Þau Trausti Víglundsson og hjónin Íris Ágústsdóttir og Ægir Friðriksson munu taka við sem vertar hjá GKG. Stefna þau á að hefja veitingaþjónustuna um það leiti sem vellir opna eða um mánaðarmótin.

Trausti er gamalreyndur úr golfheiminum, var meðal annars vert hjá Nesklúbbnum, Oddi og GR. Hann hefur séð um veitingareksturinn hjá Hótel Sögu, í 11 ár sá hann um veitingareksturinn hjá Hótel Loftleiðum og undanfarin 5 ár hefur hann verið fagstjóri hjá Icelandair Hotels Group og séð um kennslu á öllum 20 hótelum keðjunnar. Trausti hefur jafnframt verið prófdómari við Hótel- og matvælaskólann og séð um fræðslustörf fyrir Samtök ferðaþjónustunnar og Matvís.

Þau Íris og Ægir hafa rekið saman kaffihúsið Garðskálann í Gerðasafni. Íris er 33 ára innanhúshönnuður en hún lærði hönnun við IED hönnunarskólann í Barcelona, hannaði hún meðal annars Garðskálann. Ægir er 33 ára matreiðslumaður en hann lærði á Hótel Sögu. Á árunum 2005 til 2006 var hann á Skólabrú en var ráðinn aftur á Grillið á Sögu sem aðstoðar yfirkokkur. Ægir vann í nokkur á Restaurante ME í Barcelona. Þá var hann ráðinn sem yfirkokkur á Hótel Reykjavík Natura og Satt og vann þar á árunum 2011 til 2014. Þá hefur Ægir tekið þátt í mörgum matreiðslukeppnum, bæði innanlands sem erlendis með góðum árangri.

Við hjá GKG óskum þeim Trausta, Írisi og Ægi innilega til hamingju og við hlökkum virkilega til samstarfsins. Eins og að framan greinir, þá munu þau hefja störf á næstu vikum og mun veitingastaðurinn vera rekinn undir nafninu Mulligan.

Mulligan