GKG-ingur dagsins er Seljahverfisbúinn (en umfram allt Eyjapeyji) Hlöðver eða Hlöbbi eins og við köllum hann flest. Hann fór úr því að vera hálfpartinn neyddur út í golfið um fimmtugt í að vera alger meistari í sportinu og ekki bara fyrir sig heldur líka okkur hin því hann er einn af flottu PGA kennurum GKG, liðsstjóri og þjálfari eldri kylfinga klúbbsins og bara ein af öflugum sprautum GKG. Núna rokkar þessi 63 ára meistari á milli 4,5 – 5,5 forgjöf og er heldur betur lifandi sönnun þess að það er aldrei of seint að byrja í golfi! En Hlöbbi er ekki einungis golfari af líf og sál heldur einnig musiker mikill og Hrafninn sá er ekki í neinum vandræðum með að búa til heila hljómsveit úr draumahollinu sínu, ekki leiðinlegt það ?             

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Ég var hálfpartinn neyddur í golf þegar ég starfaði sem rekstrarstjóri hjá Samskipum. Þetta hefur sennilega verið árið 2003. Samskip og starfsmenn Jóna Transport  voru þá með mjög öflugan og skemmtilegan golfklúbb og marga mjög frambærilega kylfinga sem drógu vagninn. Þetta var held ég aðallega til að styrkja viðskiptasambönd og annað álíka enda mörg mjög skemmtileg golfmót á vegum Samskipa fyrir viðskiptavini og starfsfólk.  Ég hafði lítinn áhuga á golfi, fannst þetta ekki spennandi og gat ekki skilið fólk sem var að þvælast um golfvelli í kulda, roki og rigningu …..  Einnig hafði ég gamlar og óljósar hugmyndir um að það væri stundum fullmikið um áfengi í kringum þetta útivistarsport. Síðan þurfti ég oft að hlusta á Ragnar Ragnarsson og Hörð Geirsson tala um golf á ótalmörgum fundum vegna tölvumála í Samskipum og við hönnun á nýju tölvukerfi. En þetta átti heldur betur eftir að breytast og 2004 var ég alveg kolfallinn og síðan kominn með mitt fyrsta alvöru golfsett 2005. Þarna er ég að verða 48 ára og trúið mér,  það er aldrei of seint að byrja í golfi.       

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ég byrjaði í Setbergi með nokkrum vinnufélögum í Samskip aðallega til að fá skráða forgjöf.  Síðan var GKG með tilboð til félagsmanna í Setbergi þar sem til stóð að loka þeim velli í kringum 2007-8. Flestir mínir golffélagar og vinir fóru í GKG og það hentaði mér vel að elta þá yfir í GKG.    

Mýrin eða Leirdalur?

Leirdalur en Mýrin er líka alltaf góð þegar maður er knappur á tíma.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2020?

Já bara nokkuð góðir og verða alltaf betri með hverju ári sem líður og snyrtilegri. Frábært starf í gangi hjá Gumma og félögum allt árið um kring.  

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir sumarið?

Íslandsmót golfklúbba GSÍ 1 deild eldri kylfinga á Akureyri í ágúst. Vorum einstaklega heppnir með veður nánast logn og sól alla daganna  og Jaðarsvöllurinn var í mjög flottu standi. Flott liðsheild hjá okkur GKG -ingum og skemmtilegir félagar.  Unnum GR og Keilir á föstudeginum til að komast í úrslitaleikinn. Spiluðum við GA til úrslita en töpuðum naumlega fyrir Akureyringunum á heimavelli en náðum silfrinu. Þið vitið þá hvað verður næst ..

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Allir í GKG sem geta lyft kylfu og ég tæki síðan Neil Young með. Sennilega tæki ég Arnar Má með af því hann á gítar og syngur. Marino Má af því að hann á trommusett og Magnús Má ræsir myndi svo fylgja okkur eftir af því að hann kann á píanó. Toggi dómari gæti komið með sem kaddý af því að hann á bassa. Spurning um Bigga Leif á fiðluna og Agga á trompett  og svo myndum við halda heljarinnar tónleika með Neil og Söngfuglunum á Mulligan. Risa holl … í draumi.     

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Hola í höggi á Hamarsvelli 2004. Ótrúleg upplifun og skemmtileg. Smá undirbúningur fyrir höggið sem gerði þetta enn skemmtilegra og þetta er eins og það hefði gerst í gær svona ljóslifandi í minningunni. Síðan segir sagan að þetta hafi verið í mínu fyrsta golfmóti.  

En það vandræðalegasta?

Það sem mér hefur fundist pínlegt eða vandræðalegast er sennilega púttið mitt á 15. flöt í Vestmannaeyjum. Þetta var í mínu fyrsta Íslandsmóti eldri kylfinga árið 2015. Frábært veður og nánast logn. Ég átti geggjað teighögg niður á flötina á 15. braut og boltinn endaði innan við metra frá holu. Hollið mitt var ekki af verri endanum og ég fékk klapp á bakið og falleg og lífleg hrós. Hollið sem stóð á 14. teignum  klappaði mikil ósköp enda höfðu þeir verið að fylgjast með teighöggunum okkar af 15. teignum. Félagarnir kláruðu sín högg og pútt og síðan var beðið eftir því að sjá púttið mitt fyrir erni fara niður og allir tilbúnir til að klappa og fagna. Ég vandaði mig einhver ósköp eða þannig. Boltinn stefndi  beint í holu en þegar hann átti ca 5 cm eftir hoppaði hann til hliðar og framhjá. Boltinn hafði farið í stein sem stóð aðeins upp úr grassverðinum og því fór sem fór. Það var frekar vandræðaleg þögn næstu mínúturnar …  já, munið að skoða púttlínuna og hreinsa  …

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Meistaramót og innanfélagsmótin okkar. Bændaglíman var mjög skemmtileg núna og skemmtilegir félagar.  Ég myndi segja að GKG Ryderinn komi sterkt inn og einstakur árangur Seven Eagles & Albatross  afhjúpi ýmiss leyndarmál. Nei annars …  Meistaramótið er lang lang skemmtilegast.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Höggleiksformið eins og við keppum í Meistaramótinu og sveitakeppnum. Þetta eru nokkrir dagar og alltaf séns að bæta sig hafi eitthvað farið úrskeiðis. Allir eru líka vel innstilltir á keppnisskapið og ætla sér að gera sitt besta.
Íslandsmót golfklúbba eldri kylfinga er líka frábært þ.e höggleikur og riðlakeppni,  krossumspil í úrslit. Keppt í tvímenning og fjórmenning og oft mikið fjör og margir flottir og góðir kylfingar að takast á fyrir sinn golfklúbb og liðsheildin skiptir miklu máli.    

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Átjánda brautin er uppáhalds brautin/holan. Oftar en ekki ráðast úrslitin þar. Maður getur labbað þar upp brautina keikur eða pínu boginn eftir því hvernig staðan er. Yfirleitt gengur mér vel á þessari braut og hún getur verið skemmtilega krefjandi eftir því hvað er undir og hvaða ákvörðun er tekin í innáhögginu. Flötin er líka skemmtilega erfið. Ekki skemmir fyrir að hafa áhorfendur í klúbbhúsinu klappandi fyrir flottum innáhöggum og góðum púttum.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Sjöunda brautin. Það er alltaf þessi spurning með yfir vatnið. Erfið par 4.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Vestmannaeyjar er toppurinn. Jaðarsvöllur og Oddurinn koma sterklega til greina. Erlendis er Alcanada á Mallorca ótrúlega fallegur og skemmtilegur.   

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Já ég nota þá mikið bæði við kennslu og leik. Frábært að nota þá við kennslu fyrir alla kylfinga sama hvaða getustigi þeir eru á.  Fullt af flottum og gagnlegum upplýsingum um sveifluna og nemendur/kylfingar eru fljótir að læra inn á hvað skiptir máli og að æfa sig í hermunum. Síðan er alltaf gaman að keppa við félagana og spila skemmtilega velli og það getur verið hættulega gaman.

Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Ég á mér ekkert eina sérstaka kylfu sem uppáhalds kylfu. Flest allar kylfurnar detta inn annað slagið. Stundum er það driverinn eða 3 tré af braut. Núna er ég með 64° járn sem mér finnst gaman að leika mér með í kringum flötina.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Tiger Woods finnst mér frábær kylfingur og búinn að gera margt gott fyrir golfíþróttina ásamt Jack Nicklaus, Gary Player og þeir eru  endalaust margir flottir hver með sinn stíl. Síðan eru Annika Sorenstam, Laura Davies og Kathy Withworth allar mjög flottar og geta heldur betur sveiflað kylfu og eru flottar fyrirmyndir. Allir þessir kylfingar eru nánast alltaf að gefa af sér og miðla. Þarna er mikil ástríða á golfsportinu.  Síðan eru margir yngri kylfingar sem eiga eftir að setja sitt mark á golfið.     

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?

Bananar og vatn er alltaf í pokanum. Svo slæðist eitthvert smá súkkulaði með til vara ef mig vantar orku á síðustu holurnar.                                                                

Hvað er lang, lang best við GKG?

Aðstaðan, liðsheildin og félagsandinn. Mín upplifun er ótrúlega góð fyrir klúbbastarfinu öllu og öllum félagsmönnum. Við erum með ótrúlega flotta og vel menntaða  starfsmenn á öllum stöðum og vel haldið á allri starfsemi og góða framtíðarsýn. Síðan erum við með ótrúlega flotta og vel virka sjálfboðaliða sem skiptir gríðarlega miklu máli fyrir alla starfsemi GKG og gerir klúbbinn enn betri. Veitingarstaðurinn er bara snilld og góður andi í kringum allt þar og allan aðbúnað þegar halda skal veislur hvort sem er á vegum klúbbsins eða einstaklinga. Síðan er klúbbaðstaðan til æfinga bara frábærlega kolrugluð miðað við að við erum á Íslandi með alla þessa TrackMan golfherma. Inniaðstaðan uppi í Kór og síðan erum við að fara að opna endurbætta og nýja 850 fm glæsilega inniaðstöðu innan nokkurra daga sem verður  ótrúlega flott og hjálpar okkur að æfa og spila golf allt árið án tillits til veðurs. Allt þetta flotta umhverfi skilar okkur svo betri kylfingum og afrekskylfingum  sem halda uppi merki GKG og ekki er nú skortur á þeim hjá okkur. Síðan eru að koma upp fjöldinn allur af flottum kylfingum úr unglingastarfinu sem er það öflugasta hér á landinu. Ég er alltaf stoltur þegar ég segi að ég sé GKG – ingur.