Ljóst er að samkomubann sem tekur gildi aðfaranótt mánudags 16. mars hefur eftirfarandi áhrif á starfsemi okkar í GKG:
Sjaldnast eru fleiri en 30 samankomnir á inniæfingasvæði okkar í GKG. Við getum því skipulagt æfingar og námskeið þannig að iðkendur séu ekki nær hver öðrum en 2 metra fjarlægð þegar æfingar eru framkvæmdar. Það er undir okkur sjálfum komið að gæta þess að nálægð sé innan þeirra marka sem landlæknir mælir með.
Við ráðgerum því að halda áfram öllum almennum námskeiðum þó breyting verði á skipulagi og hvernig þjálfari leiðbeinir nemendum. Það er á ábyrgð hvers og eins að meta útfrá sinni stöðu og forsendum hvort mæti á námskeið, eða til almennra æfinga og leiks.
Bendum á að engin námskeið verða í Kórnum á mánudag þar sem hann verður lokaður vegna starfsdags íþróttadeilda HK.
Opnunartími Íþróttamiðstöðvar GKG (golfskálans okkar) helst óbreyttur og notkun inniæfingasvæðis og golfherma okkar þar og í Kórnum er óbreytt nema aðstæður breytist. Viljum við ítreka áður útgefnar leiðbeiningar varðandi hreinlæti, sjá hér.
Vegna æfinga barna/unglinga/afrekshópa næstu vikur munu þjálfarar og stjórnendur GKG taka stöðuna á mánudag og gefa út tilkynningu um miðjan dag.
Höfum orð Víðis Reynissonar úr framlínu almannavarna að leiðarljósi og látum ástandið ekki brjóta okkur heldur höldum áfram að lifa lífinu, höldum áfram að vera til og njóta lífsins.
Með bestu kveðjum,
starfsfólk GKG