Landsliðsmaðurinn Ragnar Már Garðarsson er á fjórða ári sínu í Louisiana. Ragnar er einn af GKG afrekskylfingum í Bandaríkjunum, en hann stundar háskólanám við University of Louisiana – Lafayette á golf skólastyrk. Hér eru hans svör við nokkrum léttum spurningum.

Nafn: Ragnar Már Garðarsson
Fæddur: 1994
Meðlimur í GKG síðan 2005
Forgjöf í dag: +2,0
Skóli: University of Louisiana, Lafayette, Louisiana.
Heimasíða golfliðsins
Upplýsingar um mótaskrá og árangur golfliðs UL – Lafayette
Aðrir Íslendingar sem leika/hafa leikið með UL-Lafayette auk Ragnars: Úlfar Jónsson, Björn Knútsson, Þórður Emil Ólafsson, Ottó Sigurðsson, Örn Ævar Hjartarson, Haraldur Franklín Magnús.

Hvernig kom það til að þú fórst í þennan skóla?
Ég var fyrst í McNeese State háskólanum en ákvað að skipta um skóla útaf þjálfaranum þar. Ég heyrði flotta hluti um University of Louisiana og þjálfarann hérna þannig að ég ákvað að skoða hann. Síðan frétti ég að þjálfarinn hérna, Theo Sliman, hafði áhuga á mér. Þá tók ég ákvörðun um að skipta yfir í þennan skóla og ég sé ekki eftir því. Aron Snær er líka kominn hingað og það er mjög góð tilbreyting. Við búum saman núna og spilum oft upp á hver vaskar upp eða þrífur.

Færðu góðan skólastyrk?
Já ég fæ mjög góðan styrk.

Hvaða námi ertu í?
Ég er í stærðfræði.

Hvernig hefur gengið að aðlagast nýju umhverfi og menningu?
Ég er búinn að vera lengi hérna í Louisiana og er nokkurn veginn búinn að aðlagast, eða að einhverju leiti. Fyrst var það mjög skrýtið. Það var allt of heitt fyrst, maturinn er óhollur og mjög sterkur. Síðan er allt djúpsteikt í Louisiana. Það er jafnvel hægt að fá djúpsteiktan ís. Menningin er líka öðruvísi, fólkið er með sterkar skoðanir á ákveðnum hlutum og er mjög trúað. Annars er það mjög kurteist og vingjarnlegt.  

Hvað hefur komið mest á óvart?
Það sem kom mest á óvart var hitinn og rakinn. Að spila í 30-40 gráðu hita og næstum 100% raka getur tekið á þegar maður spilar og æfir mikið. Það var líka öðruvísi að þurfa að hugsa um allt. Finna tíma fyrir skólann, æfingarnar, þrífa fötin, hafa til kvöldmat ofl.

Eru góðar aðstæður til að æfa og spila?
Það eru mjög góðar aðstæður hérna. Við erum með nokkra velli en notum mest tvo velli sem eru mjög góðir. Annar er skógarvöllur en hinn opnari og er notaður á PGA Web.com mótaröðinni einu sinni á ári.  

Eru mörg og spennandi mót framundan?
Við vorum í mörgum góðum mótum á haustönninni á flottum völlum, m.a. á Hawaii sem var seinasta mótið okkar í haust. Við spiluðum líka tvo mjög erfiða velli sem var frábær reynsla. Annars erum við spenntir fyrir vorönninni þar sem verða fleiri og sterkari mót, ásamt mótinu okkar sem við höldum. Það verða sex mót eftir áramót.

Eitthvað að lokum?
Ég mæli eindregið með því að fara í háskólanám í Bandaríkjunum ásamt golfi. Þetta gefur mikil tækifæri að læra og æfa golf við góðar aðstæður allt árið. Frábært tækifæri til að verða betri í golfi og einnig til að læra á sjálfan sig. Ég hef lært meira en ég bjóst við síðustu þrjú árin. Þetta er einnig mikil lífsreynsla að vera hérna í Bandaríkjunum og standa á eigin fótum í stað þess að vera á „hótel mömmu“.

ragnar1

ragnar5

ragnar3

 

ragnar2