Pálma Matt þekkjum við mörg frá öðrum vettvangi en golfinu en þessi sjötugi Garðbæingur er líka liðtækur mjög með kylfurnar og hefur frá mörgu skemmtilegu og fræðandi að segja. Hann er með 22,5 í forgjöf og eins og flestir kylfingar á hann að langan lista af MH tengt golfinu. Hann upplýsir leyndarmál, setur Mulligan í gott samhengi varðandi lífið sjálft og svo á þessi snillingur klárlega toppinn í vandræðaminningu af vellinum. Takk fyrir þetta skemmtilega viðtal Pálmi og njóttu golfsumarsins!

Hvað dró þig að golfinu?

Saknaði vina sem kvöddu mig í maí og heilsuðu mér aftur í lok september.

Ákvað að tala við þá líka yfir sumarið og það kostaði golfsett og klúbb.

Hvers vegna valdirðu GKG?

Mér fannst fólkið þar vera meiri fjölskylda og  jarðbundnara en í sumum öðrum klúbbum og það hefur reynst rétt.

Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?

Báðir góðir en Mýrin er oftar mitt val enda fjölskylduvænna að fara í golf í rúma tvo tíma en tæpa fimm tíma. Konan mín er mikill talsmaður þess að golfið verði 12 til 14 holur eins og verið er að ræða í golfheiminum og ég er henni svo hjartanlega sammála.

Hvernig líst þér á vellina okkar þetta sumarið og hvernig leggjast breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum í þig?

Líkar hvað best löngun Gumma vallarstjóra og hans manna að gera alltaf betur og betur. Allar breytingar hafa mér fundist vera til góðs og ekki rokið í þær nema að athuguðu máli.

Hvernig fer golfsumarið þitt af stað?

Rólega með gleði og þakklæti að leiðarljósi.

Hefurðu hug á að vera með í Meistaramótinu í sumar og ef svo, ertu klár með eitthvert leynivopn inn í mótið?

Nei, Meistaramótið er fyrir meistara og þau sem brenna af áhuga. En ef ég upplýsi stórt leyndarmál, þá hef ég aldrei tekið þátt í móti hjá GKG.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utan félagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Það er eiginkonan, barnabörnin, dóttirin og tengdasonur og ef það bættist við utan félagsmaður yrði það vinur minn Óli Jóns handboltakappi. 

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Það er að hafa fengið að spila með PGA vinum í USA sem eru og hafa verið á túrnum og uppgötva hversu mennskir og góðir félagar þeir eru enda þótt mér finnist ekkert mennskt við það hversu afburða góðir þeir eru.

En það vandræðalegasta?

Að eiga algjörlega misheppnað 2. högg á par fjögur holu sem rúllaði endalaust og fór inn í næsta holl á undan og beint í holuna.

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Öll keppni er skemmtileg en það er oft mest gefandi og slakandi fyrir sálina að vera í Texas Scramble með góðum vini. Það er svo nærandi tilfinning að mega treysta á aðra.

Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina?

Það væri langur listi, að telja það upp því það er svo margt sem golfarar telja MH það er „must have“, og er sjaldan eða aldrei notað. En sennilega eru bestu kaupin að hafa keypt pútt spegil og nota hann.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?

Það er 8. holan, sem þarf svo lítið til að klúðra en er svo einföld þegar maður hittir vel. Og svo nefni ég líka 14. holuna, þar sem góður öldungur sneri eitt sinn á okkur sem töldum okkur vera yngri og vorum að rembast við að skera hornið hægra megin. Sá gamli púttaði ákveðið niður brekkuna og var á besta stað af okkur öllum.  Svo bætti sá gamli við: „ Þetta er ekki flókin íþrótt en við flækjum hana oft.“

Uppáhalds holan þín á Mýrinni?

Það er 8. holan. Fallegt landslag og fallegt að sjá upp að okkar fallega golfskála og eiga þessa góðu tilfinningu að maður sé alveg að verða kominn „heim“.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Hann heitir DeBary golf and Country Club og er í Bandaríkjunum.

Notar þú golfhermana yfir sumartímann?

Nei ég hef ekki verið að gera það, sem er lélegt. En svo annað leyndarmál sé upplýst, þá hef ég aldrei farið í þá nema þegar Hlöðver var að sýna mér hvernig þeir virkuðu og það er enn lélegra.

Hver er uppáhaldskylfan?

Það er 30° hybrid, sem er sannkallað töfraprik, sem má grípa til í margvíslegum aðstæðum.                                                                                       

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Hann heitir Wally Armstrong fyrrum PGA spilari og nú golfkennari. Hann einn af fáum sem getur útskýrt golfið og fegurð þess á þannig einföldu máli að börn sem fullorðnir skilja hvað hann er að segja. Wally hefur skrifað bók sem heitir The Mulligan og nú í vor var frumsýnd á Masters kvikmynd hans sem heitir The Mulligan og á erindi til allra ekki bara golfara og segir okkur að við þurfum öll á Mulligan að halda í lífinu. Þetta er frábær mynd og það var gott að sjá marga bestu golfara heims vera á frumsýningunni og jafnvel tárast yfir boðskap myndarinnar.

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?

Það er íslenska vatnið, sem ég tek stoltur með mér á velli í USA og svo skemmir ekki að hafa hnetur og cranberries blandað í poka.

Hvað er lang, lang best við GKG?

Það er Jana í Mulligan og formaðurinn Guðmundur Oddsson.