Miðvikudaginn 28.mars vöknuðum við með fiðring í maganum og ekki að ástæðulausu því aðeins voru fáeinir klukkutímar í brottför. Erna og Ingunn skelltu sér í skólann, en Jórunn tók sér frí og var heima að pakka. Ferðinni var heitið til Costa Ballena, eða Hvalaströndin, ásamt afreksunglingum GKG, fleiri fræknum GKG meðlimum og þjálfurunum tveimur, Úlfari Jónssyni og Derrick Moore.
Koma átti á flugvöllinn nákvæmlega 17:30 eða korteri á undan Keilismönnum. Það varð okkur þó ekki að happi þar sem fyrstu 16 settin sem voru innrituð voru skilin eftir og þeirra beið heimsreisa til hinna ýmsu staða, sumir segja meðal annars til Brasilíu.
Á Jerez flugvelli fengum við þá tilkynningu að 16 sett hefðu verið skilin eftir og öll í eigu GKG-inga. Þá tók við tími óvissu. Ýmis loforð gefin og svikin… Þau komu þó loks á laugardeginum. Í millitíðinni spiluðum við með hinum ýmsu settum, meðal annars bleiku RAM setti, og kíktum einnig á ströndina til að ná í grunnbrúnku.

Svo þegar settin komu loksins var tímanum ekki eytt í neitt annað en æfingar og spil, með misjöfnum árangri. Á mánudeginum fengum við að spila með stöllum okkar úr Keili. Daginn eftir var síðan ,,Ryder”-keppni milli Keilismanna og GKG-inga. Við fengum lánaðan liðsmann frá Keili, Auði ,,djúpuðgu”, sem spilaði með Jórunni í tvíliðaleik, fyrir hádegi. Fyrirkomulagið var þannig að tvíliðaleikur var spilaður fyrir hádegi en eftir hádegi einliðaleikur. Í lok dags voru úrslit kunngjörð og þá höfðu Keilismerðirnir rétt náð að vinna okkur. Þrátt fyrir það héldum við okkar striki og munum ekki gefa sama færi á okkur á vellinum í sumar.
Golfaðstaðan var gífurlega góð. Golfvöllurinn var 27 holur, 18 holu keppnisvöllur og 9 holur aðeins styttri. Þar að auki var mjög flottur 9 holu par 3 völlur, sem er mjög gott að spila tveir saman á kvöldin. Ef stefnan var að slá einungis gat maður æft sig á gífurlega stóru sláttusvæði (driving range), þar sem maður sló af grasi. Æfingasvæðið fyrir stutta spilið var einnig til fyrirmyndar, nema kannski plássleysi ef Svíar, Þjóðverjar og Íslendingar voru að æfa sig samtímis.
Við gistum á Hótel Barceló, fjögurra stjarna glæsihóteli. Við stelpurnar gistum saman í herbergi og bauðst hin auðmjúka Ingunn til þess að sofa á beddanum. Eina sem hægt var að setja best online casino út á herbergið er að klósetthurðin leyndi kannski of litlu, og mátti sjá ýmsar lausnir á því vandamáli hjá strákunum. Á sama hóteli gistu Keilismenn og Blikar sem voru einnig í æfingaferð. Því fórum við stelpurnar ósjaldan „styttri“ leið í gegnum byggingu fjögur eða Blikabygginguna.
Þegar öllu er á botninn hvolft var þetta mjög skemmtileg og árangursrík ferð, þrátt fyrir settleysi í byrjun. Þessi ferð gaf okkur mjög mikið og hristi okkur enn meira saman ef það var hægt. Við kynntumst einnig strákunum betur, annað en í fyrra þar sem lítið var um samskipti á milli kynjanna. En að lokum viljum við bara þakka öllum, þá sérstaklega þjálfurunum, fyrir samveruna og frábæra ferð. Vonandi munum við snúa aftur að ári og þá vonandi með settin frá fyrsta degi!

Svo viljum við þakka öllum pöbbunum sem voru með í ferðinni fyrir samveruna og vinnuna sem þeir lögðu í þessa ferð, þá helst Gunnari Jónssyni.☺

Afmælisdagur

Afmælisdagur í útlöndum byrjaði vel. Fyrstu afmæliskveðjuna fékk ég þegar aðeins nokkrar mínútur voru liðnar af 4.apríl. Um morguninn var ég síðan vakin með sannkölluðum lúxusmorgunverði. Erna og Ingunn höfðu þá snarað sér út án þess að vekja mig og farið niður í matsal. Þær fengu að útbúa morgunmat fyrir mig á bakka og þjónarnir bjuggu til kerti baka til. Þær vöktu mig síðan syngjandi með bakka.
Á meðan ég gæddi mér á morgunverðinum las Ingunn fyrir mig misjafnlega væmin afmælisljóð. Síðan tók við hin daglega rútína með æfingum og tilheyrandi úti á velli. Eftir því sem leið á daginn fékk ég fleiri afmæliskveðjur og gjafir frá hinum ýmsu mönnum. Eftir hringinn sendu Erna og Ingunn mig í burtu en ég ákvað að skella mér á cyber-café í grenndinni á meðan þær útbjuggu fyrir mig afmælisleik… Þegar ég kom til baka höfðu þær falið páskaegg og gjafir á random stöðum á hótelinu með hnyttnum vísbendingum sem ég átti að fylgja. Leikurinn var frábær og ein sú besta gjöf sem ég hef fengið (. Meðal annarra gjafa sem ég fékk voru ferðagolfpoki, golfsokkar, nutella súkkulaði með lyklakorti í (frá Guðjóni Henning og Hauki) sem ég henti reyndar óvart, sorrý strákar! Það var líka gaman að fá gjöfina frá Keilismönnunum sem var allskyns golfdót allt í bleiku, handklæði og fleira. Og ekki má gleyma namminu frá Guðjóni Inga. Afmælissöngurinn var líka sunginn fyrir mig þrisvar, um morguninn, í hádeginu og um kvöldið á lokafundinum.
Yfir heildina litið var dagurinn með þeim betri en ég hef aldrei verið neins staðar annars staðar en heima á þessum merka degi. Takk fyrir mig krakkar ;*…