Ólafur Loftsson hefur ákveðið að ganga til liðs við okkur GKG-inga. Þessa ákvörðun tók hann eftir vel ígrundaða umhugsun. Í yfirlýsingu sem Ólafur sendi frá sér á þessum tímamótum segist hann hafa spilað allan sinn feril fyrir hönd Nesklúbbsins og eigi óteljandi minningar af Nesvellinum. Tekur hann skýrt fram að hann hafi tekið þessa ákvörðun í góðri vinsemd við sinn gamla klúbb og hann mun hann halda áfram að vera í góðu sambandi við þá í Nesklúbbnum. „Ég ber sterkar tilfinningar til Nesklúbbsins og vil ég koma á framfæri sérstökum þökkum til klúbbsins og allra þeirra fjölmörgu félagsmanna sem hafa ávallt stutt afar vel við bakið á mér og hjálpað mér að ná mínum markmiðum.“

Ólafur segir þetta vera rétta tímann til að prófa eitthvað nýtt, breyta um umhverfi og takast á við nýjar áskoranir. „Það er mjög heillandi að taka þátt í því öfluga starfi sem fer fram í GKG. Afreksstefna þeirra er mjög metnaðarfull sem á mikla samleið með mínum háleitu markmiðum og er ég sannfærður um að ég eigi eftir að njóta góðs af þeirra starfi. Þar að auki tel ég að ég geti látið gott af mér leiða fyrir klúbbinn og miðlað til þeirra af minni reynslu.“

Við hjá GKG hlökkum til samstarfsins við Ólaf, hann mun án efa styrkja okkur verulega sem meðlimur í afrekshóp GKG sem og við það að miðla af sinni reynslu til afrekshópsins sem og þeirra fjölmörgu barna og unglinga sem iðka íþróttina hjá GKG.

Næsta verkefni Ólafs er að hann mun halds til Danmerkur í lok apríl þegar keppni hefst á ný á Nordic League mótaröðinni.