GKG-ingurinn Marinó Már Magnússon býr í Garðabæ, elskar Pepsi max og golf, er enda með 5,3 í forgjöf og komst alveg niður í 1,9 þegar hann var sem duglegastur að æfa. Þessi golfsnillingur er ekkert síðri með myndavélina en hann er annar þeirra ljósmyndara sem eiga heiðurinn af öllu flottu myndunum sem þið sjáið úr meistaramótum GKG og öðrum viðburðum tengdum klúbbnum. Það vita það hins vegar ekki margir að þegar Marinó Már var 18 ára gamall hlaðmaður á Keflavíkurflugvelli átti hann óvænt sína óskastund með sjálfum Jack Nicklaus og fékk eiginhandaráritun þess meistara.
Við skulum kynnast hinum ljúfa 52 ára GKG-ingi Marinó Má betur og gefum honum orðið.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Það var sumarið 1978 þegar ég var sjö ára. Mamma giftist þá stjúpföður mínum og kynnti hann okkur fyrir golfinu. Ég ólst upp í Leirunni og var skutlað með skrínukost á morgnana og sóttur seint á kvöldin.
Af hverju GKG? Við fluttum frá Reykjanesbæ 2016, í Garðabæinn og það kom aldrei neitt annað til greina en að fara í GKG. Hafði heyrt að andinn þar væri góður og svo hafði ég spilað nokkrum sinnum Leirdalsvöllinn og fannst hann skemmtilegur. Félagsstarfið í klúbbnum er einstakt og alltaf gaman að koma í golfskálann þó ekki nema til að fá sér Pepsi max.
Uppáhalds hringurinn og holan? Uppáhalds hringurinn minn er Leirdalurinn allur en ég er mjög hrifinn af efri vellinum. Fimmta holan á Leirdalnum er mitt uppáhald. Krefjandi teighögg. Tjörnin akkúrat í drævlengdinni minni og maður þarf því að vanda upphafshöggið. “Layout-ið” á henni finnst mér mjög flott.
Hvernig kemurðu undan golfsumrinu? Ég kem svona ágætlega undan sumrinu en náði því miður ekki að standa undir þeim væntingum og markmiðum sem ég hafði sett mér. Ég náði þó nokkrum góðum hringjum eða í kringum parið en svo komu aðrir sem voru því miður ekki nógu góðir. Svona er þetta golf.
Hver er styrkur þinn með kylfurnar? Styrkur minn með kylfurnar er án efa 56 gráðu fleygjárnið mitt. Uppáhaldshöggin eru sirka 80 metrar. Þegar drævin eru í lagi þá er ég að slá um 240-260 metra en það verður lagt mikið uppúr því í vetur í hermunum að hafa þau stöðugri.
Áttu golftímabil sem þú getur talað um sem þitt besta? Tímabilið 2019-2021 er mitt besta í golfinu. Var kominn með 1,9 í forgjöf og æfði mig alveg rosalega vel. Án efa var það æfingasvæðið sem gerði mér mjög gott. Kom varla dagur á áðurnefndu tímabili sem ég sleppti kylfunni. Alltaf að æfa mig.
Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum? Þegar ég fékk einu sinni fimm fugla í röð í Leirunni og einnig þegar ég spilaði seinni 9 holurnar í Leirdalnum á 29 höggum. Fékk fugl á 10. og 12., örn á 14. holu, fugl á 15. holu og svo aftur örn á 16. holu. Restin par. Átti rúmlega meters pútt á 18. holu fyrir pari og það fór ofan í. 29 högg takk fyrir. Einnig má bæta við það eftirminnilegasta þegar ég varð íslandsmeistari lögreglumanna 2010 þegar ég spilaði Oddinn í fyrsta skiptið. Félagar mínir í hollinu sögðu mér alltaf hvert ég ætti að miða og það gekk svo vel að ég kom inn á 73 höggum og sigraði mótið.
En það vandræðalegasta? Það var þegar ég var að keppa í Meistaramótinu í Leirunni 1994 og fékk 11 högg á 18. holu. Þrír boltar í tjörnina en kom samt inn á 79 höggum.
Tekurðu þátt í Meistaramóti GKG? Ég reyni eftir fremsta megni að taka þátt í Meistaramóti GKG. Keppi þá í tveimur flokkum, 50+ og meistaraflokki. Samtals 7 dagar. En stundum næ ég ekki að fá frí frá vinnu og get því ekki keppt. Ég tek myndir frá mótinu fyrir klúbbinn og pósta þeim á facebook síðu GKG. Stemningin er einstök og hún er það sem ég leitast eftir.
Ertu annars mikið að keppa í mótum og ef, hvers konar mótum? Já hef verið mikið að keppa í mótum s.l. sumur. Aðallega Mánudagsmótaröðinni, löggumótum og svo finnst mér gamað að keppa í texas scramble mótum.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt? Holukeppni finnst mér skemmtilegust og einnig fjögurra manna texas scramble.
Helsta fyrirmyndin í golfinu og uppáhalds golfarinn? Viktor Hovland er mín helsta fyrirmynd í dag. Alltaf prúður og brosandi. En uppáhalds golfarinn minn fyrr og síðar er Seve Ballesteros.
Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina? Bestu kaupin eru rafmagnskerran sem ég eignaðist 2019 en verstu kaupin líklega eru mislukkuð æfingatæki keypt á Aliexpress.
Sækirðu þér reglulega golfkennslu? Já ég er duglegur að sækja kennslu. Fer sirka þrisvar á ári til kennara.
Hvert er spilamunstrið þitt yfir sumarið? Ég skrái mig oftast á lausan tíma ef ég er ekki að spila með konunni minni. Lendi því í holli með fólki með allskonar forgjöf og finnst mér það mjög gefandi og gaman. Ég er ekki beint í spilahóp en ég er svona hálfpartinn varamaður fyrir Mulligan hópinn og þriðudagshópinn líka. Virkilega skemmtilegt.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum? Pepsi max og Mars súkkulaði 😉
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Draumahollið mitt í GKG eru félagar mínir Hlöðver (Hlöbbi), Úlfar Jónsson og Gunnar Páll Þórisson. Sá utanfélagsmaður sem fengi að fljóta með er stórvinur minn úr GR, Hörður Sigurðsson.
Spilarðu mikið aðra velli og hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Ég hef spilað mikið aðra velli nú í sumar. Byrjaði tímabilið á Tenerife, spilaði tvo velli þar. Og hef hreinlega ekki tölu á völlunum sem ég spilaði heima á íslandi þetta sumarið.
Hvernig notar þú golfhermana? Ég nota þá aðallega til að fylgjast með sveifluferlinum mínum, hversu bratt ég kem í boltann og reyni að auka sveifluhraðann. Verð duglegur í ræktinni og yoga í vetur og það ætti að auka sveifluhraðann fyrir næsta tímabil. Mér finnst ágætt að spila vellina en ekki nærri því eins gaman og að spila úti.
Hvað er lang, lang best við golfið og við GKG? Félagskapurinn og félagsandinn. Mulligan hjúin Tommi og Jana eru í uppáhaldi hjá mér en þau eru alveg einstök. Svo er bara gaman að kíkja við í GKG og spjalla við félagana. Maður hittir alltaf einhvern þar sem maður þekkir og er til í spjall,
Eitthvað að lokum? Sumarið 1989 starfaði ég í hlaðdeildinni á Keflavíkurflugvelli. Eitt af okkar hlutverkum var að vísa einkavélum úr stæði. Dag einn tók ég eftir manni sem hafði verið í laxveiði hér á íslandi og þekkti ég hann strax á rampinum þar sem hann var að ganga frá farangri sinnum. Þetta var enginn annar en Jack Nicklaus. Ég náttúrulega ræddi aðeins við hann og spurði hvort ég gæti fengið eiginhandaráritun. Hann sagði við mig “yes just wait a minute”. Nokkrar mínútur liðu og sá ég þegar hann gekk inn í vélina án þess að ræða við mig og hurðin var við það að lokast þegar hún opnaðist aftur og hann stóð í dyragættinni og kallaði til mín. Bauð hann mér í útsýnistúr um vélina sína, við spjölluðum aftur smá saman og svo fékk ég eiginhandaráritunina mína frá honum. Hann var alveg einstaklega afslappaður og almennilegur. Ég gleymi þessu aldrei.