Ágæti GKG-ingur
Um helgina hefst nýtt golftímabil hjá okkur í GKG með opnun vallanna. Þeir virðast sem betur fer koma vel undan afar mildum vetri þrátt fyrir kalt vor.
Nú er rétt rúmlega eitt ár liðið frá því að Íþróttamiðstöð GKG var opnuð. Húsið hefur gerbreytt allri aðstöðu félagsins. Golfhermarnir eru svo sannarlega nýjung sem GKG-ingar kunna að meta. Aðsóknin að hermunum hefur aukist jafnt og þétt eftir því sem fleiri hafa kynnst tækjunum og hvernig má nýta þau til æfinga og leiks. Samstarfið við Vigni Hlöðversson veitingamann hefur gengið frábærlega og hefur hann lagt sitt af mörkum til að gæða húsið lífi.
Félagsstarf GKG hefur blómstrað í vetur. Boðið hefur verið upp á fjölbreytt úrval styttri og lengri námskeiða. Fyrirlestrar hafa verið haldnir. Þá hefur kvennanefnd GKG skipulagt fjölsótt námskeið og aðra atburði fyrir konur. Og síðast en ekki síst fór hópur GKG-inga í upphitunarferð á glæsilegan völl í Búlgaríu í apríl í samstarfi GKG og golfferðaskrifstofunnar Icegolf Travel.
Rekstur GKG gengur vel. Vitað var að gæta þyrfti töluverðs aðhalds fyrstu árin eftir byggingu íþróttamiðstöðvarinnar. Eftir það myndi róðurinn léttast. Með góðri nýtingu herma, útleigu á sal og fundarherbergjum og aukinni sölu í verslun hefur tekist að auka tekjur umfram það sem áætlanir gerðu ráð fyrir. Svigrúm sem myndaðist í fjármálum var nýtt til að kaupa nýja flatarsláttuvél í vor sem ætti að skila enn betri flötum og enn betri árangri okkar á völlunum í sumar.
Framundan eru örlagatímar í sögu GKG. Garðabær stefnir að því að nýtt aðalskipulag fyrir bæinn verði samþykkt fyrir árslok. Í drögum að því er gert ráð fyrir að tekið verði land af GKG í Vetrarmýrinni en að félagið fái land í staðinn í áttina að Vífilsstöðum/Vífilsstaðavatni. Garðabær skipaði nýverið nefnd um fjölnota íþróttahús í Vetrarmýri sem skila á tillögum í lok maí. Loks skal nefnt að Garðabær keypti Vífilsstaðalandið af ríkinu í apríl. Í kaupunum fylgir samningur GKG um langtímaleigu á landi fyrir golfvellina og annarri aðstöðu GKG. Garðabær hyggst á næstunni efna til samkeppni um rammaskipulag fyrir allt þetta land. Hér hefur GKG gríðarlegra hagsmuna að gæta. Markmið GKG verður að tryggja í samstarfi við bæjaryfirvöld að áfram eigi félagið tvo glæsilega golfvelli, níu og 18 holur, ásamt góðri æfingaaðstöðu og öllu tilheyrandui á besta stað á höfuðborgarsvæðinu. Við megum alls ekki líta á þetta sem ógn við félagið heldur sem kjörið tækifæri til að gera góða aðstöðu enn betri. Stjórn GKG mun leggja sig alla fram um að gæta hagsmuna félagsins og kalla eftir stuðningi ykkar allra ef á þarf að halda í samskiptum við bæjaryfirvöld.
Ég óska ykkur góðs gengis og góðrar skemmtunar í golfinu í sumar.
Finnur Sveinbjörnsson, formaður GKG