Kæru félagar,
Á dögunum var kynnt niðurstaða samkeppni um rammaskipulags Vífilsstaðalands. Tillögur sem bárust í samkeppninni eru nú til sýnis í íþróttamiðstöð GKG. Að mati stjórnar og stjórnenda GKG er nauðsynlegt að skýra stuttlega fyrir klúbbfélögum bakgrunn samkeppninnar og þeirra hugmynda sem sjá má í niðurstöðu hennar.
Fyrr á þessu ári var lokið við endurskoðun aðalskipulags Garðabæjar þar sem allt Vífilsstaðasvæðið, þ.e. Hnoðraholt, GKG-svæðið og Rjúpnahæð eru skilgreind sem eitt þróunarsvæði á skipulagstímanum. Samkeppnin nú er upphaf þeirrar þróunarvinnu og er ætlað að mynda ramma fyrir frekari úrvinnslu og deiliskipulagsgerð sem er næsta og síðasta skrefið áður en hægt er að hefja framkvæmdir á svæðinu.
Árið 2015 höfðu bæjaryfirvöld í Garðabæ samband við klúbbinn og viðruðu hugmynd um að GKG gæfi eftir vestasta hluta Mýrarvallar, ásamt æfingasvæði, fyrir byggð, skóla og íþróttasvæði en fengi á móti jafnstórt landsvæði á Skyggnishæð, suðaustan íþróttamiðstöðvarinnar, í átt að Vífilsstaðavatni. Erindinu var vel tekið og í framhaldinu lögð mikil vinna í að skoða hvaða tækifæri gætu legið í hugmyndinni og hvort breyta mætti skipulagi valla klúbbsins með þessum hætti – en út frá þeirri forsendu að útkoman yrði ekki lakari en núverandi aðstaða. Fjölmargar hugmyndir voru skoðaðar af hálfu klúbbsins í samstarfi við golfvallahönnuð. Þrátt fyrir fjölda tillagna var niðurstaðan að engin lausn hefði komi fram sem stæðist forsenduna um að breytingar skiluðu aðstöðu sem í það minnsta jafnaðist á það sem fyrir væri. Ýmsir spennandi kostir voru uppi en niðurstaða þeirra sem að málinu unnu fyrir klúbbinn, var að enginn þeirra jafnaðist á það sem fyrir hendi væri nú.
Þegar kom að undirbúningi samkeppninnar var boðað til íbúafundar í Garðabæ. Þar var íbúum og hagsmunaaðilum gefinn kostur á koma sjónarmiðum á framfæri áður en samkeppnislýsing um rammaskipulagið var fullgerð. Í framhaldinu var hagsmunaaðilum, þ. á m. GKG, boðið að hitta dómnefnd samkeppninnar og kynna sín sjónarmið. Fulltrúar GKG mættu til fundar með ítarlega kynningu á klúbbnum, bæði starfi og þörf fyrir landrými og mannvirki. Atriði eins og að gætt væri að nægu landrými fyrir barnastarfið, æfinga- og kennslusvæði , vélamiðstöð o. fl. voru undirstrikuð. Einnig var lögð rík áhersla á að í breyttu skipulagi valla væri alger nauðsyn að upphafs- og lokabrautir beggja valla væru við íþróttamiðstöðina.
GKG er kunnugt um að til umræðu var að gera þá kröfu til þátttakendahópa í samkeppninni að golfvallahönnuður yrði í hverjum hópi. Frá því var hins vegar fallið og þess í stað var það borið upp við GKG hvort gerð yrði athugsemd við að leitað væri til Snorra Vilhjálmssonar golfvallahönnuðar GKG um að vera ráðgjafi dómnefndar í hennar störfum. Við það var ekki gerð athugasemd og skoðaði hann tillögurnar fyrir dómnefndina.
Nú liggur niðurstaðan fyrir og dómnefnd hefur raðað þeim fjórum tillögum sem bárust, í sæti. Að mati dómnefndar leysir engin tillaga öll atriði vel og af hálfu GKG er ljóst að í þeim felst ekki skipulagshugmynd sem er viðunandi fyrir klúbbinn, hvorki í 1. Verðlauna tillögunni né öðrum.
Samkeppnistillögurnar fjórar sýna hver á sinn hátt skipulag golfvalla. Því miður ber engin þeirra með sér að sérstök áhersla hafi verið lögð á hönnun golfvallarins, væntanlega fyrir það að ekki hafi verið leitað liðsinnis fagmanna á því sviði við gerð tillagnanna. Það er miður, en hafa þarf þetta í huga þegar tillögurnar eru skoðaðar.
Framundan er frekari þróun rammaskipulagsins áður en kemur að deiliskipulagsgerð. Stjórn og stjórnendur GKG munu hér eftir sem hingað til koma sínum sjónarmiðum skýrt á framfæri og leggja sig fram um að gæta hagsmuna klúbbsins og félaga hans.
Við stefnum að því að boða til félagsfundar á næstu dögum og fáum vonandi á hann fulltrúa frá Garðabæ.
GKG kveðjur,
Stjórn og stafsfólk GKG