Við eru óþreytandi við að monta okkur af stolti GKG; barna- og unglingastarfinu, öllu glæsilega unga fólkinu sem tilheyrir klúbbnum og öflugu kylfingunum sem starfið skilar af sér. Einn af þeim sem má segja að sé golfuppalinn í GKG er Garðbæingurinn Hilmar Snær Örvarsson en þessi 19 ára kylfingur er ekki einungis að brillera í golfinu heldur er hann líka stórmeistari á skíðum, með stóru ESSI!

Hann æfir skíðaíþróttina með Víkingi og var rétt í þessu að ljúka keppni í Evrópumótaröð IPC í alpagreinum þar sem hann var samanlagt  í fyrsta sæti í svigi, samanlagt í fyrsta sæti í öllum greinum,  annar í samanlögðu í stórsvigi og kom heim með hvorki meira né minna en 2 gull og 1 silfur! Það er aldeilis ekki allt heldur er þessi magnaði íþróttamaður fyrstur Íslendinga til þess að vinna sigur á Evrópumótaröðinni á skíðum!  Innilega til hamingju Hilmar Snær !

Kylfingurinn Hilmar Snær, sem er með 2,4 í forgjöf, er líka með fókusinn stilltan fyrr golfsumarið framundan, markmiðin eru klár og ef einhver kann að nesta sig vel fyrir hring þá er það þessi orkumikli snillingur. Við gefum Hilmari Snæ orðið.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Ég fékk golfsett í 10 ára afmælisgjöf og byrjaði að æfa stuttu eftir það.

Hvers vegna valdirðu GKG? Ég bý í Garðabæ og það var þægilegt fyrir mig að hjóla út á golfvöll.

Mýrin eða Leirdalur? Leirdalurinn.

Hafðir þú tök á að sinna golfinu sólarsumarið mikla? Ef svo, stóðu  vellirnir undir væntingum þínum? Ég spilaði alveg heilmikið golf það sumarið en var í fyrsta skipti í langan tíma ekki að vinna upp á golfvelli en vonandi verður þetta sumar svipað. Og já vellirnir fannst mér vera í mjög góðu standi.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Jón Gunnarsson og Gunnar Blöndahl, og Rory Mcilroy fengi að vera með þessi hrikalegu holli.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Það að byrja 4 undir pari eftir 4 holur á Íslandsmótinu í fyrra.

En það vandræðalegasta ? Á Íslandsmótinu í fyrra var kærastan mín kylfusveinn hjá mér og ekki veit hún mikið um golf og labbaði hún á 6. flötina með allt settið og kerruna.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Klárlega Meistaramótið.

Texas Scramble eða Betri Bolta? Betri bolti.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?  17. holan og sérstaklega þegar pinninn er hægri megin á flötinni því það er svo gaman að slá inn á þann pinna.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? 1. holan því hún góð opnunarhola og skemmtilegt að reyna við flötina.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Oddurinn.

Hver er upplifun þín af golfhermunum? Mjög fín og fer að nálgast fullkomnun.

Hver er uppáhaldskylfan? 3 járnið.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu? En á skíðunum? Rory McIlroy og á skíðum er það Marcel Hirscher sem var reyndar að hætta í fyrra.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Það er flatkökupakki, hnetupoki, orkustykki, heimagerður smoothie, banani og afgangur af kvöldmatnum deginum áður.

Er pláss hjá þér fyrir golfplan inn í sumarið 2020 og ef, hvert er markmiðið? Já, og markmiðið er komast alla vega undir 1 og spila vel í mótum.

Hvað er lang, lang best við GKG? Allt í kringum unglingastarfið.