Haraldur Franklín Magnús GR og Ragnar Már Garðarsson GKG þurfa að eiga mjög góðan þriðja hring til að komast í gegnum 54 holu niðurskurð á Evrópumeistaramóti einstaklinga áhugamanna en annar hringurinn var leikinn á Duke’s vellinum í St. Andrews í dag.

Ragnar Már bætti sig frá því í gær þegar hann lék á  82 höggum, +11 en lék í dag á 4 yfir pari. Ragnar er í 128. sæti og það verður erfitt verkefni að komast í gegnum niðurskurðinn en Haraldur Franklín lék annan hringinn á 8 yfir pari, 79 höggum. Hann hrapaði niður listann og er í 110. sæti með nokkrum fleirum. Okkar menn þurfa mjög góðan hring á morgun til að eiga möguleika á að komast áfram.

Hertogavöllurinn er sérlega glæsilegur en þó lang flestir vellirnir í St. Andrews séu strandvellir er Duke’s skógarvöllur. Ragnar Már segir í samtali við kylfing.is að hann sé mjög erfiður en það má sjá á skorinu sem er frekar hátt í mótinu. Aðeins eru komnir ellefu hringir undir 70 höggum. Ragnar var þó mjög ánægur með hringinn í dag en segist þó hafa verið í nokkrum vandræðum í stutta spilinu og eins í púttum. Í fyrri hringnum lenti hann í miklum vandræðum á 10. braut þegar hann sló upphafshöggi sínu út fyrir vallarmörk, lenti aftur í vandræðum eftir næsta dræv og lenti í brautarglompu, þaðan í runna, þurfti að taka víti í glompunni og síðan högg á braut, í flatarglompu og pútt gerði samtals tíu högg.

Fjórir kylfingar eru efstir og jafnir á 4 undir pari en skor keppenda er hægt að sjá hér.

Heimild: www.kylfingur.is