Keppnin um titilinn "Högglengsti kylfingur Íslands 2006" hófst á Vífilsstaðavelli um hádegið í dag með forkeppni. Sigurður Pétur Oddsson úr GR sló lengst í forkeppninni, 288 metra. Húnbogi Jóhannsson Andersen úr GA var með næst lengsta höggið, 284 metra. Þá kom Kristinn Árnason með 283 metra, Ottó Sigurðsson GKG með 280 metra og Jón Steindór Árnason úr GA með 276 metra. Þessir fimm komast áfram í undanúrslit sem hófust klukkan 16:00. Úrlsitin fara síðan fram klukkan 17:30.
Hver kylfingur fær að slá þrjá bolta af teig og er lengsta höggið mælt og verður það að vera á braut svo það teljist gilt í keppninni.
Það verða 12 í karlaflokki, fimm sem voru efstir í forkeppninni og 7 sem fengu boð um að mæta, og 10 í kvennaflokki sem etja kappi í undanúrslitum til að komast áfram í sjálfa úrslitakeppnina. Í úrslitum keppa síðan 5 högglengstu karlarnir og 5 högglengstu konurnar úr undanúrslitunum og keppa um titilinn "Högglengsti kylfingur Íslands 2006" bæði í karla og kvennaflokki.
Dagskrá:
16:00 – 17:00 Undanúrslit – 1. teigur á Vífilsstaðavelli
17:30 Úrslit – 1. teigur á Vífilsstaðavelli