Meistaraflokkur karla og kvenna í GKG fór í vel heppnaða æfingaferð á Kiðjabergsvöllinn s.l. Hvítasunnuhelgi. Alls voru 20 kylfingar sem fóru austur, auk þjálfara. Gist var í sumarbústöðum við golfvöllinn og dagarnir vel nýttir til leiks og æfinga, en Íslandsmótið í höggleik fer fram á Kiðjabergsvellinum í sumar, og var þetta hugsað sem liður í undirbúningi fyrir stærsta mót sumarsins. Þátttakendur söfnuðu fyrir ferðinni í vetur með ýmsum hætti. Einnig styrktu Sild og fiskur, og Mjólkursamsalan með matarpökkum og fá þau fyrirtæki bestu þakkir fyrir.
Aðstæður voru allar hinar bestu á Kiðjabergi, völlurinn í frábæru ásigkomulagi og veðrið hið besta. Aðstandendur á Kiðjbergi fá þakkir fyrir góðan völl og góðar móttökur. Leiknar voru 18 holur laugardag, sunnudag og mánudag, en einnig æft eftir golfhringina með sérstakri áherslu á stutta spilið. Einnig var lögð töluverð áhersla á leikskipulag og huglæga þjálfun, enda er Kiðjabergsvöllurinn krefjandi og þurfa leikmenn að vera í góðu leikformi til að ná góðum árangri þar.
Meistaraflokkur GKG hefur æft vel í vetur og kemur vel undirbúinn til leiks fyrir fyrsta stigamótið í GSÍ mótaröðinni, sem fer fram í Vestmannaeyjum, og verður spennandi að fylgjast með okkar fólki þar.