Kópavogsbúinn Hjördís Ólöf Jóhannsdóttir smitaðist af hinni skemmtilegu golfbakteríu erlendis fyrir ca 10 árum í góðu veðri og frábærum félagsskap.  Hún byrjaði svo að dunda sér á par 3 velli hér heima árið 2013 og eftir það var ekki aftur snúið í golfinu. Útiveran og félagsskapurinn spila þar stóra rullu og eftir að hún fjárfesti í eigin golfkagga urðu lífsgæði golfsins enn meiri því Hjördís er með MS sjúkdóminn og þarf að aðlaga sig að golfinu út frá því og golfið að henni sem hefur gengið svona líka ljómandi vel. Leirdalurinn er aðal völlur þessa skemmtilega 55 ára gamla Gkg-ings sem er með um 33 í forgjöf og nýtur golflífsins í botn. Gefum henni orðið.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ég gat keyrt að heiman á golfkagganum mínum á völlinn og bestu vinir mínir voru félagar.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2021?

Já, algerlega. A.m.k. Leirdalurinn. Fullt af jákvæðum og flottum breytingum.

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir síðasta golfsumar?

Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri svo allt við golfið stendur almennt uppúr. Hefði viljað hafa haft meiri tíma þó fyrir golfið.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Erfitt að velja. Margir sem koma upp í hugann af vinum og golfvinum.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Holur í höggi hjá vinkonum mínum.   

En það vandræðalegasta?

Það er nú ansi margt vandræðalegt sem maður hefur lent í, held þó að það sé golfbíllinn sem ég strandaði á 1. braut í hálfgerðu síki undir trjám á velli á Florida. Fékk nýjan bíl, tafði hollin sem voru að byrja á eftir okkur og  það var enn verið að vinna í að losa bílinn 4 tímum síðar.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Ekki oft, en hef tekið þátt í meistaramóti einu sinni og hjóna- og parakeppninni þrisvar. Bæði mjög skemmtileg.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Öll sem ég hef spilað eru skemmtileg.

Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?

Bestu eru klárlega golfkagginn minn. Engin verstu sem ég man eftir. Ef þau eru einhver þá eru þau ekki dramatísk.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Fyrsta holan, þar sem maður er alltaf svo spenntur að byrja hringinn. Einnig 11. holan þar sem ég hef fengið fugl þar oftar en einu sinni.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Áttunda holan þar sem maður er alltaf í keppni við sjálfan sig að komast yfir göngustíginn í 2. höggi.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Erfitt að velja, Kiðjaberg líklega.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Já, af og til. Hef ekki verið dugleg að nota þá til annars en skemmtunar og það er virkilega gaman. Mig vantar að læra betur á þá til að nýta til æfinga.

Hver er uppáhaldskylfan og hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Sjöan. Það er hægt að nota hana í ansi mörg högg og hún er sú sem bregst mér síst.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Almenna kylfinginn sem jákvæður og duglegur að æfa sig! Þetta kemur J. Horfi nokkuð á golf og virkilega gaman að fylgjast með LPGA.

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?

Snickers kemur manni langt.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Lang flest bara. Alltaf gaman að koma.