Sigmundur Einar Másson, afrekskylfingur GKG, lauk í gær sínu síðasta háskólamóti í Bandaríkjunum. Sigmundur, sem spilar fyrir McNeese State háskólann, hefur verið í miklu stuði að undanförnu og var þetta mót engin undantekning.
Sigmundur var í baráttunni alla þrjá hringina og hafði eins höggs forystu fyrir síðasta hringinn. Okkar maður byrjaði mótið þokkalega, spilaði á 74 höggum við mjög erfiðar aðstæður. Annar hringurinn var frábær hjá Sigmundi en hann skilaði sér inn á 69 höggum og var því í forystu fyrir síðasta hringinn. Í gær lék hann aftur öruggt golf og kom inn á 72 höggum eða pari vallar. Sigmundur endaði því samtals á einu höggi undir pari vallar og deildi fyrsta sætinu með Scott Kelly. Þeir fóru þá í bráðabana en þar hafði Scott betur á annari holu.
Sigmundur endaði því í öðru sæti á þessu sterkasta móti sem McNeese háskólinn tekur þátt í á ári hverju, en til marks um styrkleika mótsins má benda á að einn keppinauta Sigmundar, Casey Clendenon, var í topp fimm á sterkasta áhugamannamóti í heimi í fyrra og er hann einum 300 sætum ofar enn Sigmundur á heimslista áhugamanna. Því er greinilegt að Simmi er að komast í toppform og verður ansi spennandi að fylgjast með honum spila fyrir GKG í sumar og sömuleiðis næsta haust þegar hann reynir við atvinnumennsku í Bandaríkjunum.