Við kynnum með stolti Íslandsmeistara í holukeppni 19 – 21 árs kvenna 2020,  Maríu Björk Pálsdóttur. Þessi flotti GKG-ingur er 19 ára Kópavogsbúi með 3,5 í forgjöf, er hluti af öflugum meistaraflokki klúbbsins og enn einn nestissnillingurinn okkar! 🙂

María Björk átti sitt besta tímabil til þessa og ljóst að vel skipulagðar æfingar, og ekki síst margar spilæfingar skiptu miklu máli, en af afrekskylfingum kvenna í GKG var engin sem lék fleiri hringi en María.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Ég fékk að fara með mömmu og pabba í golfferðir til Spánar þegar ég var yngri. Til að byrja með hafði ég engan áhuga, en vorið 2015 langaði mig að prófa að æfa. Ég skráði mig þá á æfingar í GKG um sumarið og hef verið að æfa síðan. 

Hvers vegna valdirðu GKG?

Mamma og pabbi höfðu verið í GKG í nokkur ár og ég bý mjög nálægt Leirdalnum, svo það kom enginn annar klúbbur til greina.

Mýrin eða Leirdalur?

Klárlega Leirdalurinn.

Stóðu vellirnir undir væntingum þínum golfsumarið 2020?

Já, mér fannst vellirnir mjög flottir.

Hvað stendur upp úr hjá þér eftir sumarið?

Ætli það sé ekki þegar ég varð íslandsmeistari í holukeppni 19 – 21 árs kvenna.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Drauma GKG hollið mitt er að spila með stelpunum sem eru með mér í meistaraflokki, þar er alltaf mikið stuð, og svo fengi Tiger Woods að vera með.

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Það var rosalega skemmtilegt þegar sveitirnar okkar unnu Íslandsmót golfklúbba sumarið 2019.

En það vandræðalegasta?

Það var frekar vandræðalegt þegar ég keppti á fyrsta stigamótinu í sumar sem var haldið á Hlíðarvelli, ég shankaði nánast annað hvert högg og endaði í langsíðasta sæti. Það var ekki sérstaklega góð byrjun á golfsumrinu.

Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt?

Skemmtilegasta GKG mótið er án efa Meistaramótið. Þar er mikil stemning og alltaf gaman að spila með stelpunum í meistaraflokki. Svo er lokahófið alltaf algjör snilld.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Mér finnst mjög gaman í fjórmenningi, og sérstaklega gaman þegar ég spila með liðsfélögunum í sveitakeppninni.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Uppáhalds holan mín á Leirdalnum er 14. hola. Það er mjög fallegt að standa á 14.teig og horfa yfir vellina og klúbbhúsið, og svo er hún stutt og það er oft góður möguleiki á að fá fugl og jafnvel örn.

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Uppáhalds holan mín á Mýrinni er 7. hola. Upphafshöggið er skemmtilegt og svo er inná höggið krefjandi.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Grafarholtið og Urriðavöllur eru uppáhaldsvellirnir mínir, mér finnst þeir skemmtilegir og umhverfið er ótrúlega fallegt.

Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin?

Já, ég nota golfhermana mikið á veturna við æfingar og það er algjör snilld að geta séð t.d boltaflug, kylfuhraða og ferilinn til að bæta sig.

Hver er uppáhaldskylfan þín?

Uppáhaldskylfan mín er 8-járnið. Ég slæ yfirleitt vel með henni og nota hana í alls konar aðstæðum.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Ég á ekki beint fyrirmynd en ég held mikið upp á Lexi Thompson, Brooke Henderson, Rory Mcilroy og Tiger Woods.

Hvernig nestar þú þig út á golfvöll?

Ég er oftast með banana, flatkökur, smoothie, hnetur, chia graut, próteinstykki eða samlokur, og svo vatn eða powerade.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Stemningin í GKG er alltaf góð, starfsfólkið er hlýlegt og skemmtilegt, og félagsmennirnir frábærir.

Svo eru líka æðislegar stelpur sem ég hef kynnst í gegnum GKG að að æfa með mér sem mér þykir mjög vænt um.