Á aðalfundi GKG sem haldinn var í Íþróttamiðstöð GKG þann 30. nóvember ákvað stjórn GKG að Birgir Leifur Hafþórsson færi fyrstur einstaklinga á heiðursvegg félagsins. Feril Birgis Leifs Hafþórssonar þekkja flestir kylfingar. Hann hefur um árabil verið okkar fremsti kylfingur, og er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur náð þátttökurétti á evrópsku mótaröðina í golfi. Á ferlinum hefur Birgir Leifur keppt í 58 golfmótum á evrópsku mótaröðinni og náði best 11. sæti á Opna ítalska mótinu, og alls 115 mótum á evrópsku áskorendamótaröðinni þar sem hann hefur náð best 3. sæti. Enginn kylfingur hefur sigrað oftar á Íslandsmótinu í höggleik, en Birgir Leifur hefur hampað þeim titli 7 sinnum. Birgir Leifur er glæsileg fyrirmynd annara kylfinga fyrir mikið keppnisskap og þrautseigju á löngum ferli. Hans framkoma innan vallar sem utan sýnir öll þau gildi sem við viljum halda í heiðri í golfíþróttinni.
Þá ákvað stjórn GKG að Guðmundur Oddsson, fyrrverandi formaður GKG til 10 ára yrðir heiðursfélagi klúbbsins. Guðmundur á stóran þátt í því að koma félaginu á þann stall sem það er í dag. Þar skal helst nefnt ráðningu þriggja framkvæmdastjóra, aukningu árlegrar veltu í rúmlega 200 m.kr., endurnýjun á leigusamningum við ríkið um GKG-svæðið til 20 ára frá 1. febrúar 2015 og síðast en ekki síst gerð samkomulags við Garðabæ og Kópavog um verulega hlutdeild í byggingu Íþróttamiðstöðvar GKG.
GKG skilaði góðum rekstri, heildar rekstrartekjur á starfsárinu námu 236 m.kr. Tekjur af félagsgjöldum námu 138 m.kr. sem er um 58% af heildartekjum. Heildar rekstrarútgjöld námu 205 m.kr. og því er hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir 31 m.kr. Að teknu tilliti til síðast töldu liðanna nam afkoman tæpum 5 m.kr.
GKG hefur staðið í miklum framkvæmdum á undanförnum misserum. Nú er búið að byggja upp aðstöðu fyrir félagsmenn sem er með því allra besta hér á landi og þó víðar væri leitað. Í ljósi þess, þá er GKG skuldsett umfram venjulegar rekstrarskuldir. Langtímaskuldir félagsins eru nú 353 m.kr. Á móti kemur inneign hjá sveitafélögunum upp á kr. 176 m.kr og því eru nettóskuldirnar 177 m.kr. Verulegt framlag kom frá félagsmönnum í formi sjálfboðaliðsvinnu. Framlag þetta er ómetanlegt á allan hátt en þó er ljóst að skuldirnar hefðu orðið umtalsvert hærri ef þeirrar vinnu hefði ekki notið við.
Ársreikning félagsins má sjá með því að smella hér.