María Málfríður Guðnadóttir, 61 eins árs Kópavogsbúi með 6,8 í forgjöf og mamma meistara Hauks Má golfkennara, er stórkylfingur sjálf sem safnar holum í höggi eins og ekkert sé sjálfsagðara.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Ég þurfti að finna mér nýja íþrótt þegar ég hætti í keppnisíþróttum. Keppti bæði í körfubolta og frjálsíþróttum. Mér fannst golfið strax mjög spennandi og var fljótlega farin að keppa og forgjöfin að lækka. Það var í kringum 1990 sem ég fór að fikta, en svo á fullt eftir 1993 eftir síðasta barnsburð.
Hvers vegna valdirðu GKG? Þegar ég flutti í bæinn árið 2000 fluttum við í Kópavoginn, GKG varð fyrir valinu vegna þess að það var stutt að fara á völlinn og sjáum við ekki eftir þeirri ákvörðun.
Mýrin eða Leirdalur? Leirdalurinn.
Stóðu vellirnir undir væntingum þínum sólarsumarið 2019? Já þeir voru í mjög góðu standi.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Ég, Birgir Leifur, Úlfar og Anika Sörenstam.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Það er bara svo margt, en það var mjög skemmtilegt að fara holu í höggi í fyrsta sinn. Þá bjó ég í Vejle í Danmörku, við Siggi sonur minn vorum að spila rauða völlinn. Ég ákvað að taka 6 járn á par þrjú holu 127 m, skallaði boltann og þeyttist hann yfir bönker upp í móti og beint í holuna. Þegar ég kom í skálann eftir hring, þurfti ég að afhenda boltann (wilson) og var hann svo límdur á vegginn. Þar sem Stimeroltyggjóverksmiðjan var sponsor holunnar fékk ég ársbyrgðir af tyggjói, handklæði, tösku og whiskyflösku.
En það vandræðalegasta ? Það var í landskeppni. Ég tók varabolta á par þrjú holu og fór holu í höggi.
Tekur þú þátt í GKG mótunum og ef svo er hvert er uppáhaldsmótið þitt? Já og hefur Meistaramótið alltaf verið mjög skemmtilegt og mitt uppáhalds.
Texas Scramble eða Betri Bolta? Texas Scramble.
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? 14. holan, því ég á möguleika á að komast inná flöt í tveimur höggum og hef einu sinni fengið örn á henni.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni? 7. holan, alltaf gaman að reyna að komast yfir vatnið í upphafshögginu og mjög krefjandi annað höggið.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Skaginn GL.
Notar þú golfhermana og ef svo er hver er upplifunin? Ekki mikið. En það er mjög gaman að æfa ákveðin högg, mér finnst mjög gaman að æfa. En ef ég er að spila völl þá er skemmtilegast að spila með góðum vinum.
Hver er uppáhaldskylfan? Driverinn.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu? Annika Sörenstam.
Hvernig nestar þú þig út á golfvöll? Flatkökur, banani og drykkur.
Hvað er lang, lang best við GKG? Það er þetta öfluga og óeigingjarna félagsstarf og mjög skemmtilegt fólk.