Nú þegar keppnistímabilið er að hefjast og framundan skemmtilegt golfsumar á vellinum þá viljum við benda á hinar ýmsu leiðir sem börn og unglingar í GKG hafa þegar kemur að spili á vellinum og keppnum. Mikilvægt er að allir finni sér vettvang við hæfi og nái að þróa sinn áhuga og árangur á jákvæðan máta.

Varðandi yngstu krakkana, sem eru að stíga sín fyrstu skref og eru e.t.v. ekki tilbúin að fara og spila Mýrina, þá bendum við á æfingavellina sem eru á grassvæðinu við Vífilsstaðaveginn (stærri holur), og vestan við Vetrarbrautina. Þetta eru stuttar brautir sem að henta vel til að leika sér á og læra grunnatriðin. Á Mýrinni verða fremri teigar sem staðsettir eru á brautunum (gullteigar) og mælum við með því að þar sé leikið til að byrja með og síðan metið hvort leikið verði á rauðum teigum. Vallarmat er af gullteigunum, og því hægt að spila til forgjafar af þeim. Á föstudögum í sumar verða sérstakar spilæfingar þar sem krakkarnir eru hvattir til að skrá sig á Mýrina og spila saman eða taka hringi á stuttu æfingavöllunum.

Varðandi keppnir þá er mikilvægt að finna leiðir sem hæfa hverjum og einum. Eftirfarandi útlistun sýnir það sem er í boði og ættu allir að finna mót við hæfi:

Mix mótaröð GKG barna og unglinga

020 (Small)

Þátttökurétt hafa allir félagsmenn GKG sem eru 16 ára eða yngri (fæddir 1999 eða síðar) og hafa enga eða hámarksforgjöf (36 hjá piltum og 40 hjá stúlkum). Athugið að þau sem hafa þegar lækkað forgjöf sína hafa ekki þátttökurétt á þessum mótum en er bent á Egils Kristals mótaröð GKG. Um er að ræða 9 holu mót og fá byrjendur sína vallarforgjöf. Samkvæmt reglum EGA fá drengir með 36 í grunnforgjöf því vallarforgjöf 24 á Mýrina af Gullteigum (12 m.við 9 holur) en stúlkur fá 40 í grunnforgjöf og 33 í vallarforgjöf (17 m.við 9 holur). Ef 19 punktar nást eða meira á 9 holum lækkar forgjöfin um 0,5 per punkt umfram 18. Barnamótaröðin hefur verið mjög vinsæl undanfarin ár og hafa um 40-60 keppendur verið í hverju móti. Forráðamaður fylgir hverju barni og er höfuðáhersla á að krakkarnir fái jákvæða reynslu af því að spila saman. Þátttaka er ókeypis og lýkur skráningu tveimur dögum fyrir mótsdag. Allir sem taka þátt fá 3 æfingafötur í teiggjöf og Mix gosflösku. Nánari upplýsingar er að finna hér. Skráning fer fram á golf.is

Mótsdagar eru eftirfarandi:

11. júní – 25. júní – 9. júlí – 30. júlí – 13. ágúst

Egils Kristals mótaröð GKG

Kristals mótaröð GKG er nú haldin í áttunda sinn. Þetta er flokkaskipt punktamót með fullri forgjöf og er hugsuð jafnt fyrir reyndari kylfinga sem og óreyndari. Þó er mælst til þess að þau sem taki þátt séu byrjuð að lækka forgjöfina og séu vön að leika völlinn, en leiknar eru 18 holur á Leirdalsvelli. Keppt er í flokkum 14 ára og yngri, 15-18 ára, pilta og stúlkna. Einnig er leikið í Meistaraflokkum karla og kvenna. Skráningu lýkur tveimur dögum fyrir mótsdag og kostar kr. 800 í hvert mót. Allir sem taka þátt fá 3 æfingafötur í teiggjöf og Egils Kristal. Sjá nánari upplýsingar og skráningarform hér.

Mótsdagar eru eftirfarandi:

10. júní – 24. júní – 8.júlí – 15. júlí – 29. júlí – 12.ágúst

Niðjamót GKG

Haldið 27. júní og er til styrktar barna- og unglingastarfi GKG.

Meistaramót GKG

Barna- og unglingaflokkar leika 28.-30. júní

Mótaraðir GSÍ

Til að þróa keppnisþátttökuna enn frekar og kynnast því að spila fleiri velli og kynnast krökkum úr öðrum klúbbum þá hvetjum við til þátttöku í Áskorendamótaröð Íslandsbanka. Fyrir forgjafarlægri kylfinga, og þau sem eru orðin vön að keppa þá mælum við með Íslandsbankamótaröð unglinga. Forgjafarlægstu í hverjum flokki fá þátttökurétt.

Áskorendamótaröð Íslandsbanka

Höggleikur í unglingaflokkum. Þeir keppendur sem ekki nægilega lága forgjöf til að komast inn á Íslandsbankamótaröð unglinga eiga möguleika á þvi að taka þátt í 18 holu móti sem haldið verður á laugardögum á sama tíma og Íslandsbankamótaröðin fer fram. Skráningu lýkur miðvikudagskvöld fyrir hvert mót.

Mótin fara fram í sumar á eftirfarandi dögum og völlum:

23.maí Áskorendamótaröð Íslandsbanka (1) Kálfatjarnarvöllur á Vatnsleysuströnd
6.jún Áskorendamótaröð Íslandsbanka (2) Svarfhólsvöllur á Selfossi
20.jún Áskorendamótaröð Íslandsbanka (3) Kirkjubólsvöllur í Sandgerði
18-19.7 Áskorendamótaröð Íslandsbanka (4) Bakkakotsvöllur
22.ágú Áskorendamótaröð Íslandsbanka (5) Glanni í Borgarfirði
5.sep Áskorendamótaröð Íslandsbanka (6) Nesklúbburinn

Allir sem taka þátt fá 3 æfingafötur í teiggjöf á æfingasvæði GKG (á ekki við um kylfinga í keppnis/afrekshópum GKG).

Íslandsbankamótaröð unglinga

saeros_gunnh_thorlakshofn

Þátttökurréttur: Hámark 144 keppendur geta tekið þátt í Íslandsbankamótaröð unglinga sem skiptist niður í þrjá aldursflokka. Í hverjum aldursflokki verða hámark 48 keppendur þar af verða 36 strákar og 12 stelpur. Ef fjöldi skráðra keppenda fer yfir hámark í hverjum flokki ræður forgjöf því hverjir komast inn í hvern flokk fyrir sig. Þ.e.a.s 36 forgjafar lægstu strákarnir og 12 forgjafar lægstu stelpurnar í þeim flokki komast í mótið. Standi val á milli keppenda með jafnháa forgjöf skal hlutkesti ráða.

Mótin fara fram í sumar á eftirfarandi dögum og völlum:

23-24.5 Íslandsbankamótaröðin (1) Garðavöllur á Akranesi
5.7.6 Íslandsbankamótaröðin (2) Íslandsmót í holukeppni Strandarvöllur á Hellu
20-21.6 Íslandsbankamótaröðin (3) Húsatóftavöllur í Grindavík
17-19.7 Íslandsbankamótaröðin (4) Íslandsmót í höggleik Korpúlfsstaðavöllur
22-23.8 Íslandsbankamótaröðin (5) Hamarsvöllur í Borgarnesi
5.9 Íslandsbankamótaröðin (6) Hvaleyrarvöllur

Nánari upplýsingar um mótaraðir GSÍ (t.d. mótsgjald, keppnisskilmála og reglur um kylfubera) er að finna á golf.is undir Mótaskrá/Unglingamót. Allir sem taka þátt fá 3 æfingafötur í teiggjöf á æfingasvæði GKG (á ekki við um kylfinga í keppnis/afrekshópum GKG).

Önnur mót:

GKG sendir sveitir í Sveitakeppnir unglinga, og velja þjálfarar liðin u.þ.b. viku fyrir mót.

Sveit_GKG_pilta_2012 (Small)

Dagssetningar eru eftirfarandi:

14-16. ágúst Sveitakeppni drengja 15 ára og yngri Strandarvöllur á Hellu
14-16. ágúst Sveitakeppni pilta 18 ára og yngri Jaðarsvöllur á Akureyri
14-16. ágúst Sveitakeppni stúlkna 15 ára og 18 ára og yngri Selsvöllur á Flúðum

Stefna GKG er að eiga breiðan hóp kylfinga í mótaröðum GSÍ og kylfinga í fremstu röð.

Framtíðin er björt hjá GKG.

Áfram GKG!