Íslandsmeistarinn í höggleik og afrekskylfingur GKG, Sigmundur Einar Másson, kom gífurlega sterkur inn á fyrsta degi sínum í meistaramóti GKG. Simmi gerði sér lítið fyrir og sló vallarmetið á Leirdalsvellinum, spilaði á 6 undir pari og kom því inn á 65 höggum.
Sigmundur fékk fimm fugla, einn örn og einn skolla og er greinilega kominn í sitt besta form. „Ég sló mjög vel og hitti 15 grín, notaði 29 pútt og átti fá léleg högg. Er því bara mjög sáttur við hringinn og vonast til að næstu dagar gangi eins vel." – sagði Sigmundur í viðtali við gkg.is
Meistaraflokksmenn eru nú að tínast inn eftir fyrsta hring og virðist skorið ætla að vera mjög gott, enda gott veður og aðstæður allar hinar bestu til golfiðkunar. Eins og staðan er núna er Ottó Sigurðsson, atvinnukylfingur GKG, í öðru sæti á 69 höggum.