók ég þátt í mínu fyrsta meistaramóti GKG nokkrum dögum síðar.

Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?

Ég er að leika Leirdalinn mun oftar en Mýrina.

Hvernig líst þér á vellina okkar þetta sumarið og hvernig leggjast breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum í þig?

Mér finnst vellirnir vera sérstaklega flottir í sumar og breytingarnar leggjast frábærlega í mig. Þegar ég fór 10. holu í fyrsta sinn eftir breytingar þá var það fyrsta sem ég hugsaði „Auðvitað – svona átti þetta alltaf að vera!“

Hvernig er golfsumarið þitt búið að vera fram að þessu?

Golfsumarið er búið að vera frábært, reyndar byrjaði það ekki eins vel og ég hefði viljað, með töluverðri forgjafarhækkun en síðan þá hef ég náð eins konar jafnvægi en í dag sé ég að forgjafarhækkunin var í raun leiðrétting frekar en nokkuð annað.

Til hamingju með stórsigurinn í 1. flokki kvenna í meistaramót GKG í sumar, ekkert smá vel gert!
Hvert var leynivopnið þitt?

Takk kærlega! Veit ekki hvort ég hafi haft eitthvað leynivopn, kannski var það til happs að vera stútfull af kvefi og raddlaus í öllu mótinu og um leið laus við allar væntingar.

Er búið að vera mikið af mótum á dagskránni hjá þér í sumar?

Mótadagskráin var nokkuð þétt í sumar og helst ber að nefna Hjóna- og paramótið í Borgarnesi, Meistaramót GB og Meistaramót GKG, Liðakeppni GKG (Hansína er liðsstjóri Sláandi!) og svo er mótaröð á vinnustaðnum sem ég tek líka þátt í.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Veistu, ég held að ég geti ekki tekið 2-3 út fyrir sviga. Í gegnum tíðina er ég búin að kynnast svo ótal mörgum og skemmtilegum félögum og vinum í GKG sem ég elska að leika golf með. En hafandi sagt það, þá er allt of langt síðan að við Jónína P. og Bjössi lékum síðast saman í holli. Utanfélagsmaðurinn yrði Gummi minn.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Að fá að leika í BMW International golfmótinu á Phuket í Tælandi árið 2005, það var ógleymanleg upplifun. Þar fengum við keppendur lúxus upplifun sem verður líklega ekki toppuð aftur.

En það vandræðalegasta?

Að þríslá bolta þannig að hann endaði á að fara 30 metra aftur á bak, s.s. í öfuga átt frá skotmarkinu.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Mér finnst mjög gaman að spila mismunandi leikform, sérstaklega þegar kemur að liðakeppnum. En hversdags þá fer ég út á golfvöll til að keppa við sjálfa mig í höggleik.

Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?

Bestu golfkaupin eru góðir golfskór, verstu kaupin eru vondir golfskór.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Mér finnst gaman að standa á fyrsta teig og horfa niður á fallega en krefjandi fyrstu holu vallarins. Gengið á henni getur haft áhrif á leikinn sem framundan er.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Önnur holan er falleg og skemmtileg par 3 hola, hún er stutt en furðu strembin samt sem áður.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Ég á nokkra uppáhaldsvelli en mér finnst alltaf skemmtilegt að spila Jaðarsvöll á Akureyri en undanfarin 3 ár hef ég verið meðlimur í GB til viðbótar við GKG og ég verð að segja að Hamarsvöllur heillar mig sífellt meira eftir því sem ég spila hann oftar. Völlurinn er mjög vel hirtur, skemmtilegur en um leið krefjandi að leika.

Notar þú golfhermana yfir sumartímann?

Hef ekki notað hermana á sumrin, nei.

Hver er uppáhaldskylfan þín og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Af öllum kylfum þá svíkur driverinn mig sjaldnast og ég nota hann yfirleitt í upphafshöggum á lengri holum.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Já – ég á margar fyrirmyndir og allar af sinni einstöku ástæðu en ef ég á að nefna eina af þeim þá verð ég að nefna móður mína Rut Marsibil Héðinsdóttir, sem hefur leikið keppnisgolf með góðum árangri í 35 ár.

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?

Hleðsla, Kristall, góð samloka með eggjum og grænmeti og Eldstafir.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Maður eignast góða félaga og vini í GKG en ég held að við höfum náð að halda í einstaka stemmningu þrátt fyrir stærð klúbbsins, já og svo heldur GKG skemmtilegasta meistaramótið ?