Frá vinstri: Jói Hjalta, Siggi smiður og Siffi
Hann heitir fullu nafni Sigfinnur Helgi Gunnarsson en er nú flestum kunnastur undir nafninu „Siffi“, er staðsettur í Kópavogi þótt hann sé alltaf Hafnfirðingur í hjartanu, er 27 ára en verður líklega orðinn 28 þegar þessi pistill kemur út og er með 12,5 í forgjöf. Við erum að tala um proshopmeistarann Siffa sem tekur svo ljúflega og fagmannlega á móti okkur í GKG og er einn af þeim sem gerir klúbbinn okkar að þeim frábæra stað sem hann er. En eins og þið sjáið á forgjöfinni Þá er Siffi líka flottur með kylfurnar og hann splæsir fjórða sætinu í draumahollinu sínu á Sigga smið ef Viktor Hovland nær ekki að mæta. Við skulum gefa Siffa „golforðið“.
Hvað dró þig að golfinu og hvenær? Ég hef átt mörg tækifæri til að að byrja í golfi í gegnum tíðina. Pabbi dró mig fyrst á Hvaleyrina þegar ég var gutti. Svo dró hann mig á Strandarvöll og þar stalst maður í golf í miðnætursólinni. Á aldrinum 17-18 ára var ég að vinna á Hellishólum og hélt áfram að fikta við golfið en það kviknaði aldrei neinn alvöru áhugi. En svo kom að því að ég byrjaði að vinna hérna í GKG, þá má segja að golfáhuginn hafi kviknað.
Hvers vegna valdirðu GKG? Ég valdi GKG eftir að fyrrum starfsmaður GKG og góður vinur minn, hann Fannar Aron, plataði mig í að hefja störf hér. Ævilega þakklátur honum fyrir það þar sem félagstarfið í klúbbnum er svo frábært.
Uppáhalds GKG hringurinn? Leirdalurinn allur er alltaf skemmtilegur yfir hásumarið. Þegar dregur á tímabilið er alltaf gaman að spila neðri Leirdal
Hvernig komstu undan síðasta golfsumri? Úúfff, það var ekki mikið um að vera hjá mér í sumar. Spilaði töluvert minna en ætlunin var. Bætingin var ekki mikil, þó var ég frekar ánægður með púttin mín. Ég ákvað þó í seinni hluta tímabils að spila óttalaust golf og lét loks verða að því að taka upp driverinn (hef aldrei verið mikill driver maður og spila oftast með járni af teig) en gekk það misvel. Ég náði hinsvegar einu skemmtilegu markmiði í byrjun sumars þegar ég landaði mínum fyrsta erni. Honum náði ég á 7. braut Vatnsleysustrandar. Tók mitt góða 4 járn af teig og sló boltann um 250-260 metra (smá meðvindur) og setti hann ofaní með 56 gráðum á ca. 8 metrum.
Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum og hvað er það vandræðalegasta? Það eftirminnilegasta er jafnframt það vandræðalegasta, myndi ég segja. Fyrsti örninn. Ég sum sé sló smá blint í átt að gríninu og vorum við allir sammála í hollinu um að það væri öruggt að slá. En svo þegar við röltum af teig þá sjáum við næsta holl á undan okkur labba af gríninu, þannig að ég labba til þeirra með skottið á milli lappana og biðst afsökunar þar sem ég var nálægt því að skjóta í golftöskurnar þeirra. Svo mun ég aldrei gleyma leiðinlegasta fugli sem ég hef nokkurn tíman fengið. Það var á 17.holu á leirdalnum (sjá mynd).
Er eitthvað tímabil í gegnum golftíðina sem þú getur talað um sem þitt besta til þessa? Nei held að það sé ekkert eitt tímabil sem stendur upp úr enda stuttur golfferill. En það eru mörg tímabil eftir til að hlakka til.
Sækirðu þér reglulega kennslu í golfinu? Nei ég hef ekki verið nógu duglegur við að sækjast eftir kennslu þótt þjálfararnir séu alstaðar í kringum mig. Ég fæ þó ráð frá meistaraflokks kylfingum og þjálfurum af og til. Held að það yrði gott fyrir mig að plata þá til að kenna mér að nota driverinn.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu og hver er þinn uppáhalds golfari? Það er einfalt mál fyrir mig að benda á fyrirmyndirnar mínar í golfinu. Það eru okkar menn: Aron Snær, Róbert Leó, Gunnlaugur Árni og Bjarki Pétursson. Unaður að fá að sjá metnaðin sem þeir leggja í golfið. Svo er minn uppáhalds golfari hann Viktor Hovland, ég get ekki annað en haldið með honum þar sem ég er smá norðmaður sjálfur.
Bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina? Bestu kaupin eru klárlega Járnin mín sem ég keypti af okkar eigin afreksþjálfara AJ Davids. Verstu kaup? Það ætti að vera sleeve af prov1 sem ég týndi öllum á sama hring.
Tekurðu þátt í Meistaramótum GKG og lumarðu á einhverjum meistaramóts-leynitrixum fyrir okkur hin? Ég reyni að taka þátt á hverju ári. Með misgóðum árangri. En gaman að segja frá að ég hef á hverju sumri unnið mig upp um flokk. Búinn að taka þátt í 5. 4. 3. og 2. flokki. Þannig að markmiðið á næsta ári er fyrsti flokkur. Eina trixið sem ég er með er ekkert leynilegt en það er að nýta sér stóru púttflötina. Hún hefur reynst mér mjög vel.
Ertu annars mikið að keppa í mótum? Það er auðvitað liðakeppni GKG. Það finnst mér „þræl“skemmtilegt, mikil stemning og góður andi í kringum þá keppni.
Hvert er spilamunstrið þitt yfir sumarið? Spilarðu yfirleitt með sömu félögunum eða skráirðu þig bara í lausan rástíma sem hentar þér, jafnvel þótt þú þekkir engan í hollinu? Já bara allt saman. Ég og einn félagi reynum að fara einu sinni í viku. Annars skoða ég oft samdægurs hvort að það séu einhver stök pláss á „prime time“ og hoppa á það.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt og hvers vegna? Á hverju ári er ég í keppni við félaga minn. Við spilum höggleik án forgjafar og sigurvegarinn eftir hverjar 18 holur fær stigið. Ég hef boðið honum áður að spila höggleik með forgjöf en hann er alltaf með það í hausnum að hann geti unnið mig. Sumarið 2023 minnir mig að ég hafi unnið hann 15-1. Hann bætti sig reyndar aðeins núna og var staðan 5-5 á einum tímapunkti en auðvitað vann ég hann í lok sumars 8-5. Þannig já höggleikur án forgjafar er svona vinsælast hjá mér.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum? Appelsínu Gatorade og Corny. Ég tek yfirleitt ekki mikið nesti með mér út á völl. Finnst best að næra mig vel fyrir hring og kíkja síðan inn til Jönu og Tomma eftir hring.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með í hollinu? Ég myndi velja Róbert Leó og Bjarka Péturs, svo eitt símtal á Viktor Hovland og þá erum við með fullt holl. Ef Viktor kemst ekki þá er Siggi smiður næstur á lista.
Spilarðu mikið aðra velli og hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Já ég reyni alltaf að breyta smá til, núna í sumar spilaði ég Þorlákshafnarvöll, Grafarholt, Sveinskot, Mostra, Kirkjubólsvöll í Sandgerði, Geysi og Kiðjaberg. En ég myndi setja Þorláksvöll efst á þennan lista, aðallega því að þar næ ég að plata bræður mína til að spila með mér. Það er alltaf fjör og mikill húmor sem fylgir því.
Hvernig notar þú golfhermana og hvernig er það öðruvísi en að spila úti? Ótrúlegt en satt þá nýti ég mér þá ekkert sértsaklega vel. Þarf að vera duglegri í því. En ég reyni nú alltaf að taka þátt í ping mótaröðinni. Annars er maður töluvert betri í inni golfi heldur en úti. Enda aðeins auðveldara að slá úr bönker eða einhverju ýktum legum í hermi.
Hvaða væntingar og plön ertu með fyrir næsta golfsumar? Næsta sumar verður mitt sumar (segir maður það ekki á hverju ári). Markmiðin eru að halda betur utan um tölfræðina, það er að segja hversu margar brautir og grín ég hitti og auðvitað það að reyna koma mér undir 10 í forgjöf.
Að proshop lífinu … hverju erum við kylfingarnir bestir í og hvað mættum við gera betur þegar kemur að proshop? Það er ekkert út á ykkur kylfingana að setja. Haldið áfram í sama rythma.
Síðast en ekki síst, hvað er lang, lang best við golfið og við GKG? Klárlega meðlimirnir sjálfir. Þar sem ég tala við ykkur öll á hverjum degi. Víður og skemmtilegur hópur af fólki.