Meistaramót GKG hófst núna í morgunsárið í blíðskapaveðri með því að formaður klúbbsins, Guðmundur Oddsson sló fyrsta högg mótsins. Með formanninum í holli var Hreinn Ómar Arason, en þeir spila báðir í öldungaflokki 70 ára og eldri. Þegar keppendur hófu leik þá báru menn saman bolta og sýndi formaðurinn með stolti 20 ára afmælisbolta GKG. Hreinn náði þó að toppa formanninn en boltinn hans var merktur „Ómar afi: 70 ára – Stórgolfari“. Segir margt um það hvað klúbburinn okkur er ungur og um leið hve mikið verk hefur verið unnið undanfarin ár í uppbyggingastarfi.

Um 300 manns eru skráðir í meistaramótið í 19 mismunandi flokkum. Meistaraflokkur karla hefur aldrei verið sterkari en í honum eru 22 skráðir keppendur. Flest allir afrekskylfingarnir okkar taka þátt auk atvinnumannanna, Birgis Leifs Hafþórssonar og Ólafs B. Loftsonar.

Spennandi keppni framundan í öllum flokkum, sannkölluð hátíð sem stendur út vikuna og endar með lokahófi á laugardagskvöldinu.