Einn af uppáhalds kylfingum GKG er hún Sóley okkar Stefánsdóttir sem hefur lýst GKG upp í gegnum árin með þægilegri nærveru, glaðværð og miklu golfi. Sóley hefur verið að takast á við veikindi síðustu misseri og við mörg sem söknuðum þess að taka með henni hring síðasta sumar eða gott kaffispjall í Mulligan. Við fundum samt heldur betur notalega fyrir því hvar hjarta gleðigjafans Sóleyjar slær þar sem hún vakti yfir fallega vellinum okkar úr Þorrasölunum allt sumarið og það er klárlega óhætt að titla þennan GKG ljósgeisla sem sérstakan verndara þrettándu holunnar sem er í góðri sjónlínu við svalirnar hennar. Sóley hefur það betra og bara mjög gott ef hún sjálf er spurð, er ótrúlega spræk og öll að koma til þótt hún sé ekki alveg komin þangað að taka golfkylfurnar upp aftur. Þar til verða það hins vegar margir GKG kaffibollar í Mulligan, vink og góðir straumar af svölunum og til baka frá okkur. Góðan bata snillingur! ?
Sóley okkar er 77 ára, er með 25,3 í forgjöf og hún fær hér orðið.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær?
Við hjónin ákváðum að þetta væri frábært sport til að stunda saman, pabbi var mikill golfari og búinn að reyna að selja okkur golfhugmyndina í mörg ár en við byrjum 1998.
Hvers vegna valdirðu GKG?
Við erum Kópavogsbúar í húð og hár svo enginn annar klúbbur kom til greina.
Mýrin eða Leirdalur?
Mýrin hentar mér betur.
Hvað ertu að sjá til okkar GKG-inga á þrettándu holunni af svölunum í Þorrasalnum?
Það er svo ótal margt sem ég hef séð, bæði góð og slæm pútt og ýmis tilþrif á þrettándu sem vissulega hafa glatt mig en ég held að það sé best að ég geri ekki upp á milli þeirra snillinga sem hafa sýnt sín tilþrif þar. En skemmtilegasta minningin við 13ándu brautina er þegar Stefán Björnsson frændi minn fór holu í höggi þar með drivernum í hífandi roki og við vorum búin að gera mikla leit að boltanum hans áður en við kíktum í holuna.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?
Eiginmaðurinn Guðmundur (Oddsson núverandi formaður GKG), dóttirin Sigrún og Stebbi frændi eru fjölskyldu hollið mitt. Svo að sjálfsögðu Valkyrjuhópurinn minn. En ef utanfélagsmaður ætti að vera með þá myndi ég helst vilja upplifa að spila með Tiger Woods og Bubba Watson.
Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?
Þegar við Ingibjörg Þ unnum dómarana í Liðakeppni GKG sumarið 2020 en þegar tvær holur voru eftir þá horfðumst við í augu og sögðum “við tökum þá” og það gerðum við.
En það vandræðalegasta?
Við tíundum það ekkert.
Þegar þú hugsar til allra GKG mótanna sem þú hefur tekið þátt í, hvert þeirra er skemmtilegast?
Ljósamótið er svo einstakt með allskonar litaða bolta og sérstök upplifun.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt?
Texas Scramble.
Hver eru bestu eða verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golf tíðina?
Ég man ekki eftir að hafa gert slæm kaup bara misgóð…. Gott svar ?
Uppáhalds holan þín á Leirdalnum?
Áttunda og ellefta finnast mér skemmtilegar og hef ég parað þær báðar nokkrum sinnum.
Uppáhalds holan þín á Mýrinni?
Níunda, munaði cm að ég færi holu í höggi þar eitt sumarið.
Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?
Án efa Skeggjabrekkuvöllur á Ólafsfirði.
Hver er uppáhaldskylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?
Sjöan er í uppáhaldi og nota ég hana eins mikið og ég get, á með henni bein og fín högg.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu?
Pabbi er mín helsta fyrirmynd.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum?
Hnetu og rúsínubland.
Hvað er lang, lang best við GKG?
Fólkið sem er frábært og andinn í GKG er alveg einstakur. Þetta er án efa langbesti klúbburinn að vera í.