Ragga Steph, eins og við GKG-ingar köllum þessa flottu fyrrverandi afrekskonu í boltaíþróttum, leitast við að spila sem flesta golfvelli í nágrenni höfuðborgasvæðisins yfir sumartímann, en eins og hún segir sjálf, þá er heima alltaf best og í GKG á Ragga svo sannarlega heima. Í klúbbnum er hún ekki einungis að njóta golfsins og félagsskaparins við alla frábæru GKG-ingana sem hún hefur kynnst í gegnum árin, heldur er hún líka hluti af góða sjálfboðaliðahópnum sem styrkir starf GKG svo um munar. En Ragga er líka öflugur kylfingur sem spilar allt sumarið og í hermunum frá því í desember og fram að sumri. Hún er enn að bæta sig í golfinu og hefur endað öll sín golfsumur, nema eitt, með lægri forgjöf en hún byrjaði á.  Meistari Ragga er samt að mestu búin með þann kafla í lífinu að æfa íþróttir, mælir golftímabilin sín mest eftir gleðinni sem golfið gefur henni og svo er hún með einstaklega girnilegt nesti í pokanum sínum. Mesti lærdómur Röggu síðasta sumars var sá að átta sig á að þótt hún geti spilað í roki þá er stormur of mikið en hún er enn að ekki alveg búin að ná því að hún kemst ekki nema 14 holur í Ecco skóm ????

Ragga er 53 ára Garðbæingur með 12,8 í forgjöf og við gefum henni orðið.

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?  Ég var sannfærð um að þetta væri fínt sport til að stunda á efri árum og mig langaði ekki að vera léleg þegar ég yrði gömul svo ég dreif mig af stað þegar ég varð þrítug, fékk þá hálft “Harlem sett” í afmælisgjöf.  Hefði viljað að ég hefði farið ennþá fyrr af stað. En fyrstu árin spilaði ég samt bara golf af einhverju viti í 1 mánuð á ári og stalst svo einn og einn hring þess á milli og var það ekki fyrr en 2012 sem ég fór að spila mun meira og hef verið alveg forfallin síðan þá.

Af hverju GKG, hvernig fer um þig í klúbbnum og hefurðu eitthvað að segja um félagsstarfið almennt? Það koma aldrei neitt annað til greina en GKG. Ég er Garðbæingur með stóru G-i. Ég bý í Garðabæ og hef gert síðan ég var 3ja nema þennan eina vetur sem ég bjó í Noregi. Ég vinn í Garðabæ og hef gert alla mína starfsævi þannig þetta var afar einfalt val.

Uppáhalds hringurinn þinn og á einhver ein hola meira í þér en aðrar? Leirdalsvöllur er sá völlur sem ég spila mest því ég spila afar sjaldan bara 9 holur. Ég geri ekki upp á milli hvort mér finnst efri eða neðri holurnar skemmtilegri. Þær hafa allar sinn sjarma. Ég er pínu þannig að mér finnst alltaf næsta hola skemmtilegust og það er engin leiðinleg hola á Leirdalnum í mínum huga. Það eru til leiðinlegar holur en þær eru allar á öðrum völlum.

50+ í Sandgerði 2022
Boltagolf
Frænkumynd
Afmælishringur á Grafarholtinu
Flott upphafshögg í þessu holli
Gestir í heimsókn á GKG

Hvað hefurðu að segja um vellina okkar síðasta sumar sem kom seint og dekraði við okkur vel inn í haustið í staðinn? Eins og eflaust flestir var ég alveg miður mín yfir því hvað grínin okkar voru slæm síðasta sumar. Ég sit í vallarnefnd svo ég var vel inni í þeirri baráttu sem starfsmenn voru í og fylgdist með vonbrigðum þeirra yfir því hve illa gekk að rækta þau upp þrátt fyrir ítrekaðar sáningar. Flest annað á vellinum var í fínum málum. Brautirnar þokkalega fínar og svo til allir bönkerar endurgerðir og í topp standi. En vandamálið er að kylfingar taka ekki eftir neinu öðru þegar grínin eru ekki í lagi og það var okkar vandamál í sumar. En veðrið var auðvitað æði þegar sumarið kom loksins og það gerði það að verkum að ástand valla var ekki alveg eins niðurdrepandi því golf er alltaf skemmtilegt í góðu veðri.

Hvernig komstu undan golfsumrinu? Ég endaði sumarið með lægri forgjöf en ég byrjaði svo ætli ég sé ekki bara sátt við árangur sumarsins þegar á heildina er litið. Var með ný brautartré og splæsti líka í nýjan driver sem skilaði mér aðeins meiri lengd í höggin sem ég þurfti á að halda. Eins og venjulega gekk á ýmsu, lærði t.d. að þó ég geti spilað í roki, þá get ég ekki spilað í stomi eins og ég lenti í í Sandgerði á Íslandsmóti 50+.

Uppáhalds kylfan þín og uppáhalds höggið þitt? Pútterinn hefur alltaf verið mín uppáhalds kylfa og púttið sem fer í ofan í holu alltaf skemmtilegasta höggið. Ég þrípútta næstum því aldrei og hef alltaf verið góð að lesa grínin. Það er samt líka alltaf gaman að standa á flottum teig með driverinn og hitta hann fullkomlega eða vera á 70 eða 85 metrunum og slá fullkomið högg með W eða 9 sem lendir fallega rétt við pinna en það gerist bara svo sjaldan. Veikleikinn eru vipp á 20-30 metrum ef ég þarf að lyfta honum. Vel alltaf að “pönsa” með áttunni ef ég mögulega get og er ágæt í því. Annar veikleiki er að mig vantar meiri lengd  í brautarhögginn til að ná oftar að vera með járn í innáhöggum en það lagaðist aðeins með nýjum trékylfum.

Er eitthvað tímabil í golfinu í gegnum golftíðina sem þú getur talað um sem þitt besta?  Nei, eiginlega ekki. Golflega séð þá er síðasta tímabil alltaf besta tímabilið því mér er ennþá að fara fram og því næsta tímabil alltaf betra en það síðasta (þó á því sé reyndar ein undantekning). En ég mæli golftímabilin meira eftir gleðinni sem ég upplifi við að spila golf og þá spilar veðrið alltaf afar stóran þátt og félagsskapurinn auðvitað líka. Fyrir mér er ekkert eitt ár sem stendur upp úr heldur frekar ákveðnir viðburðir á hverju ári og er meistaramótið alltaf toppurinn á tímabilinu að mínu mati. 

Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum og hvað er það vandræðalegasta? Veit ekki hvort það verður áfram það eftirminnilegasta en það er alveg örugglega það erfiðasta sem ég hef gert í golfi og það var síðasta sumar þegar ég ásamt fleirum reyndum að spila golf í 15-25 m/s í Sandgerði í Íslandsmóti 50+. Vandræðalegasta í golfi er erfiðara að finna. Jú skorið á Íslandsmótinu 50+ síðasta sumar er líklega það vandræðalegasta sem ég hef lent í.

Sækirðu þér reglulega kennslu í golfinu og þá hvernig? Ekki reglulega. En ég sótti fyrir þrem árum golfnámskeið hjá Andrési (10 skipti) og fannst mér hann frábær því hann útskýrði svo vel af hverju þannig ég skildi hvers vegna hlutirnir gerðust. Ég er ennþá að nýta mér það sem hann kom inn á í mínu golfi. Hef náð betri tökum á sumu en er ennþá að vinna í öðru og sumt verður eflaust eilífðar verkefni. Gæti vel hugsað mér að fara aftur til hans. Eins er ég líka svo heppin að uppfylla skilyrðin fyrir því að geta æft með 50+ hópnum í klúbbnum. Þar hefur Ragnar Már verið að leiðbeina okkur og hef ég pikkað upp margt gott hjá honum. Annars veit ég að ég æfi mig ekki nóg. Ég er pínu búin með það í lífinu að æfa íþróttir og er bara að leika mér núna. Þannig ég spila alveg rosalega marga hringi en kannski væri skynsamlegra upp á golfið að gera að spila aðeins minna og æfa meira en það er bara svo gaman að spila og bara alls ekki eins gaman að æfa sig.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu og hver er þinn uppáhalds, uppáhalds golfari? Ég er ekki nógu dugleg að horfa á golf þannig nei eiginlega ekki. Ég lærði snemma að hvers konar persónudýrkun væri óttaleg vitleysa. Átrúnaðargoðin á barns og unglingsárum mínum enduðu vægt til orða tekið öll frekar illa í sínu lífi. Ég held samt alltaf með Rory í stóru mótunum en það er ekki endilega út af golfinu heldur frekar karakternum. Hann var líka rísandi stjarna í golfi þegar ég hafði meiri tíma til að horfa á golf og held ég mig bara við hann.

Bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina? Bestu kaupin eru án efa Odessy pútterinn minn. Keypti hann í lítilli, gamalli og rótgrónni golfbúð í New York árið 2007 – alein dundaði ég mér við að prófa fullt af pútterum. Pútterinn stendur enn fyrir sínu. Verstu kaupin eru væntanlega þessi nokkur pör af Ecco golfskóm sem ég hef keypt mér í gegnum tíðina því mér finnst þeir flottir. Kemst aldrei nema 14 holur í þeim og verð síðan að endurselja þá með miklum afföllum. Passa mér bara engan vegin.

Hvort stendur meira upp úr hjá þér Í Meistaramóti GKG, keppnis- eða stemmingsskapið? Eins og ég sagði áðan að þá er meistaramótið alltaf toppurinn á sumrinu hjá mér. Þessi vika er heilög í mínum huga og ég geri aldrei neitt annað þessa vikuna og vinn alltaf við mótið þá daga sem ég er ekki að spila því það er svo gaman að vera í stemningunni. Einhverra hluta vegna þá nær maður sjaldan að sýna sínar bestu hliðar í golfinu í þessu móti en maður nær kannski einum góðum og svo kemur oftast einn slæmur og hinir tveir svona skít sæmilegir. Veðrið er svo allskonar en stemningin er alltaf æði!

Ertu annars mikið að keppa í mótum og ef, hvers konar mótum? Já ég keppi svolítið. Eftir að ég varð 50 ára hef ég verið dugleg að keppa í LEK mótunum ef ég get. Svo tek ég þátt í meistaramótinu og Íslandsmóti 50+. Ég spila ekkert endilega mikið í opnum mótum – aðallega af því að ég er ekki nógu dugleg að skrá mig og þegar ég ætla að skrá mig þá er allt orðið fullt ég  á heldur ekki þennan spilafélaga sem ég skrái mig með í mót og ég er ekki nógu dugleg að fara bara ein í mót.

Hvert er spilamunstrið þitt yfir sumarið? Ég á engan fastan spilafélaga í golfi og hef aldrei átt. Ég er í 8 vikna sumarfríi og þá er ég að reyna að spila á morgnana eða um miðjan dag  og finn mér þá spilafélaga og skrái mig oftast í tómt holl og svo skrá aðrir sig með mér. Finnst það þægilegra en að skrá mig ein með einhverju tveim sem eru að fara að spila. Mér finnst mjög gaman að spila við kylfinga sem eru betri en ég eða svipaðir og ég og spila oft betur þegar ég spila með karlmönnum. Samt spila ég oftar með kvenfólki og mjög oft með öðrum konum úr 50+ hópnum. Svo spila ég líka oft með kylfingum sem eru með mun hærri forgjöf en ég en þá þekki ég viðkomandi yfirleitt vel og er þá að sækjast eftir félagsskapnum frekar en samanburði í golfi. Ég er  líka þátttakandi í liðakeppni GKG og þar er ég í liði með konum sem flestar eru mikið betri en ég í golfi og það finnst mér líka voða gaman.  Ég þekki stóran hóp af kylfingum  eftir allan þennan tíma í klúbbnum og í mínum huga eru það allt kylfingar sem ég vil gjarna spila með og er óhrædd að skrá mig með.  Ég  þekki ég líka fullt af fólki í öðrum klúbbum sem ég reyni líka að spila reglulega með. 

Vestmanneyjavinir
pútt 1
Meistaramót 2022
Vestmanneyjar fyrir nokkrum árum
Meistarmót 2023
Meistaramót 2021

Hvert er uppáhalds leikformið þitt? Holukeppni finnst mér lang skemmtilegust. Í holukeppni er það bara þú á móti mótherjanum og hver hola er keppni út af fyrir sig. 

Uppáhalds nestið í golfpokanum? Því er auðsvarað. Lítil ostaslaufa frá Myllunni fyllt með pharmaskinku, camenbert og rifsberjahlaupi. Það getur bara ekki klikkað.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Úhhhh nú er erfitt að svara. Verð bara að segja pass við þessari spurningu. Á allt of marga góða spilafélaga til velja á milli bæði í GKG og annarsstaðar.

Spilarðu mikið aðra velli og hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Ég reyni að spila sem flesta velli á sumrin. Vestmannaeyjar er líklega uppáhalds völlurinn fyrir utan GKG. Grafarholtið kemur næst á eftir og svo Akureyri. Samt ætti mér að finnast Keilir mjög skemmtilegur því ég skora hann alltaf frekar vel og svo er Oddurinn alltaf fallegur. Hellan kom svo á óvart í fyrra. Skemmtilegur völlur sem ég hafði ekki spilað áður.

Hvernig notar þú golfhermana og hvernig er það öðruvísi en að spila úti? Ég byrja yfirleitt í desember að nýta hermana og nota reglulega fram á vorið. Fer einu sinni á æfingu í viku með 50+. Reyni svo að fara 1-2x í viðbót í viku og spila alltaf hring 1x og stundum 2x eða tek klukkutíma í að æfa mig. Fer allt eftir því hversu upptekin ég er. En maður má ekki gleyma að golf í golfhermi er bara tölvuleikur en það hjálpar manni samt að halda við tempóinu í sveiflunni og er þetta frábær viðbót við þessa 5 mánuði sem við fáum til að stunda golf hér á landi ef við erum heppin með veður.

Hvað er lang, lang best við golfið og við GKG? Útiveran er það sem er lang besta við golfið. Þar á eftir kemur félagsskapurinn og líka það að vera alltaf að berjast við sjálfan sig, það er svo hollt og gott. GKG er síðan eiginlega mitt annað heimili og heima er alltaf best.  Þar hef ég kynnst fullt af frábæru fólki, fólki sem ég hefði ekki kynnst ef ég væri ekki í GKG þannig ég án GKG er eitthvað sem væri bara skrítið.