Eins og GKG-ingar hafa tekið eftir hefur klúbburinn fengið frábæran liðsstyrk í hinni þrítugu Stefaníu Kristínu Valgeirsdóttur, sem kemur til okkar alla leið frá Akureyri þar sem hún hlaut allt sitt golfuppeldi enda á Jaðarsvöllur og GA alveg sérstakan stað í hennar hjarta. En nú er Stefanía flutt í bæinn og er á góðri leið með að verða mikill GKG-ingur, svo mikill að hún notaði fyrsta meistaramótið sitt í klúbbnum til að lækka forgjöfina sína. Vel gert snillingur! 

Stefanía er með 3,7 í forgjöf, tekur pabba sinn fram yfir Tiger Wood sem spilafélaga, spilaði háskólagolf í USA, hefur þjálfað marga góða kylfinga fyrir norðan, á þann heiður að hafa leitt kvennasveit GA  á verðlaunapall og er mikill snillingur í hermamálum! … en hún á líka heil mikinn séns á að ná langt í vandræðaklúbbnum okkar því það leika líklega fáir það eftir að dræfa í puttann á sér eða að slá boltann hennar Ólafíu Þórunnar í móti í stað síns eigin ?

Stefanía er menntaður grunnskólakennari með áherslu á íþróttir og er jafnframt PGA kennari. Við GKG-ingar fáum heldur betur að njóta þess því þessi meistari heldur utan um almenningskennsluna og hefur umsjón með námskeiðunum hjá Golfakademíu GKG. 

Við bjóðum Stefaníu hjartanlega velkomna í GKG  og við hlökkum til að njóta félagsskapar hennar og leiðsagnar í  golfinu!

Hvað dró þig að golfinu og hvenær?

Stefanía varð Akureyrarmeistari og pabbi hennar vann 1. flokkinn

Það var pabbi, Aðalsteinn Þorláksson, sem dró mig á golfnámskeið þegar ég var 11 ára. Ég átti erfitt með að finna mig í öðrum íþróttum en stóð mig vel á golfnámskeiðinu og vildi þá fara að æfa golf.

Hvers vegna GKG?

Ég var ráðin hingað sem golfkennari í janúar á þessu ári og var þá skráð í klúbbinn sem félagsmaður í leiðinni.

Hvernig líst þér á vellina okkar og hvernig leggjast breytingarnar á 10. og 16. á Leirdalnum í þig?

Mér fannst vellirnir vera í góðu standi í sumar. Breytingarnar leggjast vel í mig. Ég held að þetta verði flott og skemmtilegt. 

Hvernig var golfsumarið þitt?

Ég kenndi mjög mikið í sumar en spilaði ekki nægilega mikið. Það litla sem ég spilaði var ég samt frekar ánægð með. Kom skemmtilega á óvart að ég lækkaði forgjöfina mína í Meistaramóti GKG.

Hvernig var annars upplifunin í fyrsta GKG meistaramótinu þínu?

Ég hafði ekki miklar væntingar og planið var bara að vera með en ekki reyna við verðlaunasæti. Eftir fyrstu tvo dagana var ég aðeins farin að finna mig í gamla keppnisgírnum og seinustu tvo hringina spilaði ég betur en ég hef gert í langan tíma í móti. Ég náði að vinna mig upp í 4. sæti sem er miklu betri árangur en ég þorði að búast við.

Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu?

Úff ég þori ekki að svara þessari spurningu. Ég er held ég ekki búin að vera í klúbbnum nógu lengi til að geta gert upp á milli allra frábæru kylfinganna sem eru hér. Það er hinsvegar auðveldara að velja utanfélagsmann en pabbi yrði alltaf fyrsta val. Annars Tiger Woods ef pabbi kemst ekki. 

Hvað er það skemmtilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum?

Ég hef lent í mörgu skemmtilegu og óvæntu á golfvellinum en það skemmtilegasta og stoltasta augnablikið mitt var þegar ég var í 3. sæti með kvennasveit GA á Íslandsmóti Golfklúbba 2021. Þetta er í fyrsta skipti sem GA hefur verið á verðlaunapalli í 1. deild og það var ekki verra að í liðinu með mér voru allt stelpur sem ég hafði þjálfað síðan þær byrjuðu í golfi. 

En það vandræðalegasta?

Ég drævaði einu sinni í puttann á mér en það er eina skiptið sem ég hef slegið í sjálfa mig. „Hvernig er það hægt?“ spyrja margir. Munið bara að það er allt hægt í golfi!

Svo sló ég einu sinni boltann hennar Ólafíu Þórunnar óvart í Íslandsmóti Golfklúbba árið 2016 og ég skammaðist mín ekkert smá fyrir þetta. Sérstaklega því ég hljóp um 150m til að sækja boltann hennar.

Ég á annars allt of mikið af vandræðalegum sögum af mér á golfvellinum en við geymum þær þar til seinna. 

Hvert er uppáhalds leikformið þitt?

Uppáhalds leikformið mitt er greensome þar sem tveir leikmenn þurfa að spila eins og einn leikmaður. Þá taka báðir upphafshögg, velja betra höggið og spila sama boltanum til skiptis út holuna. Það er svo mikil stemning í þessu leikformi og gaman að hafa stuðninginn frá öðrum í spilinu. 

Hver eru bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina? 

Langbestu golfkaup sem ég hef gert var að fá mér rafmagnskerru en það breytir miklu fyrir svona meiðslapésa eins og mig. Ég er ekki viss hver verstu kaupin hafa verið. Líklega þegar ég ætlaði að kaupa sæti á Clicgear kerruna mína en keypti óvart á 4 hjóla módel þegar mín er 3 hjóla. Það passaði ekki…

Hvort er Mýrin eða Leirdalur þinn völlur?

Mér finnst Mýrin mjög skemmtileg og fínt að fara hana þegar það gefst ekki tími fyrir 18 holur.

Uppáhalds holan þín á Leirdalnum? 

Sjöunda holan á Leirdalnum er í uppáhaldi. Hún bíður upp á svo mikið og gefur eða tekur eftir veðri og vindum. Stundum er hún létt par 5 hola en stundum er hún svakalega erfið þar sem gott er að fá skolla. 

Uppáhalds holan þín á Mýrinni? 

Fyrsta holan er í uppáhaldi á Mýrinni. Hún er góð byrjunarhola og gefur manni von um að þetta verði góður hringur.

Hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG?

Jaðarsvöllur á alltaf sérstakan stað í hjartanu en þar fyrir utan er Golfvöllurinn í Eyjum í miklu uppáhaldi.

Notar þú golfhermana og ef, hver er upplifunin?

Já ég nota þá mjög mikið í kennslu og við að æfa mig og hef gert í nokkur ár. Ég er mjög hrifin af golfhermunum því þegar ég var unglingur að æfa golf þá sló ég í net allan veturinn og hafði ekki hugmynd um hvað ég var að gera. Með golfhermi þá er hægt að sjá nákvæmlega hvað er í gangi í sveiflunni og þannig nýtist tæknin til að gera kylfinga betri. Sem golfkennari er líka mjög gott að hafa tölurnar og greininguna til að styðja við áhersluatriði kennslunnar. Þeir eru því frábærir bæði á veturna og sumrin til að halda golfinu við og æfa sig í. 

Stefanía liðsstjóri ásamt stúlknasveit GA

Hver er uppáhalds kylfan og í hvaða aðstæðum notarðu hana helst?

Það er klárlega 5-járnið mitt. Ég og dræverinn minn erum ekki alltaf góðir vinir og oftast ekki 3-brautarkylfan heldur en sama hvað gengur á þá get ég alltaf slegið gullfalleg högg með 5-járninu mínu og hika ekki við að nota það á teig í staðin fyrir dræverinn.

Áttu þér fyrirmynd í golfinu?

Ég á nokkrar fyrirmyndir eftir því hvaða þátt golfsins er átt við. Fyrirmyndin mín sem leikmenn eru Lexi Thompson, Annika Sörenstam og Rickie Fowler út af mismunandi ástæðum. Lexi vegna þess hversu mikil íþróttakona hún er og hversu gott viðhorfið hennar er, Annika útaf öllu sem hún hefur afrekað og það sem hún hefur gert fyrir golfíþróttina og svo Rickie því hann er einn af vanmetnustu atvinnumönnunum. Það er fátt skemmtilegra en að fylgjast með honum spila þegar hann er í ham. 

Svo á ég nokkrar fyrirmyndir í golfkennslu á Íslandi sem eru Árni Jónsson, Heiðar Davíð Bragason, Magnús Birgisson og Ragnhildur Sigurðardóttir en þau hafa mótað mig í þann golfkennara sem ég er í dag og eru enn að.

Uppáhalds nestið í golfpokanum?

Bláber og niðurskorið mangó er í miklu uppáhaldi á vellinum en einnig tek ég oft með mér chia graut með granóla og hnetusmjöri til að halda uppi orkunni á vellinum. Það endist vel og lengi og gefur mikla orku á 18 holum. Svo er ég alltaf með lítið box með suðusúkkulaði eða súkkulaðirúsínum til að gleðja mig ef illa gengur.

Það er ekki hægt að sleppa þér án þess að spyrja þig um námskeiðin og hópastarfið framundan sem þú ætlar að halda utan um og þær nýjungar sem verða í kringum þau?

Já, ég er svakalega spennt fyrir vetrinum en ég er þegar farin af stað með æfingar fyrir almenna kylfinga sem ég verð með í allan vetur. Það eru morgunæfingar á þriðjudögum og fimmtudögum og svo er ég með kvennatíma annan hvern laugardag. Á æfingunum fer ég í alla hluta leiksins og eru þær upplagðar fyrir alla sem vilja bæta leikinn sinn á skipulagðan hátt. Það er hægt að mæta á staka æfingu eða allar æfingarnar, bara eins og hentar hverjum og einum. Ég sé það fyrir mér að bjóða upp á meira í vetrarstarfinu fyrir hinn almenna kylfing því golfið er fyrir alla og það ættu allir að hafa tækifæri á að æfa golf, sama á hvaða aldri eða getustigi þeir eru.

Ég er líka reglulega með Trackman námskeið þar sem ég kenni fólki að nota Trackman hermana og allt það frábæra sem sú tækni hefur uppá að bjóða. Ég fer af stað með fleiri námskeið tengd Trackman á næstu vikum.

Ég er síðan með fleira skemmtilegt í bígerð en hægt er að fylgjast með hvað er í boði á https://gkg.is/kennsla/skraning-a-almenn-golfnamskeid/ 

Að lokum, hvað er lang, lang best við GKG?

Ég verð að segja allt fólkið. Bæði félagsmenn og starfsfólkið. Það eru allir svo yndislegir, opnir og jákvæðir í GKG. Andinn þar er einstakur og sést það best á því hversu vel var tekið á móti mér þarna sem golfkennara þó að fáir þekktu mig.

Stefanía Kristín lék háskólagolf í Bandaríkjunum