Unglinganefnd GKG stóð fyrir æfingaferð til Essex golf club á Englandi dagana 4.-8. apríl. Alls fóru 15 kylfingar í þessa ferð auk tveggja þjálfara, undirritaðs og Derrick Moore. Einnig voru með í för 3 foreldrar. Þátttakendur gátu safnað til ferðarinnar með sölu á ýmsum varningi, auk þess voru tekjur frá niðjamóti GKG, páskabingói og dósasöfnun nýttar til ferðarinnar. Einnig veittu m.a. Norðurorka, Sensa og Hugurax ferðinni stuðning. Unglinganefnd GKG stóð fyrir æfingaferð til Essex golf club á Englandi dagana 4.-8. apríl. Alls fóru 15 kylfingar í Kynnisferðir gáfu ferðalöngunum farmiða fram og til baka með flugrútunni. Kostnaður klúbbsins af ferðinni var enginn.
Markmið svona ferðar er annars vegar að styrkja liðsheildina og hinsvegar að auka spilæfingu kylfinganna, enda einungis verið um stífar tækniæfingar í vetur innandyra í Kórnum og utandyra í Hraunkoti. Dagurinn hófst jafnan mjög snemma með léttu skokki og teygjuæfingum til að koma blóðinu af stað. Tíminn var síðan vel nýttur til að leika golf, en á þessum 5 dögum léku allir að meðaltali rúmlega hring per dag, sumir léku 7-8 hringi. Ekki sakaði að veðrið lék við okkur allan tímann, um 15 stiga hiti og þurrt. Smá gjóla var seinustu tvo dagana en ekkert meira en við könnumst við hér á Íslandi. Essex völlurinn er mjög skemmtilegur, þó býsna langur og skökkum teighöggum var refsað því nóg var af trjám sem og vatnstorfærum. Flatirnar voru þó ekki alveg upp á sitt besta, sem e.t.v. mátti búast við á þessum árstíma.
Greinilegt var að flestir bættu sig eftir því sem leið á ferðina, sem var mjög jákvætt. Seinustu tvo dagana var svo haldið mót og sköffuðu þau Gunnar Árnason og hjónin Sigríður Olgeirsdóttir og Sigurjón Gunnarsson, sem voru með í för, verðlaun í mótið. Leikinn var höggleikur án forgjafar og sigraði Starkaður Sigurðarson, í punktakeppni með forgjöf sigraði Ragnar Már Garðarsson. Í kvennaflokki var leikinn punktakeppni með forgjöf og sigraði Ingunn Gunnarsdóttir.
Það er mjög ánægjulegt að tekist hafi að fara í æfingaferð, eins og gert hefur verið undanfarin ár. Miðað við efnahagsástandið þá þótti ólíklegt að yrði af slíku að þessu sinni, en eftir könnun meðal foreldra þá var ákveðið að leita leiða til að fara í stutta en markvissa ferð, á sem ódýrastan máta. Einnig var ákveðið að nýta páskafríið svo það yrði sem minnst rask gagnvart náminu. Essex golf club varð fyrir valinu ekki síst vegna fenginnar reynslu, en farið var á sama stað fyrir þremur árum síðan. Aðstæður eru þar mjög þægilegar, gist er á golf-hótelinu sem er nokkur skref frá fyrsta teig. Einnig er stórt æfingasvæði og stuttur 9 holu æfingavöllur, sem margir nýttu sér eftir 18 holu hringinn. Enginn tími fór því í akstur til og frá golfvelli, og er því óhætt að segja að hver mínúta hafi verið vel nýtt í ferðinni. Það eina sem hægt var að setja út var að flatirnar hefðu mátt vera betri. Einnig var hörgull á kerrum og þurftu því um helmingur af hópnum að bera pokann á öllum hringjum.
Þakka ber Gunnari Jónssyni, formanni unglinganefndar, og Sigríði Olgeirsdóttur, sem bar hitann og þungann af fjáröflun fyrir ferðina. Krakkarnir fá mikið hrós fyrir góða ástundun og framkomu innan vallar sem utan. Þau voru, eins og í fyrri æfingaferðum, sjálfum sér og klúbbnum til mikils sóma. Foreldrar og aðstandendur þeirra, sem og klúbburinn, geta verið virkilega stolt af þeim.
Áfram GKG!
Úlfar Jónsson
Íþróttastjóri GKG
Glaðbeittur hópur GKG unglinga í lok vel heppnaðrar æfingaferðar. Frá vinstri: Ingunn Gunnarsdóttir, Lovísa Sigurjónsdóttir, Selma Kristjánsdóttir, Starkaður Sigurðarson, Björk Sigurjónsdóttir, Ari Magnússon, Yngvi Sigurjónsson, Bjarki Júlíusson, Gunnar Gunnarsson, Davíð Sigurbergsson, Jón Sævar Brynjólfsson, Rúnar Grétarsson, Pétur Ólafsson, Ragnar Garðarsson, Daníel Jónsson.