Karlasveit meistaraflokks karla í GKG gerði sér lítið fyrir og var valið lið ársins bæði í Kópavogi og Garðabæ á íþróttahátíðum bæjarfélagana.

Sveitin afrekaði það á árinu að sigra í sjötta sinn á Íslandsmóti golfklúbba og lenti síðan í 2. sæti af 25 liðum á Evrópumóti klúbbliða í Frakklandi í haust, sem jafnaði besta árangur íslensks liðs frá upphafi.

Liðsmenn sveitarinnar voru: Aron Snær Júlíusson; Birgir Leifur Hafþórsson, Hlynur Bergsson, Jón Gunnarsson, Kristófer Orri Þórðarson, Ólafur Björn Loftsson, Ragnar Már Garðarsson, Sigurður Arnar Garðarsson. Þjálfari: Arnar Már Ólafsson. Stór hluti sveitarinnar var erlendis þegar hátíðirnar fóru fram. Þetta er í annað sinn sem GKG fær þessa viðurkenningu í Kópavogi (2017) en í fyrsta sinn hjá Garðabæ.

Þau Hulda Clara Gestsdóttir og Aron Snær Júlíusson voru tilnefnd til íþróttakonu og íþróttakarls bæjarfélaganna. Í Garðabæ hrepptu hnossið Hilmar Snær Örvarsson, skíðakappi og snjall kylfingur einnig úr GKG, og Kolbrún Þöll Þorradóttir fimleikakona. Í Kópavogi voru það Valgarð Reinharðsson fimleikamaður og Berglind Björg Þorvaldsdóttir knattspyrnukona sem hlutu þetta sæmdarheiti fyrir árið 2019.

Hægt er skoða fréttir um hátíðirnar á eftirfarandi slóðum:
Íþróttahátíð Kópavogs
Íþróttahátíð Garðabæjar – íþróttakarl og -kona ársins
Íþróttahátíð Garðabæjar – þjálfarar og lið ársins
Íþróttahátíð Garðabæjar – viðurkenningar fyrir framlag til íþrótta- og æskulýðsstarfs

Við óskum öllum innilega til hamingju með tilnefningarnar og viðurkenningar.

Lið ársins í Garðabæ: Birgir Leifur, Arnar Már þjálfari, Jón og Aron Snær

Lið ársins í Kópavogi: Birgir Leifur, Jón, Aron Snær, Arnar Már þjálfari og Úlfar íþróttastjóri

Íþróttakona og íþróttakarl Garðabæjar: Kolbrún Þöll og Hilmar Snær

Ármann Kr. bæjarstjóri, Valgarð íþróttakarl Kópavogs, Berglind Björg íþróttakona Kópavogs, Jón Finnbogason formaður ÍTK

Tilnefningar til íþróttakarls Garðabæjar: Ægir Þór Steinarsson, körfuknattleiksmaður í Stjörnunni, Aron Snær Júlíusson, golfari hjá GKG Árni Rúnar Baldursson, lyftingamaður hjá Stjörnunni Hilmar Snær Örvarsson, skíðamaður, íþróttir fatlaðra

Tilnefningar íþróttakona Garðabæjar: Birna Aradóttir, lyftingakona í Stjörnunni; Kolbrún Þöll Þorradóttir, fimleikakona í Stjörnunni; Þórhildur Gunnarsdóttir, handknattleikskona í Stjörnunni; Hulda Clara Gestsdóttir, golfari í GKG (Anna Júlía tók við viðurkenningunni fyrir Huldu)