Þriðjudagskvöldið 29. apríl kl. 20:00 heldur mótanefnd GKG púttmót ársins í inniaðstöðu GKG í Kórnum. Mótið er fyrir þá sem tilbúnir eru að taka þátt í sjálfboðaliðsstarfi á íslandsmótinu í golfi sem haldið verður á Leirdalsvellinum í ár og er því þátttaka ókeypis. Við hitum upp fyrir sumarið sem er handan hornsins ásamt því að mótið er upphafið að þeirri stemningu sem við ætlum að skapa meðal sjálfboðaliða Íslandsmótsins .

Spilaðar verða 18 holur og verður ræst út milli kl. 20:00 og 20:45. Verðlaunin verða glæsileg eða:

  1. Rangefinder fjarlægðakíkir
  2. ECCO golfskór
  3. Nike bolur merktur GKG

Skorið verður úr jöfnum skorum í púttmótinu með bráðabana þannig að sá sem er næstur holu vinnur bráðabanann.  Ef tveir eða fleiri verða jafn nálægt holu í bráðabananum fara þeir í nýjan bráðabana þar til úrslit fást.

Gert er ráð fyrir að mótinu ljúki í kringum 21:30 og verður þá dregið úr skorkortum.

Afrekshópur GKG mun setja upp vippþrautir, leysi einstaklingur þrautina, fær hann í verðlaun token í boltavélina á æfingasvæði GKG. Þá mun afrekshópurinn gefa þátttakendum möguleika á að slá tvö högg á par 3 holu í golfhermi, sá einstaklingur sem er næst holu fær klukkutíma ókeypis kennslu í golfherminum hjá einum af PGA kennurum GKG.

Nú er komið að okkur GKG ingum að halda stærsta golfviðburð hvers sumars. Án sjálfboðaliða er slíkt ógjörningur. Takið því þátt í stemningunni með okkur og byrjum á að fjölmenna í púttmótið.