Kæru félagar.
Liður í byggingu Íþróttamiðstöðvar GKG er að færa 18 flötina fjær fyrirhugaðri byggingu. Miklar jarðvegsbreytingar verða í kringum flötina þegar farið verður af stað með bygginguna og því nauðsynlegt að færa flötina.
Núverandi flöt hefur sigið mikið á undanförnum árum og er það tímaspursmál hvenær hallinn verður orðinn það mikill að ekki sé hægt að setja niður holu öðru vísi en hún sé í töluverðum halla, en samkvæmt leiðbeiningum USGA á ekki að staðsetja holu í halla og æskilegt er að flötin sé nánast slétt í tveggja feta radius í kringum holu.
Samhliða tilfærslu á 18. flötinni munum við slétta 18. brautina niður að brautarglompu (sjá mynd). Á sínum tíma fór frosinn jarðvegur í brautina á þessu svæði, í framhaldinu aflagaðist brautin og er mjög hæðótt í dag.
Það má því með sanni segja að við sláum þrjár flugur í einu höggi með þessum framkvæmdum.
Við fengum til liðs við okkur golfvallaarkitektinn Snorra Vilhjálmsson og hefur hann aðstoðað okkur við að hanna allt umhverfi 18. flatarinnar ásamt breytingum á 18. brautinni. Þá þarf að færa til stíga og rauða teiginn á 1. braut á Mýrinni.
Áætlað er að hefja framkvæmdir strax eftir helgi og því er það síðasti séns að spila upp á 18. flöt núna um helgina.
Á meðan framkvæmdir standa yfir munum við gera bráðabirgðaflöt við brautarglompuna og munum við nýta grasið af gömlu flötinni á þá flöt.
GKG kveðjur,
Stjórn og starfsfólk GKG