Meistaramót GKG hófst í morgun þegar fyrsta holl var ræst út kl. 7:30. Það voru höfðingjar í flokki 65 ára og eldri, þeir Kristján Hilmarsson og Þórður Björnsson sem leiða hjörðina sem kemur á eftir, en seinasta holl fer út kl. 18:40.

Á myndinni fyrir ofan sjást Bergsveinn Þórarinsson dómari, Þórður, Kristján og Ragnar Hilmarsson ræsir. 

Frábær þátttaka er í mótinu, alls 449 keppendur sem eru skráðir til leiks. Einungis í fyrra voru fleiri skráðir, 466.

Hægt er að sjá allar upplýsingar um mótið hér.

Kylfingar munu leika af lífi og sál næstu sjö daga en í lokin verða klúbbmeistarar GKG krýndir. Ljóst er að nýr klúbbmeistari verður krýndur í kvennaflokki þar sem sigurvegarar seinustu nokkurra ára eru að keppa með íslenska landsliðinu á EM. Hart verður barist meðal þeirra 10 ungu og efnilegu stúkna sem skráðar eru til leiks.

Í karlaflokki eru atvinnumennirnir Aron Snær Júlíusson og Sigurður Arnar Garðarsson sigurstranglegastir. Sigurður á titil að verja. 

Við óskum öllum keppendum góðs gengis og umfram allt góðrar skemmtunar!

 

Kristján lét vaða í fyrsta teighöggi mótsins

Þórður sett´ann á miðja braut