Í haust var gerð könnun meðal félagsmanna varðandi flatirnar á völlunum okkar og leitast var eftir því að finna út hvernig hvernig draumaflöt félagsmanna er. Niðurstöðurnar voru mismundi og fóru nokkuð eftir getu kylfinga. Þeir sem eru með lága forgjöf leggja mest upp úr því að boltinn haldi línu en þeir sem eru með hærri forgjöf leggja mest upp úr því að flatirnar haldi boltanum þegar slegið er inn á þær. Hraði flatanna er í þriðja sæti hjá báðum hópunum.
Í framhaldi af þessum niðurstöðum var farið í stefnumótunarvinnu sem miðar að því að koma flötunum okkar í fremstu röð. Úr varð skýrsla og aðgerðaráætlun sem unnið verður eftir á næstu árum. Skýrsluna í heild sinni er hægt að finna á heimasíðu GKG.
Einn af lykilþáttunum verkefnisins felst í því að GKG fjárfesti í úðabíl af fullkomnustu gerð. Með honum er hægt að stjórna áburðargjöf með allt öðrum hætti en hingað til. Notast verður við fljótandi áburð ásamt vatnsmiðlunar- og vaxtastjórnunarefnum. Áburðargjafir verða tíðari en minna magn notað í hvert skipti Að öðru leiti er aðgerðaráætlun GKG með eftirfarandi hætti:
- Nýr úðabíll er tölvustýrður og afar fullkominn. Með honum er hægt að stjórna áburðargjöf á flötunum með allt öðrum og skilvirkari hætti en hægt hefur verið hingað til. Notast verður við fljótandi áburð, áburðargjafirnar verða tíðari og minna magn áburðar notað í hvert skipti (Sjá mynd að neðan).
- Í seinni hluta júlí verða flatirnar tappagataðar, þær verða örgataðar (fíngötun) mánaðarlega en kylfingar verða lítið varir við það nema rétt á meðan hún á sér stað. Flatirnar eru vel spilhæfar á eftir. Sáð verður í þær samkvæmt viðhaldsdagatali (yfirsáningar og raðsáningar).
- Notast verður við vaxtarstjórnunarefni. Forsendan fyrir notkun á því efni er úðabíllinn sem keyptur verður. Vaxtarstjórnunarefnið hægir á vexti grass og minnkar líkur á því að það verði mishæðótt þegar liðið er frá slætti. Þá verður notast við vatnsmiðlunarefni til að jafna og viðhalda raka í flötunum.
- Áburðardagatal verður gert í framhaldi af niðurstöðum sýnatöku, þó verður tekið mið af veðurfari við áburðargjöf.
- Burstar verða settir framan á flatasláttuvélarnar sem ýfa upp grasvörðinn og tryggir að gras sem vex til hliðar sláist jafnt á við gras sem vex beint upp.
- Sláttudögum verður fækkað en flatirnar verða valtaðar í staðinn. Það þýðir minni streitu fyrir grasið og það þéttir sig meira.
- Söndun flatanna verður aukin. Kylfingar verða lítið varir við hana nema þegar unnið er að henni því slóði er dreginn yfir flötina strax eftir söndunina og við það hverfur megnið af sandinum niður í þæfislagið.
- Til að tryggja jafna mýkt flatanna verður fjárfest í rakamæli og mun öll vökvun taka mið af niðurstöðum rakamælinga.
Lykilþættir aðgerðaáætlunarinnar hafa eftirfarandi áhrif á markmið okkar:
Boltinn heldur línu: – Almennt er það þannig að heilbrigðari flatir halda betur línu. Liðir 1, 3, 5, 6 og 7 munu stuðla að því markmiði að boltinn haldi betur línu.
Flatirnar taki betur við: – Mýkri flatir taka betur við boltanum, sem og flatir sem eru með þéttari grasvöxt. Liðir 2, 3, 7 og 8 munu stuðla að meiri mýkt og þéttari grassverði og gera það að verkum að flatir GKG munu taka betur við boltanum.
Hraði á flötum: – Liður 6, slegið verður með tveimur sláttuvélum með tveimur sláttuhæðum. Mælingar verða örari og sláttuvélum raðað á flatir miðað við þær niðurstöður.