Sigmundur Einar Másson, afrekskylfingur GKG, átti ágætismót um helgina þegar hann lék best allra í háskólaliði sínu, McNesse State Cowboys, á  UTSA Intercollegiate háskólamótinu. Reyndar gekk liðinu ekki sem best, endaði í 17. af 17 liðum, lék samtals á 931 höggi, 67 höggum á eftir efsta liði. Simmi var þó ljósi punkturinn hjá kúrekunum, spilaði hringina þrjá á samtals 225 höggum (79-72-74) og endaði í 39. sæti í einstaklingskeppninni.

Sigmundur er nú að ljúka sínu síðasta misseri við háskólann, en hann kemur heim í sumar og iðkar golfið undir merkjum GKG eins og hann hefur alltaf gert. Hann hefur síðan gefið út að hann ætli sér að reyna við atvinnumennskuna í haust. Eru því spennandi tímar framundan hjá Simma og verður gaman að fylgjast með honum í náinni framtíð.