Ungmennasamband Kjalarnesþings, UMSK er í forystu í sveitakeppninni á Landsmóti UMFÍ – en golfhluti mótsins fer fram á Vífilsstaðavelli. Í kvennaflokki er Íþróttabandalag Reykjavíkur reyndar jafnt UMSK og Héraðssambandið Skarphéðinn fylgir fast á hæla UMSK í karlaflokki.
UMSK er að þessu sinni eingöngu skipað kylfingum frá GKG og greinilegt er að heimamönnum líður vel á vellinum sínum. HSK-menn koma flestir frá Hellu og Selfossi en ÍBR samanstendur af kylfingum frá GR.
Fyrri umferðin fór fram í dag í roki en þó ekki rigningu og er von að viðri betur á kylfinga á morgun þegar seinni og lokaumferðin fer fram.