Undanfarin ár hafa afreks- og keppnishópar unglinga í GKG haldið til Spánar í æfingaferð til undirbúnings fyrir golfsumarið. Stór hópur kröftugra krakka úr GKG, alls 30 talsins tóku þátt í æfingaferðinni. Þessi hópur hefur aldrei verið stærri en nú, sem er virkilega jákvætt og sýnir að fjöldi unglinga úr GKG sem tekur þátt í mótaröðum GSÍ stækkar ört. Eitt af skilyrðum fyrir að komast í keppnis- eða afrekshóp er einmitt að taka þátt í mótaröðinni hjá GSÍ, önnur viðmið eru metnaður og ástundun og ákveðin hámarksforgjöf. Einnig voru með í för 14 foreldrar og tvö systkini.

Þjálfarar, auk undirritaðs voru: Hlynur Þór Haraldsson, Derrick Moore og Birgir Leifur Hafþórsson, allir PGA menntaðir.

Ferðin hófst aðfaranótt laugardags 17. mars, en flugvélin hóf sig á loft um kl. 02:30. Það voru því þreyttir ferðalangar sem mættu á Novo St. Petri um kl. 10 um morguninn. Sólin sem tók að móti fólkinu fyllti alla orku og var ekki nokkur leið að fá fólk til að hvíla sig, allir vildu ólmir komast á völlinn og æfa sig, enda langflestir ekki slegið á grasi í rúma 6 mánuði.

Grófa dagskrá ferðarinnar er hægt að sjá með því að smella hér. Einnig eru komnar yfir 200 myndir á myndasafnið á heimasíðu GKG.

Veðrið lék við okkur allan tímann, heiðskírt var og rúmlega 20 stiga hiti var. Nokkur gola var næst seinasta daginn, en ekkert meira en gengur og gerist á Íslandi. Það var einungis seinasta daginn sem veðrið truflaði eitthvað, en þá var allhvass vindur.

Í ferðum sem þessum eru ýmis markmið, s.s að njóta þess að leika golf við góðar aðstæður í góðum félagsskap, æfa markvisst, öðlast nýja reynslu og þekkingu, ná að setja í leik á golfvelli það sem búið er að æfa í vetur og loks að efla tengsl og vináttu meðal þátttakenda.

Við þjálfaranir erum sannfærðir um að þessum markmiðum var náð. Hópurinn var einstaklega samstilltur og vinátta myndaðist og efldist meðal þátttakenda. Þeir eldri gáfu af sér til þeirra yngri og þess var gætt að hafa sem mesta fjölbreytni í uppröðun holla hvern dag. Það er líka mjög gaman að geta þess að það var vel tekið eftir hópnum sem gat sér gott orð fyrir prúðmennsku á vellinum og í matsal hótelsins.

Seinustu tvo dagana var leikin „Ryder“ keppni þar sem unglingar búsettir í Garðabæ kepptu gegn þeim sem eru búsettir í Kópavogi og öðrum sveitafélögum. Leikin var holukeppni, en forgjöf keppenda var reiknuð inní leikinn. Fyrri daginn voru tveir og tveir saman í betri bolta en seinni daginn (seinasta dag ferðarinnar) var leikinn einliðaleikur. Keppnin var mjög skemmtileg og spennandi, en úrslit réðust í raun með seinasta púttinu, sem þýddi að Garðabæjarúrvalið fór með sigur af hólmi. Mikil stemmning myndaðist í kringum þessa tveggja daga keppni og er ljóst að hún er komin til að vera í næstu æfingaferðum. Hér má sjá úrslit leikjanna.

Við þjálfararnir viljum koma á framfæri miklu þakklæti til krakkanna sem tóku þátt í ferðinni, en þau stóðu sig einstaklega vel, fóru í öll verkefni með jákvæðni í fyrirrúmi og voru sér og sínum til sóma í alla staði. Það er óhætt að segja að framtíðin sé björt í GKG með jafn öflugan hóp ungra kylfinga innanborðs. Einnig viljum við þakka foreldrum og aðstandendum sem tóku þátt í ferðinni fyrir hjálpina og góða samveru.

Fyrir hönd þjálfara,

Úlfar Jónsson
Íþróttastjóri GKG