Það var mikið líf og fjör í gær í Kringlunni en GKG var með stóran kynningarbás sem hluta af Golfveislu Kringlunnar og GSÍ.
GKG kynnti Trackman golfhermana og þá þjónustu sem klúbburinn býður upp á. Aðalatriðið þó var að kynna golfíþróttina á skemmtilegan hátt og var haldin nándarkeppni í herminum þegar Kringlugestir gátu spreytt sig á 7. holunni á Pebble Beach, sem er 90 metra löng. Afrekskylfingur GKG sló fyrst eitt högg og síðan fengu þátttakendur tvær tilraunir til að komast nær holu. Ef það tókst var gefnar 3 æfingafötur á æfingasvæði GKG. Að auki voru veitt vegleg verðlaun fyrir þann kylfing sem hafnaði næst holu af öllum þátttakendum.
Einnig var haldin keppni um lengsta teighöggið á 18. holunni á St. Andrews. Afrekskylfingar úr GKG sýndu styrk sinn og höfnuðu í þremur efstu sætunum í karlaflokki, en Alfreð Brynjar Kristinsson sló lengst, 296 metra. Í öðru sæti var Kristófer Orri Þórðarson með 292 metra, og Ragnar Már Garðarsson hafnaði í þriðja sæti með 287 metra teighögg. Í kvennaflokki sló Ragnhildur Kristinsdóttir lengst, 228 metra. Í öðru sæti var Hrafnhildur Guðjónsdóttir með 213 metra og í þriðja sæti var Særós Eva Óskarsdóttir með 183 metra.
Kringlan, GKG, Zo On og Ecco veittu glæsileg verðlaun. Nánari upplýsingar um vinningshafa í öllum þrautum er á www.kringlan.is og skal vitja vinninga til Kringlunnar.
Annað árið í röð var haldið Íslandsmót í því að halda bolta á lofti, undir skemmtilegri stjórn Sigga Hlö. Benedikt Sveinsson og Kristófer Orri Þórðarson kepptu til úrslita sem lauk með sigri Kristófers.
Sjá myndir frá Golfveislunni hér.