Þessar vikurnar heldur GSÍ sínar árlegu sveitakeppnir milli aðildarklúbbanna. Keppt er í mörgum flokkum, karla- og kvennaflokkki, unglingaflokkum og öldungaflokki. Golfklúbbur Kópavogs og Garðabæjar hefur ekki látið sitt eftir liggja og sendir a.m.k. eina sveit til þátttöku í hverjum flokki.

 

Nú um síðastliðna helgi lauk keppni í 1. deild karla og kvenna en þar var okkar fólk í eldlínunni. Karlasveitin háði titilvörn sína á Garðavelli á Akranesi en tókst ekki að halda titlinum. Náðu þeir þó þriðja sæti eftir leik við GR og er vel hægt að sætta sig við þann árangur. Á meðan atti kvennasveitin kappi við stöllur sínar hér á heimavelli og enduðu í fjórða sæti eftir spennandi leik við Kjöl um þriðja sætið. Er árangurinn mjög góður og í raun sá besti síðan GKG sendi kvennasveit til keppni í fyrsta skipti. Því má óska karla- og kvennasveit GKG til hamingju með frammistöðuna.

 

Um næstu helgi hefja svo unglingarnir leik í tveimur flokkum, 17-18 ára og 16 ára og yngri. Sendir GKG fimm sveitir til keppni, tvær stelpusveitir og þrjár strákasveitir. Eldri flokkurinn spilar á Flúðum en sá yngri á Korpúlfsstaðavelli hjá GR. Bindur GKG miklar vonir við frammistöðu krakkana og hvetjum við alla til að mæta og hvetja krakkana til dáða. Áfram GKG!