GKG skartar ekki bara skemmtilegu félagsstarfi heldur líka einstaklega flottu íþróttastarfi og eðal þjálfurum. Einn þeirra er íþróttastjórinn okkar, hann Guðmundur Daníelsson, en hann leiðir barna- og unglingastarf GKG. Gummi, eins og við köllum hann flest, er sjálfur frábær kylfingur sem hefur náð lægt 3,6 í forgjöf. En eins og við hin þá á Gummi að sjálfsögðu líka sínar vandræða golfminningar sem hann er til í að deila með okkur ásamt öllu því skemmtilega í kringum golfið og íþróttastarf klúbbsins. Kynnumst þessum ljúfa GKG-ingi betur.
Fyrst að íþróttastjóranum Gumma
Hvað felst í því að vera íþróttastjóri GKG? Það eru margvísleg verkefni sem að felast í því. Þau helstu eru að skipuleggja og manna æfingar fyrir almenna hópa og afrekshópa svo og golfleikjanámskeiðin á sumrin. Ég er í miklum samskiptum við foreldra og forráðamenn iðkenda. Verkefni sem fylgja liðakeppnum yfir sumarið og æfingaferðum eru líka stór partur af starfinu. Annars er þetta hlutverk mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Við Haukur Már vinnum náðið saman í þessum verkefnum og erum með 3 frábæra PGA þjálfara í hópnum okkar ásamt okkar flottu leiðbeinendum.
Eru það margir hópar sem tilheyra íþróttastarfi klúbbsins? Við skiptum starfinu upp í tvo megin hluta, í öðrum þeirra eru almennir hópar og í hinum afrekshópar. Í almennu hópunum eru núna 80 iðkendur í 4 aldurshópum, kylfingar á aldrinum 8 til 18 ára. En í þessum hópum bætast síðan margir við yfir sumartímann. Í afrekshópnum eru 90 iðkendur og þar er aldursbilið breiðara, yngsti kylfingurinn er 10 ára en flestir eru á aldrinum 12-16 ára. Þegar komið er upp í meistaraflokk er yngsti iðkandinn 16 ára.
Hvaða sess á íþróttastarf GKG innan klúbbsins? GKG er búið að standa fyrir mjög flottu barna-, unglinga- og afreksstarfi (BUA) undanfarin ár. Það hefur skilað mörgum Íslandsmeistaratitlum og miklum fjölda iðkenda. Við fórum í mikla stefnumótun vorið 2024, vinnum markvisst eftir þeirri stefnu og leggjum okkur fram við að styrkja og bæta íþróttastarfið innan GKG.
Hver eru markmið íþróttastarfsins? Við stefnum auðvitað alltaf á að landa Íslandsmeistaratitlum og vonandi sjáum við þá sem flesta núna í sumar. Annars er megin markmiðið það að hafa iðkendur í íþróttastarfinu sem hafa gaman af því að spila og æfa golf í góðri aðstöðu og í góðum félagsskap. Svo er frábært að fylgjast með okkar flottu kylfingum í háskólagolfinu í Bandaríkjunum, þar sem Hulda Clara og Gulli eru búin að spila frábærlega undanfarið.
Snúum okkur þá að kylfingnum Gumma.
Golfarinn Gummi? Hann er 44 ára og með 15,7 í forgjöf, tölu sem flest okkar hinna værum alsæl með en okkar maður vonast til að færa sína eitthvað niður í sumar. Gummi er búsettur í Reykjavík en er Borgnesingur í grunninn og byrjaði þar í golfi þegar hann var sex ára. Heyrum hvernig golfævintýrið byrjaði. Það voru félagar mínir í Borgarnesi sem að voru að leika sér í golfi í hverfinu mínu. Svo 6 ára ég ákvað að vera með, keypti mér kylfu og valdi þar 2-járn, nánar Dunlop blade járn. Kylfan sú hafði þann kost að það var bæði hægt að slá með henni og pútta.
Hvenær komstu í GKG og hvernig fer um þig í klúbbnum? Vorið 2023 var mér var boðið að koma og þjálfa almennu flokkana í GKG. Mér líkaði það mjög vel. Flott aðstaða og virkilega skemmtilegur hópur þjálfara og iðkanda. Konan mín, Hansína, er búin að vera í GKG í mörg ár svo að ég hafði aðeins komið með henni á mót og í lokahóf meistaramóta. Það fer mjög vel um mig í GKG. Félagsstarfið í klúbbnum er frábært og mjög gaman að sjá það svona virkt.
Uppáhalds GKG hringurinn og á einhver ein hola meira í þér en aðrar? Það er bara Leirdalurinn allur, mér gengur yfirleitt betur á efri hlutanum. En uppáhaldsholan mín er 12. holan. Nældi mér í örn þar í fyrra sumar og það er alltaf skemmtilegt.
Hvernig komstu undan síðasta golfsumri? Síðasta golfsumar var ekki nógu gott hjá mér. Ég spilaði reyndar ekki mikið en það sem ég spilaði var ekki alveg eins og ég vildi hafa það. En þrátt fyrir spilamennskuna var mjög gaman að taka þátt í meistaramóti GKG í fyrsta skipti.
Hvernig sérðu fyrir þér golfsumarið fram undan? Ég er ekki með mikið planað fyrir sumarið. Vona bara að ég nái að spila fleiri hringi í sumar en í fyrra og að spilamennskan verði jafnari.
Hver er styrkur þinn með kylfurnar og hver er uppáhalds kylfan? Mínir styrkleikar liggja í 80-100 metrunum. Ég slæ ekki mjög langt en ég hef mjög gaman af stutta spilinu. Uppáhalds kylfan er sennilega Ping blendingur, 17 gráðu, ég nota hann í ýmislegt.
Er eitthvað tímabil í golfinu í sem þú getur talað um sem þitt besta? Sumarið 2003 held ég að hafi verið það besta hjá mér. Þá var ég búinn að vera búsettur í Arizona í 5 mánuði og æfði vel þann tíma. Ég náði það sumar minni lægstu forgjöf, þremur komma sex.
Hvað er það eftirminnilegasta sem þú hefur lent í á golfferlinum og hvað það vandræðalegasta? Það eru mjög mörg eftirminnileg atvik á golfvellinum. Margir eftirminnilegir meðspilarar og góðar stundir á vellinum. Það vandræðalegasta er kannski það að hafa hitt teighögg á Eyjunni í Borgarnesi á blá hælinn þannig að boltinn lenti fyrir framan brúnna yfir á Eyjuna. Ég púttaði yfir brúnna og setti svo par púttið niður. Frekar vandræðalegt par. Annað atvik er þegar að ég tók við nándarverðlaunum í opnu móti og var 89 cm frá holu en niðurstaðan varð þrípútt og skolli.
Sækirðu þér enn kennslu í golfinu? Ég sæki því miður ekki mikið kennslu en það eru þá helst Aron, Andrés, Arnar og Haukur sem hjálpa mér og gefa mér góða punkta.
Áttu þér fyrirmynd í golfinu og hver er þinn uppáhalds, uppáhalds golfari? Ég er hrifinn af Tommy Fleetwood eftir að hafa séð hann tvisvar sinnum á Ryder Cup. Hann er mikill liðsfélagi og spilar mjög flott golf. Annars er Seve Ballesteros í miklu uppáhaldi. Hann gat gert allt, var rosalega góður með járnin og góður í öllum aðstæðum.
Bestu og verstu golfkaupin sem þú hefur gert í gegnum golftíðina? Ég kaupi ekki mjög oft nýjar kylfur og held mig við það sem ég er með í pokanum. Full íhaldssamur segja sumir. En ég hef mjög gaman af gömlum Ping kylfum og á nokkrar í safninu. Bestu kaupin eru sennilega Ping Anser 2i pútterinn minn sem að ég fékk árið 1997 og ég er enn þá með í pokanum hjá mér. Ætli verstu kaupin séu ekki þegar að ég ætlaði að kaupa 100 svamp golfbolta í mismunandi litum á Alibaba en fékk senda 10 rauða bolta.
Mót mótanna í sumar, Meistaramóti GKG, verðurðu með og ef, mun þá keppnis- eða stemningsskapið ráða för? Já, ég stefni að því að taka þátt í Meistaramóti sumarsins og það verður þá meira stemningsskapið sem að stendur upp úr hjá mér. Mjög gaman að vera með og ég reyni að stilla væntingum í hóf.
Ertu annars mikið að keppa í mótum og ef, hvers konar mótum? Stutta svarið er nei. Ég er ekki mikið að keppa en hef alltaf haft gaman að því að spila í góðum mótum.
Spilarðu yfirleitt með sömu félögunum eða skráirðu þig bara í lausan rástíma sem hentar þér, jafnvel þótt þú þekkir engan í hollinu? Ég spila mest með vinum og Hansínu konunni minni og vona að golfhringirnir verði fleiri sumarið fram undan en það síðasta. Ég hef líka gaman að því að skrá mig á rástíma þó að ég þekki þar ekki neinn. Þá kynnist maður fólki og hittir fólk sem að maður hefði annars ekki haft tækifæri á að kynnast.
Hvert er uppáhalds leikformið þitt og hvers vegna? Holukeppni er skemmtilegasta leikformið. Þar getur taktík skipt miklu máli og þá er hægt að taka fleiri sénsa. Því það er bara keppt um hverja holu og þá þarf maður ekki að hugsa um heildar skorið.
Uppáhaldsnestið í golfpokanum? Mér finnst alltaf gott að hafa hnetu- og rúsínumix með mér í pokanum, banana og kannski hafrastykki.
Hvert er drauma GKG hollið þitt og hvaða utanfélagsmaður fengi að vera með? Úff þetta er erfið spurning. En ég vel eitt stykki Íslandsmeistaraholl og með mér spila Hansína (fyrrum Íslandsmeistari 35+) Aron Snær Júlíusson og Bjarki Pétursson.
Spilarðu mikið aðra velli og hver er uppáhaldsvöllurinn fyrir utan GKG? Ég spila oftast Hamarsvöll í Borgarnesi ef ég spila aðra velli. En mig langar að spila fleiri velli á Íslandi og vonandi að ná að spila alla vellina hér heima. Það væri gaman.
Hvernig notar þú golfhermana og hvernig er það öðruvísi en að spila úti við? Ég nota hermana mest til æfinga með millijárnum, 50 gráðum og upp í 6 járn. Mér finnst mjög gott að taka þau test sem að Trackman býður uppá. Þá getur maður séð stöðuna hjá sér og hvað maður þarf að bæta. En auðvitað er líka gaman að spila í Trackman í góðum hópi.
Að lokum, hvað er lang, lang best við golfið og við GKG?
Félagsskapurinn og samheldinn hópur.
Höldum gildum GKG á lofti.
Jafnrétti-Ábyrgð-Gæði-Kraftur-Gleði.
JÁ-GKG!