Birgir Leifur Hafþórsson sem er sá kylfingur sem náð hefur hvað lengst í íþróttinni hér á landi og erlendis og er félagi í GKG hefur rutt brautina sem margir af okkar yngri kylfingum eiga eftir að feta í framtíðinni og ekki svo ýkja langt þangað til. Til að svo megi verða þurfum við forsvarsmenn klúbbsins og sveitarfélögin í sameiningu að standa eins vel að málum og okkur er frekast unnt.
Á árinu 2004 var tekin í notkun aðstaða i nágrannasveitarfélagi okkar sem kallað hefur verið Básar. Þar eru aðstæður eins og þær gerast bestar til golfæfinga í heiminum. Með tilkomu þessa æfingasvæðis var um að ræða byltingu fyrir íslenska kylfinga, þar sem nú er mögulegt að æfa utan dyra allan ársins hring. Svæðið er flóðlýst og myrkur því ekki fyrirstaða æfinga. Þarna er einnig að finna eina fullkomnustu golfkennsluaðstöðu landsins. Upphituð einkarými, þar sem hægt að hafa opnar dyr út á æfingasvæðið. Boltasölukerfið er eitt það fullkomnasta sem fæst í heiminum í dag og boltavélar á öllum hæðum.
Á árinu 2005 voru tekjur af Básum tæpar 42 milljónir króna skv. Upplýsingum úr ársreikningi sem eru rúmlega helmingur af heildartekjum GKG á sama tíma. Kostnaður við rekstur svæðisins var tæpar 28 milljónir sem skilaði því um 14 milljónum í hagnað af rekstri æfingasvæðisins einu og sér. Það sem Vífilsstaðavöllur og æfingasvæðið okkar hefur fram yfir alla aðra golfvelli sem bera má saman við er að staðsetning hans og hversu auðvelt aðgengi er að æfingasvæðinu og vellinum. Það er í raun einsdæmi og á sér engan líkan neins staðar á landinu og þó víðar væri leitað.
Mitt mat er það að enn eigi eftir að aukast ásókn í Bása og önnur sambærileg svæði sem eru í byggingu, s.s. hjá GK í Hafnarfirði með dyggri aðstoð Hafnarfjarðarbæjar og fleiri klúbbum. Af þessu má sjá að gríðarlegir möguleikar eru til sjálfbærs. Þess utan er mjög mikilvægt að hefja framkvæmdir við lagfæringu og uppbyggingu framtíðar æfingasvæðis GKG sem fyrst til þess að tryggja klúbbnum áframhaldandi forystuhlutverk í golfinu á Íslandi.
Á síðasta ári var lokið við umfangsmikla vinnu og naflaskoðun klúbbsins þegar hann var fyrstur allra golfklúbba á Íslandi til að hljóta útnefningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ. Í kjölfarið var gefin út skýrsla sem heitir “Markmið og verkefni GKG til næstu ára” sem fer ítarlega yfir þau markmið sem GKG hefur sett sér og sínum félagsmönnum ásamt þeim verkefnum sem stjórnendur telja að stefna eigi að. Með þessu vakti fyrir okkur forsvarsmönnum klúbbsins að skilgreina hina margþættu starfsemi sem fer fram innan GKG og marka stefnu í öllum málum sem lúta að rekstri klúbbsins. Þar er meðal annars komið inn á kröfur klúbbsins um menntun og hæfileika þjálfara og leiðbeinenda. Þar koma fram skýr markmið með barna og unglingaþjálfun bæði hvað varðar afreksþáttinn og ekki síður kennslu þátt sem allir kylfingar af öllum getustigum nýta sér. Þá er ótalin gríðarlega metnaðarfull afreksstefna og framtíðaráform keppniskylfinga. Það er því ljóst að til þess að GKG geti staðið við þau háleitu markmið sem sett eru fram í handbók klúbbsins þarf hann að vera fær um að skapa sem besta aðstöðu fyrir þá sem að málinu vinna.
Jóhann Gunnar Stefánsson