Megin tilgangur æfingaferða sem er margþættur, en þó fyrst og fremst að auka leikform afrekskylfingana fyrir komandi keppnistímabil eftir æfingar mestmegnis innahús í vetur; að geta æft og leikið við góðar aðstæður í umhverfi þar sem golf er í fyrirrúmi, og ekki síst að efla liðsandann. Undanfarin ár hefur Bretland orðið fyrir valinu sem áfangastaður æfingaferðarinnar, og þó svo golfvellirnir hafi verið með miklum ágætum þá hefur alltaf vantað herslumuninn þegar æfingaaðstaðan er annars vegar.
Fyrir atbeina Arnars Más Ólafssonar, golfkennara í Berlín, var ákveðið að láta reyna á Þýskaland að þessu sinni. Í stuttu máli voru aðstæður fyrsta flokks í alla staði, og einhverjar þær bestu sem undirritaður hefur kynnst. Märkisher golfvöllurinn er 6330 m langur af öftustu teigum, par 72, og gæti vel haldið mót á evrópsku mótaröðinni. Einnig er 2900 m 9 holu völlur og einnig 9 holu æfingavöllur með 40 – 130 m holum. Æfingavöllurinn var leikinn nokkrum sinnum enda ákjósanlegur til að þjálfa stutta spilið. Stórt æfingasvæði var til staðar, með gras-sláttarsvæði (sem er sjaldgæft á Íslandi). Þar var hægt að æfa öll högg, hvort sem var úr brautarglompu, misjöfnum halla, eða misjafnri vindátt eftir því hvaðan kosið var að slá. Tvær stórar vipp/pitch flatir, umkringdar glompum, voru mikið notaðar. Auk þess voru 4 púttflatir. Þess má geta að allar pútt- og vippflatir voru í sama gæðaflokki og flatirnar á vellinum, sem ber merki um hversu ríka áherslu stjórnendur Märkisher golfklúbbsins leggja á að hafa bestu hugsanleg skilyrði til æfinga. Einnig voru aðstæður fyrir golfkennara klúbbsins fyrsta flokks og sagði yfirkennari klúbbsins mér að hvergi væru eins mikill tækjabúnaður til golfkennslu eins og í þessum klúbbi. Til að nefna dæmi þá var Scope upptökubúnaður, vélbúnaður (robot) sem hægt var að stilla inn “rétta” sveifluferilinn og láta nemandann sveifla eftir, auk marvíslegra hjálpartækja fyrir stutta spilið. Allt starfsfólk var einkar alúðlegt og hjálplegt. Síðast en ekki síst var maturinn mjög góður.
Eftirfarandi er stutt lýsing á dagskrá hvers dags:
- dagur: Komum á hótelið um miðjan dag, snætt og síðan gengið út á golfvöll sem var í um 10 mínútna göngufjarlægð. Æfðum í u.þ.b. 3 klukkutíma.
- dagur: Æfing frá kl. 8.30 – 12. Hádegismatur og síðan leiknar 18 holur.
- dagur. Æfing frá kl. 9 – 12. Hádegismatur og síðan haldið til Wannsee golf club sem er elsti golfklúbbur Þýskalands, stofanaður 1895. Arnar Már er þjálfari hjá Wannsee golf club. Búið var að skipuleggja æfingaleik þar sem leiknar voru 18 holur á Wannsee. Fyrri 9 var leikið með foursomes fyrirkomulagi, þ.e. 2 og 2 saman og slegið til skiptins. Seinni 9 var leikinn tvímenningur, þ.e. maður á móti manni. Úrslitin voru okkur óhagstæð, en reynslan af slíkum æfingaleik er mjög mikilvæg og gefur ferð sem þessari aukið gildi þar sem kylfingarnir fengu þarna tækifæri til að leika við afbragðs kylfinga á erlendri grundu við erfiðar aðstæður, en Wannsee golfvöllurinn er mjög þröngur skógarvöllur.
- dagur: Morgunmatur kl. 6:30 og leiknar 18 holur frá kl. 8. Eftir hádegismat var síðan æft í um 3-4 klukkutíma.
- dagur: Morgunmatur kl. 6:30 og leiknar 18 holur frá kl. 8. Ottó náði frábærum hring og lék á 68 höggum við nokkuð erfiðar aðstæður þar sem vindur blés. Eftir hádegi var gefið frí frá æfingum og haldið til miðborgar Berlínar með lest, þar sem kylfingar gátu svalað skoðunar- og verslunarþörf sinni.
- dagur: Æft var frá kl. 10 – 18. Ekki var leikið á vellinum þar sem hann var lokaður öðrum en meðlimum (sunnudagur).
- dagur: Þá var komið að GKG German Open, en leiknir voru tveir hringir þennan dag og keppt án forgjafar. Þrjú efstu sætin urðu þannig skipuð: 1. Simmi 149 högg. 2. Ottó 153 högg. 3. Valli 154 högg. Undirritaður lék reyndar á 71 – 67 en var ekki með í mótinu. Um kvöldið var slakað á og gítarinn sem var með í fjör settur í gagnið. Arnar Már spilaði nokkur af sínum frumsömdu lögum, s.s. Bogey blús ofl. en síðan tók Gunni G. við og hélt uppi fjörinu. Fleiri spreyttu sig með ágætum tilþrifum þannig að óhætt er að segja að margir hverjir eru ekki einungis efnilegir golfarar en einnig á fleiri sviðum.
- dagur. Haldið heim til Íslands.
Af þeim æfingaferðum sem undirritaður hefur farið í með GKG þá ber þessi af. Vart er hægt að hugsa sér betri aðstæður til æfinga en á Märkisher golf club og því tvímælalaust hægt að mæla með þessum stað ef golfiðkun og æfingar eiga að vera í fyrirrúmi. Að lokum vil ég geta þess að allir í hópnum voru sér og GKG til mikils sóma.
Úlfar Jónsson , afreksþjálfari GKG