Ragnar Már Garðarsson sigraði í gærkvöldi í Unglingaeinvíginu á Hlíðavelli í Mosfellsbæ. Ragnar hafði betur gegn Gísla Sveinbergssyni í einvígi á 9. holu eftir að þeir fengu báðir skolla á lokaholuna. Í einvíginu fóru þeir Ragnar og Gísli 60 metra frá holu og stæði sá uppi sem sigurvegari sem nær yrði holunni. Ragnar reyndist nær og fagnaði því góðum sigri.

Alls komust tíu kylfingar í úrslit í mótinu í þremur aldursflokkum. Bjarki Pétursson úr GB varð þriðji og Óðinn Þór Ríkharðsson úr GKG varð fjórði. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Keili, sem átti titil að verja, féll úr keppni á 4. holu eftir einvígi.

Mörg glæsileg tilþrif sáust hjá okkar ungu og efnilegu kylfingum, en sjónvarpsþáttur um mótið verður sýndur á Stöð 2 Sport innan skamms.

Lokaúrslit í Unglingaeinvíginu:
1. Ragnar Már Garðarsson GKG
2. Gísli Sveinbergsson Keili
3. Bjarki Pétursson GB
4. Óðinn Þór Ríkharðsson GKG
5. Geir Jóhann Geirsson GKj
6. Ísak Jasonarson Keili
7. Guðrún Brá Björgvinsdóttir Keili
8. Guðni Valur Guðnason GKj
9. Kristófer Orri Þórðarsson GKG
10. Gísli Þór Þórðarson GR

Heimild og mynd: Kylfingur.is