Stjórn
Stjórn GKG er kjörin á aðalfundi klúbbsins. Hún hefur æðsta vald í málefnum hans milli aðalfunda.
Stjórn kemur fram fyrir hönd klúbbsins. Hún ræktar samband við klúbbfélaga og kynnir þeim mikilsverð mál er varða starfsemi klúbbsins.
Stjórn mótar stefnu klúbbsins, bæði almennt og í helstu málaflokkum. Hún setur starfseminni markmið. Hún samþykkir rekstrar- og fjárfestingaráætlun fyrir hvert starfsár og fylgist með framgangi þeirra. Hún skal hafa nægilegt eftirlit með bókhaldi og meðferð fjármuna klúbbsins. Hún samþykkir ársreikning fyrir hvert starfsár og gefur út ársrit.
Stjórn ákveður skipulag á starfsemi klúbbsins. Hún skipar allar nefndir sem starfa innan klúbbsins.
Stjórn ræður framkvæmdastjóra og ákveður ráðningarkjör hans.
Stjórn veitir prókúruumboð.
Framkvæmdastjóri
Framkvæmdastjóri GKG er ráðinn af stjórn klúbbsins og heyrir undir hana.
Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur klúbbsins. Í þeim efnum skal hann fara eftir þeirri stefnu sem stjórn mótar og þeim fyrirmælum sem hún gefur. Daglegur rekstur tekur ekki til ráðstafana sem eru óvenjulegar eða fela í sér verulegt frávik frá rekstrar- eða fjárfestingaráætlun. Slíkar ráðstafanir getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt sérstakri heimild frá stjórn nema ekki sé unnt að bíða ákvörðunar hennar án verulegs óhagræðis fyrir starfsemi klúbbsins. Í slíkum tilvikum skal framkvæmdastjóri tilkynna stjórn tafarlaust um ráðstöfnunina.
Framkvæmdastjóri skal sjá um að bókhald klúbbsins sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna klúbbsins sé með tryggilegum hætti.
Framkvæmdastjóri ber ábyrgð á öllum mannaráðningum klúbbsins. Hann skal þó hafa samráð við stjórn um ráðningu íþróttastjóra, vallarstjóra og þjónustustjóra.
Framkvæmdastjóri starfar með aga- og forgjafarnefnd klúbbsins.
Íþróttastjóri
Íþróttastjóri GKG er ráðinn af framkvæmdastjóra klúbbsins að höfðu samráði við stjórn. Íþróttastjóri heyrir undir framkvæmdastjóra.
Íþróttastjóri hefur yfirumsjón með faglegri hlið golfkennslu og golfþjálfunar. Hann veitir faglega ráðgjöf við þjálfun og uppbyggingu þjálfunar og kennslu. Hann á að vera félagslegur leiðtogi og stuðlar að tengslum stjórnar, þjálfara, kylfinga, ráða og nefnda innan klúbbsins. Auk þess skal hann stuðla að auknu upplýsingaflæði og samvinnu klúbbsins við foreldra og stofnanir eins og skóla og fyrirtæki. Íþróttastjóri fylgist með árangri iðkenda og vinnu þjálfara hverju sinni. Hann aðstoðar þjálfara við hvers konar skipulagningu á þjálfun og fylgist með útfærslu þeirra á markmiðum í golfnámskrá klúbbsins. Hann sér um að halda reglulega fundi með þjálfurum og að þeir vinni samkvæmt þeim kröfum sem klúbburinn og námsskrá setur hverju sinni. Íþróttastjóri sér um ráðningar lykilstarfsfólks á sviði íþróttamála í samráði við framkvæmdastjóra. Hann hefur umsjón með aðföngum, aðstoðar við skipulagningu móta og keppni og hefur faglega umsjón með golfskóla klúbbsins.
Íþróttastjóri annast reglulega endurskoðun á golfnámskrá klúbbsins, útbýr árlega áætlun um golfkennslu og golfþjálfun og annað íþróttastarfi í samráði við framkvæmdastjóra. Íþróttastjóri ber ábyrgð á samþykktri áætlun gagnvart framkvæmdastjóra. Loks útbýr íþróttastjóri árlega skýrslu um þjálfun og árangur kylfinga í klúbbnum.
Íþróttastjóri starfar með íþróttanefnd klúbbsins, kvennanefnd og öldunganefnd.
Vallarstjóri
Vallarstjóri GKG er ráðinn af framkvæmdastjóra klúbbsins að höfðu samráði við stjórn. Vallarstjóri heyrir undir framkvæmdastjóra.
Vallarstjóri hefur umsjón með umhirðu, viðhaldi og meiri háttar framkvæmdum á golfvöllum og öðru umráðasvæði klúbbsins sem og daglegu eftirliti á þessum stöðum. Hann aðstoðar framkvæmdastjóra við gerð verk- og framkvæmdaáætlana að höfðu samráði við vallarnefnd. Hann aðstoðar framkvæmdastjóra við ráðningu vallarstarfsfólks. Hann útbýr árlegar skýrslur um viðhald og framkvæmdir á golfvöllum og öðru umráðasvæði klúbbsins.
Vallarstjóri starfar með vallarnefnd klúbbsins.
Þjónustustjóri
Framkvæmdastjóri klúbbsins gegnir jafnframt starfi þjónustustjóra nema stjórn ákveði annað.
Þjónustustjóri ber ábyrgð á allri þjónustu gagnvart kylfingum í klúbbnum. Hann ber ábyrgð á innheimtu félagsgjalda, rekstri golfverslunar, vallargæslu, öllu mótahaldi, rekstri golfherma og öllum fyrirtækjasamningum. Þjónustustjóri ber jafnframt ábyrgð á rekstri vefsíðu og samfélagsmiðla klúbbsins og öllum markaðasmálum.
Árlega framkvæmir þjónustustjóri viðhorfskönnun meðal klúbbfélaga, kynnir hana fyrir stjórn og klúbbfélögum og vinnur með íþróttastjóra og vallarstjóra að greiningu niðurstaðna og skilgreiningu umbótaverkefna.
Þjónustustjóri starfar með kynningarnefnd klúbbsins, markaðs- og fjáröflunarnefnd, mótanefnd og skemmtinefnd.