Ragnar Már Garðarsson tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í flokki 17-18 ára, á Íslandsmóti unglinga í höggleik, sem lauk í Kiðjabergi í gær. Ragnar Már var í mikilli baráttu við Bjarka Pétursson úr GB, sem átti titil að verja í flokknum, en Ragnar hafði betur á lokasprettinum þegar hann fékk þrjá fugla í röð á 6., 7., og 8. braut vallarins, en þeir byrjuðu á 10. braut. Þegar upp var staðið var munurinn einungis eitt högg milli þeirra. Ragnar Már varð Íslandsmeistari í fyrra í flokki 15-16 ára, og er því á yngra ári í 17-18 ára flokknum, sem gerir árangur hans enn glæsilegri. Með sigrinum fær hann þátttökurétt á Duke of York mótið ásamt Guðrúnu Brá Björgvinsdóttur, sem sigraði í flokki 17-18 ára stúlkna.
Þátttaka GKG unglinga var mjög góð og komust færri að en vildu, en gríðarleg sprenging hefur orðið á þessu ári í þátttökufjölda á Arionbanka mótaröðinni. Nokkrir náðu mjög góðum árangri og komust á verðlaunapall. Emil Þór Ragnarsson varð í 3. sæti í flokki 17-18 ára; Egill Ragnar Gunnarsson og Aron Snær Júlíusson urðu í 3.-5. sæti í flokki 15-16 ára, en lutu í lægra haldi fyrir Erni Sigmundssyni úr GR eftir bráðabana. Loks varð Gunnhildur Kristjánsdóttir í 3. sæti í flokki 15-16 ára stúlkna. Þess má geta að Egill, Aron og Gunnhildur héldu til Ungverjalands ásamt Söru Margréti Hinriksdóttur úr GK til að keppa í European Young Masters, sem er mjög sterkt unglingamót, en meðal fyrrum sigurvegara þess móts er Spánverjinn Sergio Garcia.
Hér fyrir neðan má sjá helstu úrslit úr öllum flokkum, en árangur allra keppenda má sjá á golf.is.
Piltaflokkur, 17-18 ára:
1. Ragnar Már Garðarsson GKG, 74-71-79=224 +11
2. Bjarki Pétursson GB, 78-71-76=225 +12
3. Emil Þór Ragnarsson GKG, 75-78-79=232+19
Stúlknaflokkur, 17-18 ára:
1. Guðrún Brá Björgvinsdóttir GK, 69-76-84=229 +16
2. Anna Sólveig Snorradóttir GK, 73-75-84=232 +19
3. Guðrún Pétursdóttir GR, 73-76-84=233 +20
Telpnaflokkur, 15-16 ára:
1. Ragnhildur Kristinsdóttir GR, 77-78-79=234 +21
2. Sara Margrét Hinriksdóttir GK, 81-80-81=242 +29
3. Gunnhildur Kristjánsdóttir GKG, 88-78-83=249 +36
Drengjaflokkur 15-16 ára
1 Gísli Sveinbergsson GK, 73-71-76 = 220 +7
2 Birgir Björn Magnússon GK, 73-70-79 =222 +9
3 Ernir Sigmundsson GR, 78-76-74 = 228 +15
Stelpnaflokkur, 14 ára og yngri:
1. Saga Traustadóttir GR, 85-78-87=250 +37
2. Gerður Hrönn Ragnarsdóttir GR, 86-87-88=261 +48
3. Eva Karen Björnsdóttir GR, 84-85-93=262 +49
Strákaflokkur 14 ára og yngri
1. Henning Darri Þórðarson GK, 70-78 -76 = 224 +11
2. Fannar Ingi Steingrímsson GHG, 75-76-78 =229 +16
3. Helgi Snær Björgvinsson GK, 79-75-80 = 234 +21
Mynd: Valur Jónatansson