GKG-ingurinn Róbert Leó Arnórsson er 19 ára gamall Kópavogsbúi með +0,8 í forgjöf. Það var pabbi hans, Total maðurinn góði Arnór Gunnarsson, sem kynnti soninn fyrir golfinu og Róbert Leó hefur alltaf verið með golfkylfu í höndunum bara síðan hann man eftir sér. Hann á hvorki meira né minna en tvær holur í höggi á Leirdalnum en hefur líka átt sín vandræða augnablik á vellinum, sem hann segir okkur frá og því tengt á hann t.d. pútter sem hann vill gjarnan losna við en getur ekki selt ????

Róbert Leó hefur líka fengið krefjandi verkefni að glíma við varðandi heilsuna en hann er með sjúkdóminn Crohn’s sem má fræðast um hér Crohn’s sjúkdómur (ccu.is). Okkar maður hefur ekki einungis náð að halda golfinu inni í þessari glímu heldur hefur hann gert það með miklum glæsibrag og er einn af þeim flottu GKG ingunum sem hugsar golfið sitt og lífið allt í lausnum. Eins og komið hefur fram á GKG síðunni þá var Róbert Leó að skrifa undir samning við háskólalið Manhattan College í New York og heldur betur sem það eru spennandi tímar fram undan hjá þessum GKG snillingi!

Við óskum Róberti Leó innilega til hamingju og óskum honum velfarnaðar í háskólagolfinu um leið og við gefum honum sjálfum orðið og fáum að kynnast þessum meistara betur!

Hvers vegna valdirðu GKG og hvernig fer um þig í klúbbnum?

–        Ég valdi GKG vegna þess að ég bjó í Kópavogi og var það sá golfklúbbur sem var næst mér. Svo eftir mörg ár í klúbbnum vissi ég að þetta væri besti klúbbur á landinu og hefur farið mjög vel um mig hérna bara síðan að ég byrjaði í GKG. Mér finnst svo ef litið er inn í klúbbinn félagsstarfið í klúbbnum vera virkilega gott og skemmtilegt. 

Uppáhalds hringurinn þinn og á einhver ein hola meira í þér en aðrar?

–        Að mínu mati er neðri Leirdalurinn í miklu uppáhaldi hjá mér. Ekki það að efri hlutinn sé leiðinlegur bara neðri er skemmtilegri. Uppsetningin og fjölbreytileikinn milli hola er það sem gerir það að mínum uppáhalds parti af vellinum. 

–        Það eru margar góðar og skemmtilegar holur á Leirdalnum og á Mýrinni og hef ég sem dæmi fengið holu í höggi á bæði 2. og 17. holu á Leirdalnum sem auðvitað gerir það að verkum að þær standa upp úr. En það er ein hola sem ég á góða sögu frá sem er 6. holan á Mýrinni. Í Meistaramótinu 2016 keppti ég í 12 ára og yngri flokknum á Mýrinni. Ég var að leiða mótið fyrir loka hringinn með einu höggi og náði að byggja upp fimm högga forystu þegar að fjórar holur voru eftir. Eins og kannski flestir vita þá er 6. brautin þannig að það liggur vatn báðum megin við brautina sem gerir teighöggið erfitt. Ég setti teighöggið í vatnið vinstra megin og svo önnur fjögur högg sem fylgdu í sama vatn. Endaði holuna á 13 höggum og endaði í öðru sæti, þrem höggum eftir fyrsta sætinu. 

Hvernig komstu undan síðasta golfsumri?

–        Síðasta sumar var það lærdómsríkasta sem ég hef upplifað á mínum stutta ferli. Þegar kom að sumrinu var sveiflan langt frá þeirri bestu og heilsan var í svipuðu standi. Skorin voru mjög óstöðug og ég held að það sé vegna þess að ég var settur á ný lyf í maí sem gerðu það að verkum að líkaminn var alltaf að þróast og með því var sveiflan að gera það sama. Því meira sem leið á sumarið batnaði heilsan og sveiflan í takti við hana. Tímabilið byrjaði illa en ég náði svo að enda það vel með sigri í seinasta mótinu mínu. Sumarið stóðst ekki alveg undir væntingum enda vissi ég ekki að heilsan myndi fara hratt versnandi rétt fyrir sumarið. Þetta var fínt sumar og klárlega það lærdómsríkasta sem ég hef upplifað hingað til. 

Hvaða væntingar og plön ertu með fyrir næsta golfsumar? 

–        Fyrir næsta tímabil eru væntingarnar og mitt helsta markmið að halda heilsunni góðri út sumarið þar sem það hefur ekki alveg verið minn styrkleiki yfir árin. 

Hver er styrkur þinn með kylfurnar og er einhver veikleiki?  

–        Minn helsti styrkleiki í golfi er stutta spilið mitt. Það hefur bjargað mörgum hringjum þannig að þeir verða ekki verri og þar af leiðandi er 58 gráðurnar mínar uppáhalds kylfan mín í pokanum. Uppáhaldshöggið mitt er í svipuðum gír og er það svokallað „lob“ högg sem ég nota 58 gráðurnar í og lýsir sér þannig að höggið fer hátt og stutt og er mikilvægt högg til að kunna ef maður lendir í vandræðum við eða í kring um grínin.

–        Veikleikinn minn er hins vegar járnaspilið. Það hefur verið minn helsti veikleiki í nokkur ár og þá er gott að hafa almennilegt stuttaspil til þess að redda sér þegar þess þarf. 

Besta tímabilið þitt í golfinu til þessa og veistu hvað það var sem gerði það gott? 

–        Þegar ég lít til baka og hugsa um mitt besta tímabil í golfinu væri það klárlega golf sumarið árið 2022. Það var besta golftímabilið mitt, ekki beint út frá frábærum skorum en meira út frá því hvernig ég náði að gera mig líkamlega og golflega tilbúinn fyrir það tímabil. Veturinn leiðandi að sumrinu var erfiðasti vetur sem ég hef upplifað þar sem ég glímdi við mikil veikindi. Fyrir áramót var ég búinn að missa fjölmörg kíló og í janúar var ég ekki viss hvort ég gæti nokkurn tíman spilað golf aftur og hvað þá á sama stigi og ég var árið áður. Ég tók einn dag í einu og ætlaði ekki að gefast upp. Ég náði aftur fullri heilsu og spilaði virkilega vel miðað við hvernig staðan var rúmu hálfu ári fyrr. 

Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum og hvað er það vandræðalegasta?

–        Það eftirminnilegasta á mínum golfferli er mótið sem ég spilaði í Frakklandi í september í fyrra. Hvernig ég náði að stjórna andlega hlutanum í stöðu sem ég hef aldrei upplifað áður (að leiða mót byrjun til enda) er það eftirminnilegasta sem ég hef gert. 

–        Það vandræðalegasta hins vegar er klárlega þegar að ég 6 púttaði í Íslandsmótinu í höggleik í Unglingaflokki og fjór-púttaði svo holuna á eftir.  

Sækirðu þér reglulega kennslu í golfinu og þá hvernig? 

–        Já ég sæki mikið í golfkennslu og þá aðallega hjá okkar helstu þjálfurum í GKG. 

Áttu þér fyrirmynd í golfinu og hver er þinn uppáhalds, uppáhalds golfari?

–        Mín fyrirmynd í golfi er eins og hjá flestum Tiger enda er vinnusemin hans og hugarfar eitthvað til að taka til fyrirmyndar. Minn uppáhalds golfari í dag og er búinn að vera í rúm 9 ár er Jordan Spieth. 

Bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina? 

–        Ég gæti talið mörg vond golfkaup yfir árin en líklegast voru þau verstu pútterinn sem ég 6 púttaði með. Ég fór í sérstaka púttmælingu í Bandaríkjunum og endaði með pútter sem heitir Edel E-1 og ég lét líka sérmerkja pútterinn með skammstöfunum í kóngabláum lit. Kostnaðurinn var hár og eftir að ég 6 púttaði á 8. holu og fjór-púttaði svo holuna á eftir var hann ekki á leiðinni í pokann í bráð. Gallinn við hann er líka að hann er sérmerktur mér þannig að það er erfitt að selja pútterinn. Ekki frábær kaup en góð saga engu að síður (ekki fyrir veskið samt). 

Tekurðu þátt í Meistaramóti GKG?

–        Já heldur betur. Ég hef tekið þátt í öllum þeim Meistaramótum sem ég hef getað tekið þátt í yfir árin og eru þetta orðinn virkilega mörg ár í röð sem ég hef ekki misst af Meistaramóti. 

Ertu annars mikið að keppa í mótum?

–        Já ég keppi virkilega mikið á sumrin og þar helst á mótaröð GSÍ. Ég var að klára mitt seinasta ár á Unglingamótaröðinni í fyrra og þá var mót flest allar helgar. Í ár er það ekki alveg eins og þá möguleiki að leita af mótum erlendis og þá kannski helst á Global Junior mótaröðinni.

Hvert er spilamunstrið þitt yfir sumarið?

–        Á sumrin er ég ekki í neinum sérstökum spilahóp en við erum oft sömu vinirnir sem eigum það til að spila og æfa mikið saman. Ég spila einnig mikið einn þar sem ég á heima ekki það langt frá vellinum og er það fínt stundum að spila einn. Það gerist þó af og til að ég skrái mig á lausan rástíma og kynnist þar að leiðandi nýju fólki sem getur verið virkilega skemmtilegt einnig. 

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

–        Mitt uppáhalds leikform er holukeppni vegna þess að þá skiptir heildarskor yfir allar 18 holurnar ekki endilega öllu máli og þá tilvalið að spila meira árásargjarnt golf. Svo er það líka að spila einn á móti einum sem gerir það ennþá skemmtilegra. 

Uppáhaldsnestið í golfpokanum?

–        Uppáhaldsnestið í pokanum er annaðhvort banani eða gult m&m. 

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

–        Mitt drauma GKG holl væri líklegast, Siffi (Sigfinnur), Hjalti Hlíðberg og Bjarki Pétursson

Spilarðu mikið aðra velli og hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

–        Ég spila virkilega mikið Leirdalinn á sumrin og tek einnig þátt í fjölmörgum mótum svo það er ekki mikið um að ég leiti annað að spila. Minn uppáhalds völlur fyrir utan GKG er annaðhvort Jaðarsvöllur eða Urriðavöllur. 

Hvernig notar þú golfhermana og hvernig er það öðruvísi en að spila úti?

–        Ég nota golfhermana alla daga og nota ég þá mikið í það að þróa og betrumbæta sveifluna, æfa lengdarstjórnun, æfa spil og svo að keppa inn á milli. 

Hvað er lang, lang best við golfið og við GKG?

–        Það sem er lang, lang best við GKG er allt það fólk sem kemur að því að halda GKG á þeim stað sem það á að vera á. Sem er að vera besti golfklúbbur landsins.