Þetta er mikill gleðidagur hjá okkur öllum í GKG. Já raunar má segja að þetta sé mikill hamingjudagur fyrir alla íbúa Kópavogs og Garðabæjar, nú þegar við opnum glæsilegustu íþróttamiðstöð landsins. Þetta glæsilega hús hefur ekki dottið af himnum ofan, heldur er það afrakstur margra og mikillar vinnu. Í dag er ég svo glaður að það hvarflar ekki að mér að fara að rekja í mörgum orðum einhverja langa sögu um hvernig hlutirnir hafa fengið fyrir sig í undirbúningi þess að við erum nú að opna þetta glæsilega hús.
Nú er hins vegar tími til að þakka fyrir sig og það er vissulega mörgum að þakka.

Í fyrsta lagi vil ég þakka fyrir landið sem við höfum undir vellina okkar, það eru um 65 ha, sem við höfum afnot af frá ríkinu og Kópavogsbæ. Við þurfum jú land undir okkar starfsemi.
Til að hægt sé að byggja svona glæsilegt hús þarf fjármagn og það mikið af því. Kostnaðaáætlun þessarra framkvæmda var upp á 660 milljónir, sem skiptist jafnt  milli Kópavogs, Garðabæjar og GKG. Án aðkomu sveitarfélaganna Kópavogs og Garðabæjar hefði þessi bygging aldrei risið. Ég vil því þakka báðum bæjarstjórunum, bæjarstjórnunum og starfsfólki þeirra kærlega fyrir þeirra  aðkomu að þessarri byggingu. Það sem einnig er gleðilegt í þessu er að kostnaðaráætlunin hefur staðist fullkomlega.

Nauðsynlegt er að hafa land og peninga til að byggja hús, en hvernig hús? Þar kemur að arkitektinum og hann leyndist innan golfklúbbsins okkar. Svarfdælingurinn Helgi Már Halldórsson teiknaði þetta hús. Hann lagði mjög mikla vinnu í undirbúninginn, fór vítt um til að skoða og fá hugmyndir um hvernig húsið ætti að vera og ekki síður hvernig það mætti sem best þjóna starfsemi GKG. Ég vona að þið séuð mér sammála þegar ég segi, að Helgi Már sé að skila okkur glæsilegu húsi, sem er honum til mikils sóma. Takk fyrir þitt mikla verk,Helgi Már.
En það þarf að hyggja að fleiru: Landark sá um að hanna lóðina og Mannvit sá um að hanna: Burðarþol,Lagnir,Raflagnir,Brunahönnun og Hljóðvist. Takk fyrir ykkar þætti.

Nú er búið að teikna og hanna og þá er komið að því að reisa húsið. Ég og Gunnlaugur Sigurðsson fyrrum formaður GKG tókum fyrstu skóflustunguna hinn 28. febrúar 2015, fyrir rúmum 13 mánuðum. Við fengum sem aðalverktaka fjölskyldufyrirtækið GG – verk í eigu feðganna Gunnars,Helga og Gunnars. Ég fullyrði að við hefðum ekki getað fengið betri verktaka. Þeir og þeirra fólk sýndu strax slíka fagmennsku og ekki síst snyrtimennsku, að unun var að fylgjast með framvindu verksins. Þeir fengu til liðs við sig hóp undirverktaka sem lögðu sig fram um að vinna sín verk af mikilli alúð. Það er með mikilli ánægju sem ég þakka öllum þessum snillingum fyrir þeirra frábæru störf. VSÓ ráðgjöf sá um eftirlit með byggingunni, en þar var þeirra maður Ómar Valur Maack frábær maður, sem var vakinn og sofinn yfir byggingunni. Ég hvet ykkur til að skoða húsið nú á eftir og skoða handverk þessarra meistara.
Ögurverk sá um lóðina og mér finnst Haukur Guðmundsson og hans fólk hafa skilað okkur afar góðu verki. GKG færir ykkur öllum bestu þakkir fyrir ykkar störf.

Við fengum neðri hæðina afhenta fyrir nokkru síðan og þá hófust félagar í GKG handa við að innrétta og setja upp tól og tæki. Sú vinna er nú langt komin og hafa 30 – 40 félagar okkar lagt á sig mikla vinnu við þetta. Það er mikil gæfa og um leið styrkur GKG að eiga slíka félaga, sem koma eftir langan vinnudag til að vinna fyrir klúbbinn sinn. Fremstir meðal jafningja úr okkar hópi eru þeir Sigurfinnur, Einar Gunnar, Siggi smiður, Toggi og Heimir. Guð laun fyrir ykkar framlag.

GKG hefur í gegnum tíðina haft gott og áhugasamt fólk í sínum röðum, fólk sem hefur haft metnað og mikinn vilja til að gera klúbbinn okkar sem öflugastan. Þetta á bæði við stjórn og starfsfólk. Fólk sem hefur verið vakið og sofið yfir velferð GKG og á þessari stundu segi bara við ykkur öll  – til hamingju með þetta glæsilega hús. Sá maður sem borið hefur hitann og þungan af þessari byggingu er framkvæmdastjórinn okkar Agnar Már Jónsson. Það var mikil gæfa fyrir okkur að fá hann til starfa. Hann er ekki einungis hörkuduglegur, útsjónarsamur og traustur því hann er um fram allt drengur góður. Ég vil á þessari stundu segja: Aggi minn takk fyrir allt okkar góða samstarf.
Jæja Finnur formaður, þá er komið að því að byggingarnefndin skili af sér þessu glæsilega húsi, og um leið og ég þakka meðnefndarmönnum mínum fyrir gott samstarf, óska ég GKG og golfíþróttinni allri til hamingju með þetta musteri.