GKG býður upp á stærstu innanhús golfhermaaðstöðu í heiminum, og því var tilvalið að næsta skref í þessari vegferð yrði að bæta Leirdalsvelli við þá flóru golfvalla sem eru í boði í golfhermaforriti Trackman Virtual Golf2.
Áætlað er að Leirdalsvöllurinn verði tilbúinn til leiks í kringum áramótin, og þá geta kylfingar víðs vegar um heiminn kynnst og leikið heimavöllinn okkar í Trackman golfhermum.
Viðamikið ferli er við undirbúning og vinnslu þegar golfvelli er bætt í Trackman herminn, en það fyrsta sem þarf að gera er að kortleggja svæðið. Það er gert með þrívíddar drónamyndatökum sem ná yfir allt vallarsvæðið. Þessi kortlagning veitir nákvæm gögn um hæðamun, glompur, vötn, flatir og allt jarðfræðilegt sem snertir golfvöllinn og umhverfi hans.
Myndin sýnir dæmi um gögnin sem unnið er með
Næsta skref er alhliða ljósmyndataka sem unnin er handvirkt. Myndir eru teknar af öllum einkennum golfvallarins en það þýðir að við getum staðsett allar hindranir á vellinum nokkuð nákvæmlega. Þetta er einn af þeim hlekkjum sem gerir Trackman hugbúnaðinn nákvæmari og betri.
Lokaskrefið er forritunin svo völlurinn verði aðgengilegur kylfingum til að njóta. Hjá Trackman starfar fjölmennur hópur forritara þar sem þeirra aðalverkefni er að útbúa þrívíddar líkön af golfvöllum. Það tekur um 5-6 vikur að forrita og útbúa golfvöll eins og okkar.
Nýlega var tekin í gagnið ný uppfærsla af Trackman Virtual Golf golfhermahugbúnaðinum (Trackman Virtual Golf2). Höfuðáhersla var lögð á að gera grafíkina enn raunverulegri, auk annara áhugaverðra nýjunga sem gera leikinn skemmtilegri fyrir kylfinginn. Sem dæmi eru fjarlægðir að skotmarki skýrari og tölulegar upplýsingar líflegri þegar högg er slegið.
Í nýlegri úttekt sem golfblað norska golfsambandsins (norskgolf.no) gerði, kom Trackman Virtual Golf best út meðal fjölda annara golfhermahugbúnaða sem prófaðir voru. Niðurstöðurnar voru að Trackman golfhermirinn komist næst því að „vera úti og spila“.
Þannig að nú má okkur byrja að hlakka til að geta leikið völlinn okkar í janúar og æfa höggin á brautunum sem hafa valdið okkur mestu vandræðunum á sumrin.
Myndirnar fyrir neðan sýna grafíkina í nýju uppfærslunni. Eins og sést þá er þetta mjög raunverulegt, líkt og um ljósmynd sé að ræða.