Hvert verður helsta leynivopn keppniskylfingsins góða hennar Ingunnar Einars inn í golfsumarið 2020 og af hverju á hún það til að spóka sig um með sólgleraugu í rigningu og roki? Því ljóstrar þessi flotti Kópavogsbúi upp hér í þessu skemmtilega viðtali ásamt ýmsu öðru. Eins og því hvers konar góðgæti ratar í nestispokann fyrir hring og klárt er að ef einhver gleymir nestinu sínu heima í sumar þá vill sá hinn sami lenda í holli með Ingunni og þiggja hjá henni smá gourmet bita. Við kynnum með stolti GKG-inginn snjalla Ingunni Einarsdóttur sem oftast er 28 ára en stundum aðeins eldri og er með 2,9 í forgjöf.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Íslandsmeistarar golfklúbba 2019 karla og kvenna

Ég byrja í golfi að fullum krafti 21 árs, en hafði aðeins verið að dúttla við það fram að því. Ég er í grunninn fótboltastelpa og æfði af krafti í mörg ár, spilaði með Val á Hlíðarenda og flokkurinn var mjög sigursæll og vann til margra titla, en þurfti því miður að draga mig í hlé alltof snemma vegna meiðsla. Svo var það í raun pabbi gamli sem að endingu fékk vilja sínum framgengt og fékk mig í golfið en hann hefur alltaf verið hrifinn af golfinu.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Ég valdi einfaldlega þann völl sem var næst mínu heimili og sé ekki eftir því.

Mýrin eða Leirdalur?

Leirdalur.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Það er svo margt skemmtilegt. Annars var afskaplega skemmtilegur tími nú síðasta sumar þegar GKG vann Íslandsmót golfklúbba, bæði í kvenna- og karlaflokki. Unga kynslóðin er að blómstra og verður gaman að fylgjast með henni í framtíðinni.

En það vandræðalegasta?

Þegar ég er að spila með sólgleraugu í rigningu og roki útaf slæmu frjókornaofnæmi í augum.

Eru golfmarkmiðin þín klár fyrir sumarið?

Já heldur betur, ég er alltaf að setja mér markmið og ekki bara í golfinu. Mér finnst mjög mikilvægt að vera með skýr og mælanleg markmið til að ná árangri en markmiðin sjálf fyrir sumarið langar mig að hafa útaf fyrir mig

Má gefa upp hvaða leynivopn verður í pokanum þínum í sumar?

Haha já. Fékk flottan Garmin kíki frá fjölskyldunni í jólagjöf.

Svo hef ég skrifað niður grundvallaratriði úr bókinni „Enn betra golf“ eftir Arnar Má Ólafsson og Úlfar Jónsson um hvað gera skal ef boltinn er fyrir ofan og neðan fætur og svo frv.

Ertu með einhverjar sérstakar væntingar varðandi vellina sjálfa inn í golfsumarið?

Maður náttúrlega vonar að grínin verði góð í sumar. Þá finnst mér afskaplega skemmtilegt að sjá nýju tröppurnar á teigunum hjá GKG… gefur vellinum fallegra útlit.

Hvaða GKG mótum stefnirðu á að taka þátt í þetta sumarið og hvert þeirra er efst á forgangslistanum?

Ingunn, Úlfar og Hansína á Tracian Cliffs

Meistaramót nr. 1, 2 og 3 er skemmtilegasta mótið.

Þá var liðakeppnin í fyrra með „The Happy Rough Ladies“ gríðarlega vel heppnuð útgáfa og hvet ég þá sem málið varðar að endurtaka leikinn í ár og hafa mótið með sama sniði.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Hansína, stelpurnar í GKG og Inbee Park.

Notaðir þú golfhermana í vetur?

Já, ég nota þá mikið og oftast við æfingar og skoða þá tölfræðina, svo er ég stundum að spila. Er hlynnt því að GKG skuli setja upp fleiri bása með Trackman golfhermum. Flott framtak.

Ætlarðu að nota hermana með útigolfinu í sumar?

Já og þá aðallega í upphitun og jafnvel spil, fer eftir því hvernig viðrar í sumar.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Fjórtánda holan. Gefur tækifæri á erni.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Þriðja holan. Gefur tækifæri á fugli.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Thracian Cliffs í Búlgaríu. Hann hefur sína sérstöðu í fallegu umhverfi.

Texas Scramble eða Betri Bolta?

Bæði jafn skemmtilegt.

Hver er uppáhaldskylfan?

Ég og 54° gráðu Mizuno kylfan mín erum miklir vinir í dag. Ég nota hana í vippum og glompuhöggum.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Allir þeir kylfingar sem ná tökum á skapi sínu í keppni finnst mér góðar fyrirmyndir.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?

Það er soðið egg, lifrapylsa, harðfiskur, hnetur og rúsínur, skyr, banani, gulrætur, hleðsla, brauð með hnetusmjöri og banana eða brauð með túnfisksalati og drykkur: toppur, vatn eða Gatorade.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Gleðin og félagsskapurinn og svo er aðstaðan í GKG orðin flott. Þá er ég svo ánægð og þakklát að fá að æfa með ungu stelpunum.