Nú líður að Jónsmessu og því ekki seinna vænna en að huga að skráningu í hið frábæra Jónsmessumót GKG.
Mótið fer fram 21. júní næstkomandi og er ræst út af öllum teigum á Mýrinni klukkan 18:00. Leikfyrirkomulag verður hið víðfræga VífilsstaðaScramble, (fjögurra manna Scramble – samanlagðar leikforgjafir deilt með 10). Að fornum sið fá menn kverkarnar vættar í teiggjöf, svona til að mýkja menn upp fyrir hringinn. Guðmundur vallarstjóri lofar flottu móti, enda hefur hann verið að undirbúa holustaðsetningarnar síðan í febrúar. Kylfingar mega búast við óvæntum uppákomum, brjálaðri stemmingu og miklu fjöri. Skilyrði fyrir þátttöku er að vera eldri en 18 ára og vera í góðu skapi!
Að leik loknum ætla vertarnir að slá upp alvöru grillveislu fyrir okkur og verður hún innifalin í mótsgjaldi, sem er litlar 2.500 krónur. Veitt verða ýmis verðlaun og er engu lofað um hvort það fari eftir árangri kylfinga eða ekki. Sigurður Hlöðversson velur best klædda kylfinginn og þykir mikill heiður að hljóta þau verðlaun.
Skráning í stuðmót ársins fer fram á golf.is eða í golfskála.